Að bæta við sig nýjum förðunartrixum

Snyrtivöruverslunin Beautybox bryddaði upp á þeirri skemmtilegri nýjung að bjóða konum með þroskaða húð upp á námskeið í förðun. Natalie Hamezehpour förðunarfræðingur og vörumerkjastjóri Shiseido leiðir þátttakendur í gegnum nokkur skref að fullkominni förðun.

Búið er að stilla upp borðum, stólum og speglum þegar konurnar koma og bökkum með spennandi snyrtivörum. Það er boðið upp á hressandi drykk, osta og sæta bita. Það myndast strax góð stemning í hópnum og forvitni allra vakin.

Natalie byrjar á að kenna hvernig best sé að hreinsa og næra húðina til að byggja upp raka undir förðunina. Þannig er hægt að tryggja að húðin njóti sín og ljómi. Þetta er einnig ákveðin vörn gegn geislum sólar og mengun í andrúmsloftinu. Natalie sýnir Shiseido-húðvörur og útskýrir virkni þeirra og hvernig hægt sé að nota þær. Shiseido eru léttar, veita mikinn raka og eru ekki ilmsterkar.

Næst er komið að farðanum og hér er úr mörgum litum að velja og hver og ein fær sinn lit og svo er sýnt hvernig eigi að byggja upp sólkysst útlit og hraustlegt. Þá er tekin fyrir augnförðunin og og að lokum varirnar. Þetta er stórskemmtilegt og ómetanlegt að hafa aðgang að sérfræðingi á svona notalegan hátt. Natalie gengur á milli, kennir handtökin, mundar bursta og pensla og sýnir hvar falin leyndarmál í varalitablýöntum og augnabrúnalitum.

Þegar allir eru fullfarðaðir gefst tækifæri til að fá frekari ráð, skoða, fikta og velja það sem hæfir hverjum einstaklingi best. Þetta fyrsta námskeið var fullskipað og greinilegt að konur kunna að meta þessa nýung. Frekari upplýsingar er að fá á vefsíðunni, www.beautybox.is.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 11, 2024 07:00