Langeldaður heill kjúklingur og meðððí …

Langeldaður heill kjúklingur í ofni er einfaldasta matargerð sem um getur. Þegar hægt er að ráða hitastiginu nákvæmlega er hægur vandinn að útbúa kjúklinginn eins og bestu kokkar gera og það með lítilli fyrirhöfn. Meðlætið er alls konar grænmeti sem sett er í ofnskúffuna með kjúklingnum og úr verður dýrlegt soð sem gott er að bragðbæta sósuna með ef vill. Hér fylgir auk þess uppskrift að kaldri sósu sem er sérlega ljúffeng.

Nuddið kjúklinginn með olíu sem blönduð hefur verið með salti og pipar og þeim kryddum sem eru í uppáhaldi. Þar má nefna chili, karrí, jafnvel garam masala. Hitið ofninn í 160°C og látið kryddaðan kjúklinginn í ofnskúffuna fjórum tímum áður en máltíðin á að hefjast. Hellt er olíu yfir kjúklinginn af og til. Þegar klukkutími er eftir af eldunartímanum er grænmetið sett í ofnskúffuna og látið eldast með. Síðan er stillt á grill þegar 20 mínútur eru eftir af eldunartímanum og kjúklingurinn látinn brúnast. Berið fram með kaldri sósu.

Köld sósa:

1 dós sýrður rjómi

2 hvítlauksrif, marin

2 msk. soja sósa

1 tsk. hnetusmjör

Öllu hrært saman og látið standa í ísskáp áður en sósan er borin fram.

Ritstjórn júlí 2, 2021 15:12