Neita afa og ömmu um umgengni

Stundum neita foreldrar öfum og ömmum um að fá að umgangast barnabörn sín án sýnilegrar ástæðu. Slíkt getur haft í för með sér mikinn sársauka fyrir þau og barnabörnin. En það kunna að vera skýringar á því hvers vegna fólk fær ekki að umgangast barnabörnin sín.

Stundum er það fullkomlega réttmætt að foreldrar neiti öfum og ömmum um umgengnisrétt við barnabörnin sín. Þau geta verið kynferðisbrotamenn, alkóhólistar, fíklar og svo framvegis. Þau kunna líka að neita að fylgja ákveðnum reglum hvað varðar öryggi barnanna til dæmis í bíl eða inni á eigin heimili.

Foreldrar ættu líka að torvelda umgengni ef afar og ömmur:

Hvetja börnin til að óhlýðnast foreldrum sínum.

Baknaga  aðra í fjölskyldunni í áheyrn barnanna til að mynda stjúpforeldra, frændur frænkur eða afa og ömmu.

Neita að fylgja reglum foreldranna um háttatíma, sjónvarpsáhorf  og mat.

Gefa gjafir sem foreldrarnir eru ósáttir við.

Krefjast þess að fá meiri og meiri tíma með börnunum til dæmis að  þau fái að gista í tíma og ótíma.

En það kunna líka að vera allt aðrar ástæður fyrir því að fólk fær ekki að umgangast barnabörnin. Foreldrar sem eru fíklar neita oft öfum og ömmum um umgengni vegna þess að þau eru að reyna að halda neyslu sinni leyndri. Dæmigert mynstur er að foreldrarnir nota afa og ömmu sem barnapíur í upphafi en þegar þau fara að gera athugasemdir við neyslu foreldranna er klippt á samskiptin. Slík mál geta verið mjög erfið viðureignar.

Aðrar ástæður fyrir því að umgengni afa og ömmu eru torvelduð eru til að mynda mismunandi trúarskoðanir. Slæmt samband þeirra við tengdabörnin og ágreiningur í fjölskyldum sem hefur aldrei verið gerður upp. Stundum verða deilurnar svo illvígar að fólk segir hvað annað vera geðveikt, sjúklega lygara og svo framvegis. Slíkar ásakanir eru oft settar fram á netinu og gera slæm samskipti enn verri. Komi ekki til aðstoðar fagfólks geta slíkar fjölskyldur leyst upp í frumeiningar sínar.

Ritstjórn maí 15, 2019 07:39