Einstakir tónleikar verða haldnir í Hannesarholti miðvikudaginn 5. febrúar. Þar sameinast Lodestar Trio og tónskáldið, stjórnandinn, pródúsentinn, Hjaltalín-meðlimurinn, fiðlu- og lágfiðluleikarinn Viktor Orri Árnason og áheyrendum gefst tækifæri til að hlýða á og kynnast athyglisverðri tónlist þessara frábæru tónlistarmanna.
Lodestar Trio er einstakt þríeyki. Tríóið samanstendur af þremur fiðlusnillingum sem leika á mismunandi „fiðlur“. Erik Ryddval leikur á sænska lykilhörpu eða nyckelharpa, hljóðfæri sem mætti lýsa sem afkvæmi fiðlu og hurdy-gurdy, Olav Mjelva leikur á norska harðangursfiðlu og Max Baillie leikur á hefðbunda fiðlu. Lodestar Trio hefur vakið athygli um allan heim fyrir lifandi og frumlega túlkun sína á barokktónlist, skandinavískri þjóðlagatónlist og flutningi á eigin tónsmíðum. Félagarnir gáfu út plötuna „Bach to Folk“ sem hefur fengið hástemmt lof frá gagnrýnendum og áhugafólki. Allir þrír eru eftirsóttir einleikarar og kammertónlistarmenn.
Viktor Orri Árnason gefur lítið í skilgreiningarnar á milli tónlistarstefna og hefur náð miklum árangri sem poppari, klassískur tónlistarmaður, kvikmyndatónlistarframleiðandi, fram-úr-stefnu tónlistarmaður og tónskáld. Hann gaf út nýverið plötuna „Poems“ ásamt Álfheiði Guðmundsdóttur undir merki Deutsche Grammophon, elsta og virtasta útgáfufyrirtæki heimsins.
Það verður því spennandi að heyra hvað Lodestar Trio og Viktor Orri eru búnir að vera æfa saman. Nebensonnen eða aukasólir kallast tónleikarnir og er verið að vísa í ljós- og veðurfyrirbærið sem myndast þegar sólargeislarnir brotna í ískristöllum í grábliku og tvær minni „sólir“ sjást á himni fyrir austan og/eða vestan sólu og oft fylgir risabaugur með. Aukasólin vestan við sólu nefnist gíll, en sú austari úlfur. Fjöldi aukasóla þótti áreiðanleg veðurspá á fyrri öldum, og þaðan kemur málshátturinn „sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni.“ Eins og þrjár sólir og risabaugur munu Lodestar Trio og Viktor Orri lýsa upp skammdegið í Hannesarholti og boða betri tíð.