Flottustu hönnunartímabil síðustu aldar

Undir lok nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu urðu margvíslegar og hraðar breytingar á heimsmynd manna. Vísindamenn gerðu tímamótauppgötvanir, ný tækni auðveldaði mönnum vinnuna og erfiðar styrjaldir breyttu varanlega stéttskiptingu og félagslegri stöðnun vestrænna samfélaga. Þrjár stefnur í hönnun, listum og stíl ruddu sér til rúms samhliða þessu og settu nýjan og sterkan svip á allt manngert umhverfi. Þetta voru Arts and Crafts, Art Nouveau og Art Deco. Skoðum einkenni þeirra og muninn á þeim.

Arts and Crafts

Arts and Crafts er elstur þessara þriggja stíla. Hann byrjar að ryðja sér til rúms um miðja nítjándu öld og tekur að dala þegar aldamótin nálgast. Upphaf hans er í Bretlandi. Handverksfólk og unnendur vandaðra hluta tóku að rísa gegn verksmiðjuframleiddum gripum. Iðnbyltingin opnaði möguleikana á að framleiða marga gripi, alla eins á færibandi og stundum var það á kostnað gæða og sérstöðu. Arts and Crafts-hreyfingin var andsvar við því og tilraun til að hefja handverksmenn og verk þeirra til vegs og virðingar að nýju. Í innréttingum og húsgögnum var unnið með við, sérsmíði sem aðlagaði sig að húsum og þörfum eigenda þeirra. Veggteppi, veggfóður, keramikgripir og steint gler. Hönnuðir og handverksfólk sem unnu innan þessa stíls notuðu mikið náttúruleg efni og leituðu innblásturs í formum móður Jarðar. Blóm, lauf og önnur náttúrumótíf voru algeng í mynstrum og gripum.

Art Nouveau

Art Nouveau tekur við af Arts and Crafts-hreyfingunni og vinnur með margt af því sem þar var algengt. Mjúkar línur, skrautleg djörf mynstur og náttúruefni eru algeng. Fjaðrir fugla, vængir skordýra, blóm, lauf, tré, hæðir, hólar og annað landlag varð listamönnum þessa stíls innblástur.  Art Nouveau var hins vegar undir miklum áhrifum frá hámenningu og þótt steint gler, húsgögn og híbýlaprýði ýmiss konar væri meðal þess sem framleitt var í þessum stíl var hér meira um að ræða einstök listaverk fremur en framleiðslu handverksfólks. Í arkitektúr var mikið um listilega unnin málmhandrið, útskorinn við og fagra skrautmuni sem allt bar hagleik þeirra sem þetta gerðu fagurt vitni.

Art Deco

Þegar kemur fram á þriðja áratug tuttugustu aldar ríkti ákveðið kæruleysi. Fyrri heimstyrjöldin hafði hrist upp í gömlum gildum og frelsi til að njóta lífsins var helsta áhugamál flestra. Djassinn var tónlistin, skýjakljúfar byggingarstíllinn og kúbismi ríkjandi í listum. Sikksakklínur, hvöss horn og einfaldari stíll á öllum sviðum náði fótfestu og fann sér leið inn í meginstrauminn í allri framleiðslu. Speglar og svart glanslakkað yfirborð var algengt í húsgögnum og austræn mynstur héldu innreið sína inn á heimili fólks á Vesturlöndum. Alls konar málmar voru vinsælir í húsmuni, einkum og sér í lagi glansandi málmar. Þegar líða tók á fjórða áratuginn mýktist Art Deco-stíllinn nokkuð og línurnar fóru að verða ávalari. Nefna má Chrysler-byggingin New York þykir einkar gott dæmi um þennan stíl.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar

Ritstjórn febrúar 13, 2025 07:00