Fjórða bókin á eftirlaunaárunum

Halldór Svavarsson, fæddur í Vestmannaeyjum árið 1942, hefur nú sent frá sér sína fjórðu bók frá því hann fór á eftirlaun og öðlaðist þar með ráðrúm til að helga sig ritstörfum. Nýja bókin, Strand Jamestowns, hefur vakið verðskuldaða athygli, en hún fjallar um nærri gleymdan stórviðburð frá seinni hluta nítjándu aldar: strand risastórs seglskips á Suðurnesjum árið 1881. Jamestown var nærri 110 metra langt og um 4.000 brúttótonn og var fulllestað úrvalstimbri þegar það rak mannlaust á land við Hafnir. Það var smíðað í Maine í Bandaríkjunum árið 1869 og var af síðustu kynslóð fragtskipa sem nýttu vind en ekki gufuafl til að þvera heimsins höf.

Blaðamaður Lifðu núna hitti Halldór á heimili hans í Hafnarfirði og byrjaði á að spyrja hvernig það kom til að hann

Halldór Svavarsson

hellti sér út í ritstörf þegar hann komst á eftirlaun.

„Sko, upphafið er það að ég hef alla tíð verið að skrifa. En ég kláraði aldrei neitt,“ segir Halldór og vísar til þess að allur hans tími hafi jafnan farið í brauðstritið. Hann hafi samt alltaf haft gaman af að skrifa. „Í gegn um tíðina skrifaði ég oft hjá mér hluti. Þegar ég loksins fékk tíma til að sinna skrifum, orðinn sjötugur, var ég nú búinn að henda miklu af svona gömlu efni. Mér hafði ekki fundist það nógu gott á ákveðnum tíma. En ég sé eiginlega eftir því núna; það hefði kannski verið hægt að laga eitthvað af því. En hvað sem því líður: Það er ekki fyrr en ég er hættur að vinna sem mér gefst tími til að sitja svolítið við skriftir. Og þá ákveð ég að klára nú eitthvað,“ segir hann og brosir í kampinn. Í formála nýjustu bókarinnar þakkar hann konu sinni þolinmæðina og lýsir þannig hvernig ritstörfin hafa haft áhrif á heimilislíf þeirra hjóna: „Hún Vigdís mín hefur liðið mér að leggja undir mig borðstofuborðið í fjögur ár og aldrei kvartað. Þolinmæði er góður eiginleiki.“

Fyrst skáldsögur fyrir ungmenni

„Fyrsta bókin, sem kom út undir titlinum Lífsháski, er skáldsaga einkum ætluð ungmennum. Hún er að hluta byggð á mínum eigin upplifunum úr æsku í Vestmannaeyjum,“ greinir Halldór frá. Hún hafi nýst vel til gjafa til barnabarna sinna. Það hafi endað með því að hann gaf bókina út sjálfur, þar sem „það vill náttúrulega enginn gefa út bók eftir gamlan kall,“ eins og hann orðar það.

Næsta bók, Lífsbjörgin, er líka skáldsaga ætluð yngri lesendum. Sögusvið hennar er landnámsöldin á Íslandi. „Það var nú ekki mikil sala í þessum bókum, en þær hafa fengið góðar umsagnir,“ vekur Halldór athygli á. Þriðja bókin er aftur á móti sannsöguleg. Hún heitir Grænlandsför Gottu og kom út fyrir þremur árum, en hún fjallar um tilraun sem gerð var á þriðja áratugnum til að flytja sauðnaut frá Grænlandi hingað til lands, til ræktunar. Þessi bók hlaut heldur ekki mikla sölu, en góðar umsagnir rétt eins og fyrri bækurnar tvær.

Heldur skáldskap og heimildaskrifum aðskildum

Halldór heldur semsagt skáldsagna- og heimildaritaskrifum skýrt aðskildum. „ ‚Ég hef ekki þorað að fara út í að skrifa skáldsögu byggða á heimildum; annað hvort er ég að skrifa skáldsögu og það er alveg ljóst allan tímann. Eða ég gef mér tíma í að afla heimilda eftir því sem hægt er. Því hitt kann ég bara ekki,“ segir rithöfundurinn roskni.

Nýjasta bókin, Strand Jamestowns, er eins og Grænlandsför Gottu hreinræktað heimildarit. Um hana segir Halldór: „Ég frétti fyrst af þessu sögulega strandi þegar ég fór í ferð með Lionsklúbbnum mínum þarna suður með sjó. Við fengum til leiðsagnar kennara úr Keflavík sem leiddi okkur um svæðið og sagði okkur frá miklu strandi sem þarna hefði orðið, og það var seglskip!,“ rekur Halldór og bætir við að sjálfur sé hann menntaður seglasaumari, annar af tveimur núlifandi Íslendingum sem lært hafi seglasaum samkvæmt því sem kröfur voru um á sínum tíma. „Kannski lærði ég seglasaum vegna þess að ég hafði gaman af þessu gamla eða kannski hafði ég bara gaman af þessu eftir að ég fór að læra seglasaum,“ segir hann íbygginn, en Halldór rak um árabil seglaverkstæði í Vestmannaeyjum, fyrir gos. Hann var síðar kaupmaður í Reykjavík og Hafnarfirði.

Sagan rakin frá smíði til arfleifðar

Halldór viðaði að sér heimildum um strand Jamestowns víða að og naut við það meðal annars fulltingis hóps áhugafólks um Jamestown-strandið sem Tómas Knútsson kafari hefur verið í forsvari fyrir. Þegar fyrstu handritsdrög voru komin á blað æxluðust mál þannig að Jónas Sigurgeirsson, útgefandi við Almenna bókafélagið, studdi Halldór með ráðum og dáð við að klára handritið, miðlaði honum aðstoð við að afla heimilda erlendis frá o.s.frv. Snorri G. Bergsson sagnfræðingur veitti fræðilega ráðgjöf o.fl. Sonur Halldórs, Svavar, var honum líka innan handar, tók m.a. margar myndanna sem prýða bókina. Strand Jamestowns er fyrsta bók Halldórs sem kemur út hjá rótgrónu bókaforlagi.

Í bókinni rekur Halldór söguna allt frá smíði skipsins til nútímans. Hann leitast við að svara áleitnustu spurningunum sem upp komu eftir strandið, og um arfleifð þess: Hvers vegna var skipið mannlaust? Hvað varð um áhöfnina? Hver átti skipið? Á hvaða leið var það? Hvað varð um farm skipsins? Voru einhver þekkt mannvirki smíðuð úr Jamestown-timbrinu? Öllum þessum spurningum, og fleirum, er svarað af kostgæfni í bókinni.

Auðunn Arnorsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn desember 21, 2021 08:17