Tengdar greinar

Fjör þegar barnabörnin koma í heimsókn

Það er mikið um að vera hjá Einari Vilhjálmssyni spjótkastara. Hann er í fullri vinnu hjá Origo og þjálfar flesta daga eftir vinnu. Hann hefur verið giftur sömu konunni í 37 ár, á með henni þrjú börn og afabörnin eru orðin fjögur. Hann segir mikið stuð þegar barnabörnin koma í heimsókn til afa og ömmu.

Mikið var fjallað um feril Einars í fjölmiðlum.

Afreksmaðurinn Einar

Einar er einn okkar frægasti afreksmaður í íþróttum. Á níunda og tíunda áratug síðustu aldar vissi hvert mannsbarn hver hann var og jafnvel þeir sem höfðu engan áhuga á íþróttum fylgdust grannt með glæstum ferli hans. Einar náði á ferli sínum að sigra á einhverjum tímapunkti alla heimsmethafa, heimsmeistara, Ólympíumeistara og Evrópumeistara í spjótkasti að Austur Þjóðverjanum Uwe Hohn undanskildum. Þeir mættust á IAAF stórmótaraðarmóti, Grand Prix Mobile, á Ólympíuleikvanginum í Stokkhólmi í júní 1985. Meðal keppenda var einnig fyrrverandi heimsmethafi, Tom Petranoff. Einar leiddi keppnina frá fyrstu umferð og jók forskot sitt fram í 4. umferð.  Í 5. Umferð náði Uwe Hohne forustunni og sigraði. Einar hafnaði í öðru sæti.  Sama ár sigraði Einar á fjórum Grand Prix mótum, var á verðlaunapalli á öðrum fjórum og var stigahæsti frjálsíþróttamaður heims í stórmótaröð IAAF 1985 – og eru þá allar frjálsíþróttagreinar meðtaldar. Forystunni hélt hann fram í ágúst sama ár. Meiðsli á olnboga settu strik í reikninginn á úrslitamótinu í Róm og hann hafnaði í 3. sæti í heildarstigakeppni spjótkastsins. Sama árangri náði Einar í stórmótaröð IAAF 1991 með nýja spjótinu. Aðeins Einar og Tom Petranoff náðu þeim árangri með báðum spjótgerðum.  Einar lauk keppni með háskólaliði Texas háskólans í Austin 1985 og hafði þá tvívegis orðið háskólameistari NCAA, sett meistaramótsmet NCAA (89.98m) og slegið eitt elsta háskólamet í sögu NCAA á þeim tíma með kasti upp 92.42m sem er lengsta spjótkast í sögu NCAA frá upphafi og stendur enn. Keppnisferill Einars spannar um 220 mót í um 22 löndum og hafnaði hann á verðlaunapalli á um 200 þeirra. Geri aðrir betur. Árið 1986 var þyngdarpunkti spjótsins breytt og ný metaskrá tók gildi. Íslandsmet hans er 86,80 metrar, sett 30. ágúst 1992 það stendur enn rúmum 25 árum síðar.

Starfsmaður Origo

Ungur að árum.

Í dag vinnur Einar sem ráðgjafi viðskiptalausna hjá fyrirtækinu Origo og starfar sem sérfræðingur í Timian innkaupa-og beiðnakerfinu. „Viðskiptalausnin tengir innkaupaaðila og birgja saman með nýstárlegum hætti í heildstætt viðskiptaumhverfi. Timian viðskiptalausnin býður upp á áður óþekkta skilvirkni við að stýra innkaupum á hagkvæman hátt  og verkfæri til greiningar gagna og bestunar í nýtingu aðfanga – sem þýðir minni sóun.  Rafræn tenging á gögnum í Timian við önnur kerfi skapa áður óþekkt hagræði við að tryggja samþykkt réttra reikninga fyrir bókhald,“ segir Einar og bætir við „einkafyrirtæki og opinberir rekstraraðilar geta sótt sér kennslu og þjálfun í notkun Timian og ráðgjöf við innleiðingu gæðastýrðra verkferla sem hugbúnaðurinn styður.“  En hvernig  kom það tiil að hann fór að vinna hjá Origo. „Vinnu mína við Timian viðskiptalausnina  má rekja til þess að ég tók að mér sérverkefni hjá Reykjavíkurborg á árunum 2013 til 2014 sem laut m.a. að samræmingu á hráefnanotkun í skólum borgarinnar. Í því fólst m.a. að nota Timian vefinn til að reikna út og birta næringarútreiknaða matseðla  á heimasíðu skóla.  Samhliða voru verkfæri Timian kynnt til að ná fram sem hagstæðustum innkaupum. Verkefnið gekk vel og fékk Nýsköpunarverðlaun Rannís árið 2014,“segir Einar og heldur áfram „við verkefnislok hjá Reykjavíkurborg bauð frumkvöðullinn og eigandi Timian Software ehf., Rafn Benedikt Rafnsson, mér starf hjá fyrirtækinu. Fyrirtækið var lítið en metnaðurinn mikill. Það var áskorun að taka við stjórnun breytinga á íslenskum B2B markaði. Viðfangsefni fyrirtækisins var göfugt og þjóðhagslega hagkvæmt. Fyrirtækið dafnaði vel næstu þrjú árin þótt fámennt væri en í nóvember 2017 keypti Nýherji fyrirtækið með manni og mús. Þann 5. janúar síðast liðinn  var Origo hf. stofnað með samruna Nýherja, Applicon og TM Software og í kjölfarið varð ég starfsmaður Origo hf.  Innan Origo hf. hefur allt svigrúm stóraukist til að bjóða upp á allsherjar viðskiptalausnir í rafrænu og skilvirku rekstrarumhverfi og sníða lausnir að þörfum hvers og eins. Þetta er afskaplega skemmtilegt og áhugavert starf sem lýtur m.a. að þjóðhagslega hagkvæmum breytingum á verkferlum til bestunar í innkaupum, nýtingu aðfanga og skilvirkni í frágangi réttra reikning fyrir bókhald.“

