„Fleira starfsfólk myndi bæta þjónustuna“

„Þú ert svo flott. Ég ætla að fá mér svona tattú í næsta lífi“, segir Kristbjörg Gunnarsdóttir 85 ára við Dagbjörtu Lind Sigurðardóttur 34 ára starfsmann stuðningsþjónustu borgarinnar, þegar hún kemur til hennar í heimsókn, ásamt blaðamanni Lifðu núna. Ætlunin er að heyra viðhorf þeirra til heimaþjónustunnar í Reykjavík, eða stuðningsþjónustunnar eins og hún er núna kölluð, en Kristbjörg er ein þeirra sem fær þessa þjónustu og Dagbjört ein þeirra starfsmanna sem veitir hana.

„Ég er búin að vinna við þetta í 4 ár og hef aldrei verið jafn lengi í nokkru starfi, það segir það sem segja þarf“, segir Dagbjört þegar hún er spurð hvernig henni líki starfið og bætir við að hún sé með mikið ADHD og fljót að verða leið á öllu.

Drekkur of mikið kók

„Þjónustan er góð svo langt sem hún nær og stúlkurnar yndislegar. En hún er náttúrulega mjög lítil, það vantar starfsfólk og kannski líka peninga. Klukkutími og korter hálfsmánaðarlega, það er ekki mikið. Það þarf meiri tíma til að þrífa, flestir segja að það taki þrjá tíma að taka til í lítilli íbúð“, segir Kristbjörg sem býr í þriggja herbergja íbúð í Hæðargarði í Reykajvík.  Þar er allt mjög huggulegt og hún býður uppá kaffi og með því. Raunar líka uppá kók, sem hún segist drekka mikið af, en sé að reyna að minnka. Hún sýnir okkur myndir af afkomendunum, sem hún elskar að hafa í kringum sig og af Braga manninum sínum sem lést fyrir teimur og hálfu ári. Börn og barnabörn fara reglulega  með henni á kaffihús og í maí var hún í sjö afmælum. „Svo fer ég í tvö afmæli um helgina og bráðum er sonardóttir mín að fara að gifta sig“, segir hún.  Sjálf gifti hún sig á 19 ára afmælisdaginn sinn og hefur því haldið heimili í 66 ár. Núna hefur hún mest gaman af að prjóna og eyðir tímanum í það. Hún sýnir okkur barnateppi sem hún hefur prjónað. „Ég er búin að prjóna 17 svona teppi“, segir hún.

Betrumbætir matinn

Kirstbjörg fær þrif frá borginni og getur farið í mötuneyti úti í Hæðargarði þar sem félagsmiðstöð fyrir eldri borgara er til húsa og þar kaupir hún einstaka sinnum mat og fer með heim til sín.  Hún segir matinn bragðast betur þegar hún er búin að betrumbæta hann og bæta ýmsu við hann heima.  Hún þurrki sjálf af í íbúðinni og geri ýmislegt. En ákveðin verk vilji verða útundan svo sem eins og að þrífa skápa og því um líkt. Þá væri æskilegt að fá aðstoð mánaðarlega við að fara í búð eða panta mat í gegnum netið.

Dagbjört segist gera sér far um að gera það sem hún er beðin um hafi hún tíma til þess.  Hún hreyfir sófa til og frá ef því er að skipta. „Stundum er allt í lagi að ég sé svolítið lengur á einum stað, þar sem verkefnin geta verið færri í næstu heimsókn. Þá jafnast þetta út“. Hún segir hægt að taka ísskápa fyrir fólk, en þá þurfi kannski að sleppa einhverju öðru í það skiptið, þar sem tíminn sé naumur. „Það væri gott að hafa aðeins meiri tíma. En við eigum að fá fólkið okkar til að halda áfram að gera það sem það er vant að gera, ef það hættir því fer því oftast að hraka. Það verður hins vegar að vega og meta persónuna, það eru kannski ekki allir sem geta þetta“, segir Dagbjört.

Sumir þurfa aðstoð við félagslega þáttinn

En hvernig myndi Kristbjörg vilja hafa þjónustuna ef hún mætti ráða. „Ég myndi vilja fá tvo og hálfan tíma hálfsmánaðarlega og að það væri hægt að strjúka glugga og fara vel undir rúmið mitt. En það er fullt af fólki sem er ekki jafn vel sett og ég að fara út að ganga eða á kaffihús. Það væri gott fyrir það fólk að fá einhverja félagslega þjónustu líka“ segir hún og Dagbjört tekur undir það.

Að spjalla og fá sér kaffi

Unnið er að því að breyta heimaþjónustunni í stuðningsþjónustu við fólk, þannig að hún taki ekki eingöngu til starfa á heimilinu sjálfu heldur nái líka til félagslegra þátta eins og félagsskapar eða útiveru. „Ef það væri fleira starfsfólk væri hægt að bæta þjónustuna“, segir Dagbjört.  Kristbjörgu finnst það hluti af því að fá starfsmenn heimaþjónustunnar í heimsókn, að geta spjallað aðeins og fengið sér kaffi með þeim. En stór hluti þeirra tali litla íslensku og það sé erfitt að vita hvort þeir skilji það sem sagt er.

Hef lært svo margt af fólkinu

Helstu kostirnir sem Dagbjört sér við starfið í heimaþjónustunni er að hún er á mikilli hreyfingu og svo sé það fólkið. „Ég er félagslynd manneskja og hef gaman af að spjalla. Ég hef lærft svo margt af fólkinu sem ég hitti, til dæmis hvernig á að þvo ákveðinn þvott, hvernig lífið virkar og  nýja málshætti. Það var kona sem var alltaf að fara með ljóðin sín  fyrir mig og svo fengum við okkur kaffi og sígó saman. Ánægjan í starfi skiptir mig mestu og  ég hef aldrei haft jafn góða yfirmenn og núna. Stundum fer ég eftir vinnu og geri eitthvað fyrir fólkið mitt. Ein þeirra á dóttur sem býr á Akranesi, þannig að ég hef farið með henni eftir vinnu í Rúmfatalagerinn og Hagkaup“.

Erfiðast þegar fólk deyr

„Það sem er langerfiðast við starfið er þegar fólk deyr. Ég er mikil tilfinningavera. Sum heimili eru erfið, til dæmis ef fólk er með framheilaskaða og nær ekki að taka til eftir sig. Þá safnast saman mikil óhreinindi. Þau búa kannski ein og það er margra ára biðlisti eftir öðrum úrræðum. Það eru hreinlega ekki til úrræði fyrir þetta fólk. En við reynum að gera eins mikið og við getum“, segir Dagbjört að lokum.

 

Ritstjórn júlí 5, 2022 07:00