„Það er alltaf eitthvað að baki hverri ákvörðun“

Guðrún Guðlaugsdóttir hefur verið sílesandi og skrifandi frá því hún var barn. En þegar kom að því að velja sér nám fannst henni leiklistin freistandi og sér ekki eftir því. Þar var henni kennt að setja sig í spor persóna og finna út hvað helst drifi hvern og einn áfram. Þegar Guðrún hóf að skrifa skáldsögur kom það að góðum notum ásamt áhuga hennar á fólki og forvitninni sem gerir það að verkum að hún horfir, hlustar og safnar áhugaverðum atvikum í sarpinn.

Guðrún er afkastamikil og hefur auk þess að skrifa fjölmargar greinar,  fréttir og handrit að útvarpsþáttum, skrifað tólf skáldsögur, tvær ljóðabækur, fjórar viðtalsbækur, tvær ævisögur og nokkrar smásögur.  Sumir myndu segja að þetta væri nokkuð gott ævistarf en hún er ekki alveg viss um að hún sé hætt.

„Ég hef alla tíð lesið mikið, varð snemma læs og skriftir hafa fylgt mér frá því ég var unglingur,“ segir hún. „Kennarinn las ritgerð eftir mig upphátt þegar ég var í fyrsta bekk í gagnfræðaskóla og það þótti svolítið merkilegt þá. Svo var það að ég fór að vinna í gróðurhúsum á Varmalandi í Borgarfirði eitt sumar og svaf í litlum kofa með vinkonu minni. Við fórum að rífast, í fyrsta og eina skiptið sem við höfum rifist, og hún stökk út. Eftir sat ég í miklu uppnámi og úr varð ljóð. Þegar hún kom aftur var hún með mikinn þjóst og spurði: „Hvað ert þú að gera?“ Ég svaraði: „Ég er búin að yrkja ljóð.“ Svo las ég það fyrir hana og þá varð hún alveg dolfallin og spurði: „Gunna ertu bara búin að yrkja kvæði?“

Ég var fimmtán ára og þetta var fyrsta heila ljóðið sem ég orti. Ég stóð ein og horfði á könguló sem skreið um gólfið. Ég fór að hugsa um tilvistina – að meira að segja köngulær ættu sér líf og sorgleg örlög.

Fyrsta sem birtist eftir mig opinberlega var barnaleikrit sem flutt var í útvarpinu skömmu eftir námslok. Skólasystkini mín léku í því. Ég hélt líka alltaf áfram að yrkja ljóð meðfram öðru sem ég var að gera. Skriftir hafa alltaf verið stór hluti af lífi mínu.“

Skrifar af innri þörf 

Hvernig hafði sex barna móðir tíma til að sinna þessu öllu? Einhver hefur áhuginn verið.

„Fyrsta útgefna viðtalsbókin mín kom þannig til að ég hafði tekið viðtal fyrir Útvarpið  við Tryggva Einarsson í Miðdal. Í kjölfar þess kom Örlygur Hálfdánarson heim til mín og spurði hvort ég vildi vera svo væn við að skrifa bók um Tryggva,“ segir hún og brosir. „Ég var þá með fimm börn, tvíburana mína á fyrsta ári svo þetta var nokkuð umhendis en ég gerði það samt.  Við fórum upp í Miðdal ég og maðurinn minn sem ég missti. Þetta voru skemmtiferðir. Ég fór upp eftir, spjallaði við Tryggva, tók upp, fór heim og skrifaði og hélt síðan aftur af stað og fékk nýtt efni. Þessi bók heitir  Í veiðihug. Ljóðabækurnar tvær komu út næst. Svo skáldsagan Nellikur og dimmar nætur. Þar var ég að skrifa um lífið og tilveruna og margvíslega lífsreynslu sem mig langaði að koma frá sér, svo sem lát maka. Eins og margir rithöfundar skrifa ég af einhverri innri þörf og fæ útrás í því.“

Dreymdi ekki um að verða leikkona 

Þrátt fyrir að skrifin hafi legið svona vel við þér ákveður þú samt að fara í leiklistarskóla. Hvers vegna var það? Var það einhver draumur að verða leikkona?

„Nei aldrei,“ segir hún. „Ég var að vinna á lögfræðiskrifstofu hjá Páli S. Pálssyni og fannst ég þurfa að læra eitthvað. Hugsaði mér að verða kannski ljósmóðir en hafði frétt að þá þyrfti ég að vera í heimavist. Það leist mér ekki á. Ég fór í símaskrána til að fá frekari upplýsingar en rakst þá á símanúmerið hjá Leiklistarskóla Ævars Kvaran. Og hugsaði með mér, já þetta gæti nú verið eitthvað. Að loknu eins vetrar námi sagði Ævar við mig: „Guðrún, mér finnst að þú eigir að reyna við Leiklistarskóla Þjóðleikhússins. Hann er nú þrjú ár og verulega fínn.“ Ég lauk því námi og einu ári í workshop.

