Er ég bara á síðasta söludegi?

Það getur verið strembið að finna vinnu eftir 45 ára aldur. Eva Dögg Sigurgeirsdóttir fékk að kenna á því og hún deilir reynslu sinni af atvinnuleit í nýjasta hefti Vikunnar. Eva Dögg sagði starfi sínu lausu sem markaðsstjóri Smáralindar vegna þess að hana langaði að vera heima hjá börnum sínum. Hún opnaði í kjölfarið aftur vefinn tiska.is. Í Vikunni segir hún: „Eftir nokkur ár í harki við að reyna að afla tekna í gegnum vefmiðil ákvað ég að fara aftur út á vinnumarkaðinn en þá fattaði ég að ég var eiginlega búin að missa af velgengnislestinni enda var ég þá orðin fjörutíu og fimm ára.“  Eva Dögg segist hafa orðið vör við aldursfordóma þegar hún var í atvinnuleit. „Ég mætti ákveðnum viðbrögðum víða þar sem ég sótti um. Eitt sinn tók á móti mér í atvinnuviðtali ungur maður, svona sölumanns-töffaratýpa sem vann fyrir starfsráðningafyrirtæki hér í borg. Í lok viðtalsins sagði hann við mig“Nei, þeir vilja örugglega eitthvað nýtt og ferskt.“ Eftir á að hyggja efast ég, stórlega um að umsóknin mín hafi borist atvinnurekandanum sem var að auglýsa þetta starf. Ég man að ég hugsaði með mér eftir viðtalið, já, er ég bara á síðasta söludegi? Ég datt í smávegis niðurrif en fann þetta að vísu líka þegar ég fór í viðtal þar sem kona sem tók viðtalið fór að spyrja mig spurninga sem komu viðtalinu ekkert við,“ segir Eva Dögg og bætir við: „Við þurfum að átta okkur á því að það er enginn síðasti söludagur lengur. Það að vera miðaldra hefur færst mun ofar en áður þannig að í dag er miðaldra það að vera 60+. Í dag einbeitir Eva Dögg sér að rekstri tiska.is en tekur einnig að sér verkefni við markaðssetningu fyrir ýmiss fyrirtæki, bæði stór og smá að því er fram kemur í Vikunni.

Ritstjórn júní 5, 2018 14:51