Tengdar greinar

Skemmtileg sumarafþreying

Logarnir eftir Linu Bengtsdotter er önnur bókin sem kemur út á íslensku eftir þennan flotta verðlaunahöfund. Þetta er spennandi bók, skrifuð af mikilli leikni. Söguþráðurinn snýst um unga konu, Vegu, sem snýr heim til smábæjar í Svíþjóð eftir að æskuvinkona hennar hringir til hennar og virðist í miklu uppnámi. Þær tvær eiga hræðilegt leyndarmál en nú virðist það ætla að koma upp á yfirborðið.

Það er auðvelt að setja sig í spor unga fólksins í þessari bók því margt er líkt með aðstæðum þessara unglinga og þeim raunveruleika sem Íslendingar þekkja. Heimilisaðstæður aðalpersónanna eru erfiðar og þær leiðast þess vegna út í aðstæður sem eru ofviða þroska þeirra og skilningi. Linu tekst að byggja upp trúverðugar persónur og skapa mjög raunsannar aðstæður. Púslin raðast saman hægt og hægt og það er ekki fyrr en í lokin að allt verður ljóst. Hér eru mörg áhugaverð þemu, meðal annars samtrygging unglinga og tilhneiging þeirra til að þegja fremur en að leita sér hjálpar þeirra fullorðnu þegar eitthvað bjátar á. Smábæjarlífinu er sömuleiðis mjög vel lýst og þá einkum hversu hamlandi það getur verið þeim sem ekki falla inn í fjöldann. Grimmdin getur verið yfirþyrmandi en samstaðan er hér einnig til staðar. Silverbro er lítið þorp og þar gleymist aldrei neitt, allra síst ung stúlka sem hverfur. Slíkt mál kastar löngum skugga og hefur áhrif á alla þá sem á eftir koma.

Skuggar fortíðar

Allir sakamálasagnaunnendur þekkja Ann Cleeves og hennar frábæru rannsóknarlögreglumenn, Veru Stanhope og Jimmy Perez. Í Fuglinn í fjörunni eða The Long Call, eins og bókin heitir á ensku kynnir hún til sögu nýja aðalpersónu, Matthew Venn. Hann er lögreglumaður í bænum Barnstaple í Norður-Devon og þar er landslagið ekki síður áhugavert en á Norðymbralandi þar sem Vera sér til þess að engir morðingjar sleppi undan armi réttvísinnar. Matthew er hommi og hamingjusamlega giftur en engu að síður eru dökkir skuggar yfir tilveru hans. Hann var alinn upp í sértrúarsöfnuði þar sem sjálfstæð hugsun er ekki liðin og ekki samkynhneigð. Foreldrar hans hafa því útskúfað honum og hann hefur ekkert samband haft við þau um langt árabil.

Þegar maður finnst myrtur á ströndinni við Barnstaple sama dag og jarðarför föður Matthews fer fram er hann neyddur til að tala við móður sína og aðra meðlimi safnaðarins sem sýndi honum svo mikla grimmd mörgum árum fyrr. Hér er á ferð frábærlega fléttuð skáldsaga og hæfni Ann í að skapa trúverðuga karaktera og lifandi umhverfi njóta sín til fulls. Henni er einstaklega lagið að lýsa náttúru og gera landslag og lífverur að ómissandi hluta af bókum sínum. Friðrika Benónýsdóttir þýðir bókina lipurlega og nær vel fram þessum skemmtilegu blæbrigðum.

Líkt og með fyrri bækur Ann hefur þegar verið gerð sjónvarpsþáttasería eftir þessari sögu og vonandi fá íslenskir sjónvarpsáhorfendur fljótlega að sá Ben Aldridge í hlutverki Matthew Venn. Fuglinn í fjörunni er hins vegar fyrirtaks afþreying í leiðinlegu veðri um mitt sumar. Það er sannarlega þess virði að halla sér aftur í góðum stól og hverfa til Bretlands og inn í söguheim þessa frábæra sakamálasagnahöfundar.

Lygar, ótti og sorg

Myrkramaðurinn eftir Unni Lindell er spennandi og vel skrifuð sakamálasaga. Cato Isaksen og Marian Dahle hafa verið í sumarfríi en sama dag og þau snúa aftur til vinnu er framið morð. Konu er fleygt fram af svölum á sjöundu hæði í blokk. Rannsóknin gengur erfiðlega í fyrstu einkum vegna þess að konan virðist ekki eiga sér neina fortíð. Marian beygir reglurnar líkt og hennar er von og vísa en innsæi hennar er ómetanlegt því það leiðir þau að lokum á slóð sannleikans. Cato er á hinn bóginn kominn aftur heim til Bente og Vetle og er ákveðinn í að standa sig í bæði eiginmanns- og föðurhlutverkinu.

Myrkramaðurinn er fádæma vel fléttuð saga og það er ekki bara gátan sem heldur lesandanum við efnið. Persónulegt líf aðalsöguhetjanna er einnig áhugavert og Unni kann að byggja upp spennu. Það er alltaf eitthvað nýtt að gerast og ekki hægt að leggja bókina frá sér fyrr en málið er til lykta leitt og öll leyndarmál afhjúpuð.

Unni Lindell er meðal vinsælustu rithöfunda Noregs og bækur hennar um Cato Isaksen hafa verið þýddar á fjölmörg Evrópumál. Hún hefur einnig skrifað barnabækur og ljóð. Gerðir hafa verið sjónvarpsþættir eftir sakamálasögunum hennar og norski leikarinn Reidar Sørensen verið tilnefndur til norsku sjónvapsverðlaunanna, Gullruten, fyrir hlutverk sitt í þáttunum en hann leikur Cato Isaksen.

Í leit að sannleikanum

Algóritmi ástarinnar eftir Mons Kallentoft er frumleg og spennandi sakamálasaga. Elle Videman býr í lélegu herbergi í kjallara fjölbýlishúss og vinnur myrkranna á milli alls konar láglaunastörf til að komast af. Pabbi hennar, Erik Videman, er í fangelsi fyrir morð en Elle er þess fullviss að hann sé saklaus. Erik er tæknisnillingur og þau lifðu góðu lífi þótt Elle hafi ung þurft að kynnast sorginni því móðir hennar dó. Þegar pabbi hennar kynnist Agötu virðist hann hafa fundið ástina á ný og hugsanlega grundvöll hamingju. Allt fer hins vegar upp í loft þegar hótelstarfsmenn koma að parinu á hótelherbergi. Agata hefur verið myrt og sá eini sem getur hafa framið morðið er Erik.

Elle er send á fósturheimili eftir að pabbi hennar fer í fangelsi. Hún er varnarlaus og heimurinn fer ekki mjúkum höndum um barn. Hún strýkur af þriðja fósturheimilinu sautján ára og hefur síðan séð um sig sjálf. Hana dreymir um að sanna sakleysi föður síns og leysa hann úr fangelsinu en þegar hún fær loks vísbendingu frá honum fer af stað hröð atburðarrás og það lítur út fyrir að þetta muni kosta bæði Elle og Erik lífið.

En Elle er ekki vinalaus. Hún hefur kynnst Lulu á hótelinu þar sem hún vinnur og sú kona er heil og sönn í sínu. Lulu fær ástmann sinn Vic til að skoða málið og einnig fyrrverandi rannsóknarlögreglumann, þann sama og kom Erik í fangelsið. Og þau finna fljótt út að ekkert er einfalt í þessu máli og rannsóknin illa unnin frá upphafi.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júlí 24, 2024 07:00