Leiklistarnámið hefur reynst vel. Ég held að það sé hollt fyrir rithöfunda að hafa kynnst leikhúsi. Maður þarf að stúdera svo mikið persónur og stór hluti af því að skrifa skáldsögur er einmitt persónusköpun. Maður þarf að hafa áhuga fyrir fólki til þess að langa til að skrifa um það.

Ég var ekki gömul þegar ég fór að velta fyrir mér af hverju fólk gerði hitt og þetta. Ég vildi vita hvað lægi að baki ákvörðunum og hvers vegna þessi niðurstaða varð en ekki önnur.

Það er alltaf eitthvað að baki hverri ákvörðun og oft er fólk í sjálfsafneitun varðandi hvað það er. Um ansi margt sem fólk gerir segir það: „Æ ég veit það ekki. Þetta var bara algjör tilviljun.“ En fátt af því sem fólk gerir er tilviljun, flest er ómeðvitað vegna þess að það er til dæmis ástfangið, vill ná sér niður á einhverjum eða ná frama. Margvíslegar hvatir rekur manneskjuna áfram. Leit að öryggi er mjög stór þáttur í lífi fólks. Í leiklist segja handritin sem þú færð í hendur oft fremur  lítið um persónurnar. Þú þarft gjarnan sjálf að ákveða hvað býr að baki hverri setningu.

Guðrún Guðlaugsdóttir

Frumkvöðull í blaðamennsku 

Guðrún leikur sér að því að segja: “Jah há þú segir það” með mismunandi áherslum, blæbrigðum og líkamstjáningu og sannfærir þar með blaðamann um að hægt sé að koma fjölbreyttum skilaboðum og tilfinningum fyrir í þessum fáu orðum.

„Já, hvað er hún að hugsa og hvers vegna segir hún þetta. Það þarf maður að skoða til að geta mótað persónuna og það lærir maður meðal annars í leiklistarskóla. Einmitt þetta að hugsa mikið um fólk og persónur hefur nýst mér vel í öllum skrifum. Viðtölum líka.“

Í blaðamennskunni varst þú einmitt mikill frumkvöðull. Þín viðtöl fóru gjarnan á dýptina og höfðu meiri tilfinningaskírskotun en viðtöl karlanna. Þú fórst líka gjarnan inn í mál sem aðrir höfðu ekki hætt sér út í og voru almennt ekki rædd, sum viðtölin mörkuðu tímamót.

„Ja – ég minnist þess reyndar að ég tók fyrsta viðtal sem birt var á Íslandi við transkonu. Hún var norsk og hét Eva. Ég var í heimsókn hjá bróður mínum og hann bendir mér á þessa konu á götu og spyr hvort mér finnist eitthvað sérstakt við hana. „Nei, hún er bara stór,“ sagði ég. „Hún var einu sinni karlmaður,“ sagði hann. Ég sagði strax: „Viltu biðja hana að hitta mig?“ Ég tók þetta viðtal og Matthías Johannessen sagði við mig: „Guðrún, hvert ert þú að fara með þetta blað?“ Það er svo langt síðan þetta var en Eva var önnur konan á Norðurlöndum sem gekk alla leið og fékk kynleiðréttingu.

Ég tók einnig viðtal við konu sem varð fyrst til að fá mann sinn dæmdan fyrir heimilisofbeldi. Það gerði ég fyrir atbeina Kvennaathvarfsins. Guðrún Jónsdóttir eldri bað mig að ræða við þessa konu. Þær hjá Kvennaathvarfinu hringdu stundum í mig og báðu mig að skrifa um ýmis efni sem viðkom kynbundnu ofbeldi.“

Bannað að skrifa um dóttur sína

Pistlarnir þínir í Morgunblaðinu vöktu líka gríðarlega athygli. Þar kvað við nýjan tón. Í stað þess að skammast, gagnrýna eða koma með athugasemdir um þjóðmálin og pólitík var verið að skrifa um hversdaginn. Draga upp myndir af lífi konu og draga ályktanir af einhverju sem hafði hent.

„Já, ég uppgötvaði það tiltölulega fljótt að litlu hlutirnir skipta miklu máli og verða oft til þess að stóru hlutirnir gerast,“ segir hún. „Ég notfærði mér það. Ég skrifaði sannarlega oft um fólkið mitt oft og vinkonur mínar líka. Ég man sérstaklega eftir einum pistli. Ég átti það til að gleyma að setja í skóinn á aðventu. Yngsta dóttir mín safnaði saman aurunum sínum og fór út í búð og keypti þrettán gjafir, kom með þær til mín og sagði: „Ég ætla rétt að vona að þú munir svo eftir að setja í skóinn.“ Ég held hún hafi verið tíu eða ellefu ára þegar þetta var og ég gat ekki stillt mig um að skrifa um þetta. Svo segir einhver stelpa í skólanum við hana: „Varst það þú sem keyptir gjafir í skóinn vegna þess að mamma þín nennti ekki að setja í skóinn?“ Þá kom hún heim agalega reið og sagði: „Mamma varst þú að skrifa um mig og allar gjafirnar í skóinn?“ Ég viðurkenndi það og þá sló hún í borðið og sagði: „Mamma þú mátt aldrei skrifa um mig aftur, aldrei.“ Maður gekk óneitanlega stundum fullnærri fólkinu sínu vegna þess að margt getur skemmtilegt skeð í kringum stóra fjölskyldu.“

