Hvað eru jólin?

Þráinn Þorvaldsson.

Þráinn Þorvaldsson fyrrverandi framkvæmdastjóri skrifar

Kærleikur og nánd eru hugtök sem koma fyrst upp í huga minn ef ég er spurður að því hvað jólin eru í huga mínum. Jólin eru miklu meira en trúarhátíð. Öll minnumst við æskujólanna með hlýju, síðan jólanna eftir að börnin komu til sögunnar og nú jólanna þegar við njótum þeirra með börnum og barnabörnum.

Móðir mín Aðalbjörg Bjarnadóttir var fædd og uppalin í torfbæ á Kirkjubóli í Dýrafirði. Eiginkonan eins og oftast mótaði jólahefðirnar á heimilinu eftir að hún flutti á Akranes og giftist Skagamanninum föður mínum, Þorvaldi Ellerti Ásmundssyni.

Jólin voru með nokkuð sérstöku sniði á heimili mínu. Ég spurði móður mína aldrei hvert var tilefni þessa jólahalds en hef aðeins getið mér þess til. Möndlugrautur var í hádeginu á aðfangadag. Síðan voru svið framreidd um klukkan fjögur en ekki farið í spariföt. Eftir það var farið í sparifötin, móðir mín í peysuföt sem hún fór í aðeins við hátíðlegustu tækifæri en hún klæddist upphlut við minna hátíðleg tækifæri. Næst var haldið til kirkju en móðir mín söng í mörg ár í kirkjukór Akranes. Að messu lokinni var haldið heim, allir þrungnir jólaanda. Eftir af hafa snyrt sig, sem mér fannst taka allt of langan tíma, var sest í stofu, pökkum dreift, þeir opnaðir og stundarinnar notið með sælgætismola í skál. Um klukkan tíu var hlaðið borð af tertum og smákökum en móðir mín var mikil matar- og kökugerðarkona. Ekta súkkulaði með þeyttum rjóma drukkið með áður en gengið var til hvílu og jólabækurnar opnaðar.

Á jóladagsmorgun fór faðir minn á fætur og hitaði upp afganga af súkkulaði gærkvöldsins og færði okkur í rúmið ásamt smákökum. Þessa hefð hafði móðir mín flutt með sér frá Kirkjubóli. Í minningum sem hún skrifaði sagði hún frá því að ein ánægjulegasta stund ársins hafði verið þegar móðir hennar, Guðmunda María Guðmundsdóttir, kom upp á baðstofuloftið með kökur á diski og rjúkandi súkkulaði með þeyttum rjóma. Í dagsins önn var lítill tími til þess að setjast niður með börnunum en á jóladagsmorgun gaf hún sér tíma sem var systkinunum mikils virði.

Þessari súkkulaði- og smákökustund á jóladagsmorgni hélt ég í heiðri á mínu heimili. Fyrst eftir að börnin fóru að heiman komu þau á náttförunum til okkar með barnabörnin á meðan við komumst fyrir í hjónarúminu. Þegar barnabörnunum fjölgaði lagðist þessi heimsóknarsiður af en ég færi eiginkonu minni enn súkkulaði og kökur ásamt randalínu í rúmið á jóladagsmorgun.

Í uppvexti mínum á jóladag var hádegismaturinn kalt hangikjöt með uppstúf og grænum baunum. Ættingjar komu svo í heimsókn eða farið var í heimsókn til þeirra um jóladagana og tekið var í spil en móðir mín hafi mikla ánægju af spilamennsku.

Þennan jólasið tók móðir mín með sér frá uppvexti sínum á Kirkjubóli í Dýrafirði.

Þegar við Elín hófum búskap breyttist jólahefðin. Fyrstu árin áður en börnin fæddust vorum við á aðfangadagskvöld hjá tengdaforeldrum mínum Unni Benediktsdóttur og Óskari Magnússyni. Á borðum var lambahryggur en tengdaforeldrum mínum þótti lambakjötið best. Þau voru ekki hrifin af hamborgarhrygg, fuglum og því síður kjúklingum. „Maður borðar ekki vini sína!“ Óskar sem fæddur var og uppalin á Steinum undir Eyjafjöllum ásamt níu systkinum talaði um að kjötsúpa á aðfangadagskvöld væri hans uppáhald. Lambi var slátrað fyrir jólin og framreidd kjötsúpa sem þótti mikið nýmeti. Ein jólin kom dóttir okkar hnuggin heim frá vinkonu sinni. Þær höfðu verið að ræða jólin og jólamatinn. Dóttur okkar fannst leitt þegar vinkonan spurði hvað væri í jólamatinn hjá okkur. Hún upplýsti að hjá okkur væri lambahryggur á borðum. Þá sagði vinkonan: „Svoleiðis matur er alltaf á sunnudögum hjá okkur.“

Síðan líður tíminn, börnin komu í heiminn og þróunin hélt áfram. Aðfangadagskvöldið fluttist yfir á heimili okkar og tengdaforeldrarnir komu til okkar. Nú förum við til barna okkar á aðfangadagskvöld sem síðan koma til okkar jóladagana.

Jólin eru kærleikur og nánd. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Við höfum dvalið fjarri ástvinum okkar nokkur jól. Þegar ég stundaði framhaldsnám í Bretlandi höfðum við ekki efni á því að fara heim um jól. Við Elín héldum því jólin í Bretlandi ásamt Sif þriggja ára dóttur okkar. Jólin voru á þá einn dagur í Bretlandi og mikið söknuðum við fjölskyldu okkar og jólahaldsins heima. Við ákváðum eitt árið að dvelja með börnunum á Flórída yfir jól og áramót. Við vorum sammála um að það hefðu verið jólin sem við týndum. Við bjuggum í Þýskalandi um tíma og nutum jólanna með þýskum vinum sem við kynntumst. Í Þýskalandi er jólahald líkara því sem við þekkjum en samt sem áður söknuðum við fólksins okkar heima á Íslandi.

Margir velja að dvelja fjarri heimili og ástvinum yfir jól og áramót til að losna við umstang hátíðahaldanna. Okkur var sagt að á hótelinu sem við vorum á í Flórída dveldi íslensk kona sem á hverju ári klæddist bikiní og gengi með vínglas í hönd út í sjóinn á þeim tíma þegar klukkan á Íslandi sló sex. Konan var sögð lyfta glasi í átt til Íslands og segja hátt og snjallt: „Heill þér íslenska húsmóðir.“

Jólin eru einstök hátíð. Jólin, fæðingarhátíð frelsarans, leysir úr læðingi einstakar tilfinningar og löngunar til nándar og friðar. Frægt er vopnahlé sem gert var á vígvöllum Evrópu jólin 1914 þar sem hatrið var sett til hliðar um skamma stund. Á flestum heimilum ríkir friður og ró á jólum og við færumst nær hver öðru sem fjölskyldur og vinir en á öðrum dögum ársins. Megi jólin færa öllum lesendum Lifðu núna kærleik og nánd.

Gleðilega jólahátíð.

 

Ritstjórn desember 24, 2022 07:00