95 ára hefur fjölgað um þriðjung á 30 árum

Íslendingum sem eru 95 ára hefur fjölgað um næstum þriðjung á þrjátíu árum.  Árið 1986 voru þeir 41. Áratug síðar eða árið 1996 hafði þeim fjölgað um tæpan helming og voru það ár 80. 95 ára fækkaði aðeins árið 2006 en þá voru þeir 75 en árið 2015 voru þeir 110. Hagstofan hefur ekki tekið saman tölur fyrir þetta ár. Þetta er svipuð þróun og í Danmörku þar voru 95 ára, 1052 árið 1986 en í ár eru þeir 3.268. Í grein sem Jesper Bay Hansen, skrifar á vef danska ríkisútvarpsins segir að 12 prósent stúlkna sem fæðast í ár geti vænst þess að verða 95 ára og fimm prósent drengjanna. Lífslíkur barna sem fæðast hér á landi eru svipaðar.

Ætlar að verða hundrað ára

Gitte Lensfort.

Gitte Lensfort.

Í grein Jespers er rætt við Gitte Lensfort sem fæddist 1920 og hefur lengst af ævinnar verið heimavinnandi húsmóðir í Kaupmannahöfn. Gitte segist ekki upplifa sig gamla. „Aldur er bara tala á fæðingavottorðinu,“ segir hún. Gitte segir að þá fyrst sé maður orðin gamall þegar maður hefur ekki löngun til að gera neitt og langar ekki að hitta annað fólk.  Sjálf segist hún hafa unun af því að hitta annað fólk, sauma út, halda sig til og fara með vinkonum sínum á veitingahús til að borða góðan mat og kíkja á „huggulega menn.“  Hún segist alltaf vera til í að kíkja aðeins út. Gitte hefur verið ekkja í 15 ár og hún segist hafa séð á bak mörgum góðum vinkonum. Þrátt fyrir það segist hún njóta lífsins, ferðast og kynnast nýju fólki. Gitte segist við góða líkamlega heilsu þó hún finni vissulega fyrir því að aldurinn sé að færast yfir. Hún sé fljótari að þreytast en bæti það upp með því að sofa lengur á morgnana. „Tíminn líður allt of hratt,“ segir þessi lífsglaða kona sem stefnir að því að verða hundrað ára og halda stóra veislu af því tilefni.

 

 

Ritstjórn febrúar 26, 2016 11:06