Langar að loka hringnum

Einar segist ekki vera hættu afskiptum af skipulögðu íþróttastarfi. „Eftir að ég hef lokið vinnu minni hjá Origo á daginn kem ég flesta daga við í Laugardalnum og þjálfa unglinga og efnilega spjótkastara í að verða

Einar ásamt Sindra Hrafni og Dagbjarti, ungum og efnilegum íþróttamönnum.

betri í íþróttinni.  Ég aðstoða Guðmund Sverrisson og Dagbjart Daða Jónsson hjá ÍR. Guðmundur hefur lengst kastað 80,66 metrar, á mikið inni, en á við meiðsli að stríða um þessar mundir. Dagbjartur Daði er ungur og upprennandi, hans besta kast er 70,14 m. Þá hef ég aðstoðað Helga Sveinsson úr Ármanni síðastliðin ár en hann er heimsmethafi í spjótkasti fatlaðra, 59,77m sem er magnaður árangur og stefnir hann á enn frekari afrek á næstu árum. Þá er ónefndur Sindri Hrafn Guðmundsson, sem stundar nám í USA og kastaði þar nýverið 80,49m sem er heimsklassaárangur fyrir kastara á 22. aldursári.“

Einar segir að honum þyki mjög skemmtilegt að sjá framfarir í spjótkasti hér á landi. „Það skemmir heldur ekki fyrir að ég er að vinna með ungmennum sem gætu slegið Íslandsmetið mitt. Það væri svo sannarlega rúsínan í pylsuendanum fyrir mig ef einhver af þeim sem ég er að þjálfa núna nær að slá metið. Þá er hringnum lokað í ákveðnum skilningi.“

Kynntist konunni 15 ára

Einar og Halldóra eiginkona hans til tæpara 40 ára.

Einar er giftur Halldóru Dröfn Sigurðardóttur, aðstoðar leikskólastjóra á Gullborg.  „Við höldum upp á 37 ára brúðkaupsafmælið okkar 31.maí. Við kynntumst í Héraðsskólanum í Reykholti þegar við vorum 15 ára gömul og höfum fetað lífsveginn saman síðan þá með einum eða öðrum hætti. Við eigum þrjú börn, Gerði Rún, Vilhjálm Darra og Valdimar Orra.  Frumburðurinn Gerður Rún er búsett í Danmörku þar sem hún lauk meistaragráðu og starfar sem fjármálastjóri. Hún og eiginmaður hennar, Davíð Ingi Daníelsson, eiga þrjú börn, Emilíu Dröfn, Daníel Orra og Einar Darra. Það er mikið fjör þegar þau koma í heimsókn til Íslands og fara í sund og veiði með afa. Vilhjálmur Darri starfar hjá Brimborg og stundar viðskiptanám við Háskólann á Bifröst.

Hann á einn son Oliver Darra. Valdimar Orri stundar nám í hagfræði við Háskóla Íslands. Börnin okkar hafa öll tekið þátt skipulögðu keppnisíþróttastarfi. Gerður Rún mest í handbolta með Gróttu og keppti einnig fyrir Íslands hönd í unglingalandsliðinu. Vilhjálmur Darri mest í knattspyrnu með KR og keppti einnig fyrir Íslands hönd í unglingalandsliðinu  Valdimar Orri stundaði, körfubolta, knattspyrnu og Tae Kwon Do og hefur gaman af öllu.

Rósir lífs míns ber mér sannarlega að þakka fyrir sem og þá þyrna sem þeim kann að hafa fylgt. Án tilfallandi sársauka er mannveran vart á lífi. Framtíðin er björt og full af tækifærum til að gefa og efla hið megnuga sjálf.“

Ritstjórn maí 18, 2018 06:41