Saknar hliðarveruleikans 

Eftir langt starf á Morgunblaðinu fór Guðrún snemma á eftirlaun en þörfin fyrir að koma orðum á blað lét hana ekki friði. Gamalt mál þar sem mannabein höfðu fundist undir þakskeggi í húsi sem verið var að endurbyggja urðu kveikjan að fyrstu bókinni um Ölmu blaðamann, forvitna konu með stjórnlausan áhuga fyrir fólki, svolítið eins og Guðrún sjálf. Tíunda bókin um Ölmu, Dagstjarnan kom út fyrir jólin og er nýlega komin á Storytel. Þetta verður líklega síðasta bókin um þessa litríku persónu að sögn Guðrúnar.

„Ég hafði skrifað tvær skáldsögur áður en sakamálasögurnar tíu um Ölmu blaðamann urðu til. Nellikur og dimmar nætur sem ég minntist á hér að ofan og Í órólegum takti. Sú saga átti þá forsögu að Kristján bróðir minn, sem bjó í Noregi, bað mig að taka á móti tyrkneskum Kúrda, flóttamanni. Eftir ýmis ævintýri veitti Óli Þ. Guðbjartsson þáverandi dómsmálaráðherra honum dvalarleyfi, manninum hefur vegnað vel hér.. Út frá þessu efni skrifaði ég fyrrgreinda skáldsögu.

Núna hef ég ekki hug á að skrifa fleiri bækur um Ölmu. Ég sakna þess vissulega að hafa ekki þennan skemmtilega hliðarveruleika, þar sem maður getur stungið niður öllu því skemmtilega, sorglega og skrýtna sem kemur upp í umhverfinu. Maður hugsar þá oft; þetta get ég nýtt mér! En maður skyldi samt aldrei segja aldrei. Ég er búin að skrifa drög að skáldævisögu og veit ekki nema ég snúi mér að því að klára hana.”

Átti erfitt með glæpaverkin 

Áttu eftir að sakna Ölmu og þeirra glæpaverka sem hún tókst á við að leysa?

„Ég er ekkert sérlega blóðþyrst. Finnst erfitt með að lesa hryllilegar sögur og hef ekki í mér að skrifa þannig. Ég veit hins vegar að fólk hefur drepið aðra á ekkert svo hræðilegan máta. Í gegnum þessi tíu ár sem ég skrifaði um Ölmu hef ég oft velt fyrir mér hvernig mætti drepa á penan hátt,“ segir Guðrún og brosir. „Sjálfri finnst mér ráðgátan áhugaverðari en glæpurinn.  Mér finnst umhugsunarefni ef fólk samsamar sig glæpamönnum – hafi meira gaman af að lesa um morð en leitina að því hver gerði þetta.“

Guðrún nefnir að stundum finnist henni rithöfundurinn standa svolítið í skugga blaðamannsins, flestir muni frekar eftir þeim hluta starfs hennar en bókunum. En það er áhugi Guðrúnar á fólki og hvað rekur það áfram sem gerði það að verkum að hún hafði gaman af að skrifa um Ölmu og rannsóknarblaðamennsku hennar. Hún segir að flestir virðist hafa einhvern innbyggðan stoppara sem veldur því að þeir gangi aldrei of langt, sama hversu reiðir þeir verði við aðra en í suma vanti þessar hömlur.

„Ég held líka að fólk hafi siðferðilegan hemil ef svo má að orðum komast,“ segir hún. „Morðingjar iðrast oft ekki. Þeir réttlæta fyrir sér það sem þeir gerðu. Réttlæting er gjarnan upphaf að siðferðisbresti og því meira sem fólk réttlætir því lengra gengur það.“

Síðasta bókin um Ölmu, Dagstjarnan er með öðru sýn höfundar á hið íslenska pólitíska landslag og hversu langt fólk er tilbúið að ganga í valdataflinu. Hún hafði gaman af að sökkva sér ofan í þann hráskinnaleik og skoða allar þær hvatir sem þar liggja að baki ákvörðunum, málmiðlunum, svikum og baktjaldamakki. En þótt hugsanlega fái lesendur ekki fylgja Ölmu gegnum enn eitt glæpamálið er spennandi að vita hvort stúlkan sem orti um köngulóna sér til huggunar eftir rifrildi við vinkonu sína geti látið vera að skrifa.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 8, 2024 07:00