Lífeyrisþegar sem eiga rétt á kostnaðarþátttöku vegna tannþjónustu á Íslandi geta á grundvelli reglurgerðar um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, sótt sér þjónustu innan aðildarríkja EES og notið kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga Íslands sé um að ræða sömu eða sambærilega þjónustu og veitt er hér á landi. Sjúkratryggingar Íslands taka ekki þátt í ferða- og uppihaldskostnaði.
Mjög margir sjá sér hag í að leita sér tannlæknaþjónustu erlendis vegna þess að kostnaður við tannlækningar í ýmsum löndum eru mun lægri en hér á landi. það var á síðasta ári sem Sjúkratryggingar fóru að greiða vegna tannlækninga erlendis. Það ár var endurgreitt vegna 28 tannlæknareikninga. Miklu fleiri hafa fengið endurgreiðslu á þessu ári en í lok síðasta mánaðar hafði verið endurgreitt vegna 110 tannlæknareikninga sem fólk hafði framvísað til Sjúkratrygginga Íslands. Flestir reikninganna koma frá Ungverjalandi og Póllandi en nokkrir eru frá Spáni.
Áður en fólk heldur utan ætti það að kynna sér í þaula hvaða reglur gilda. En í grófum dráttum eru þær þessar: Fólk skilar inn reikningum til Sjúkratrygginga Íslands ásamt útfylltri umsókn um endurgreiðslu erlends sjúkrakostnaðar. Bæði er hægt að skila inn skönnuðu eintaki á netfangið international@sjukra.is eða senda til Sjúkratrygginga Íslands. Reikningarnir skulu vera sundurliðaðir á ensku, með dagsetningum. Það verður að koma fram, hvað var gert, við hvaða tönn (númer tanna) og eftir atvikum númer flata á tönn sé um viðgerð að ræða. Þá verður greiðslustaðfesting að fylgja með umsókn, það er staðfesting á að greitt hafi verið fyrir þjónustuna. Það er hins vegar ekki allt greitt því tannplantar og krónur eru einunis endurgreiddar að litlum hluta. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum er greiddur styrkur að fjárhæð 60. Þúsund krónur fyrir tvo tannplanta/krónur á hverju tólf mánaða tímabili. Annars er hægt að sjá hlutfall greiðslu af gjaldskrá SÍ með því að smella hér.
Sjá grein Lifðu núna um tannlækningar erlendis hér fyrir neðan.
Tannlækningar á 50-70 prósent lægra verði í Búdapest.