Tengdar greinar

Fólk fékk gervitennur rúmlega fimmtugt

Það eru tímamót hjá Berki Thoroddsen tannlækni í dag, en hann hefur verið starfandi tannlæknir í fimmtíu ár. Hann lærði tannlækningar í Danmörku og þegar hann kom heim frá námi árið 1969, hóf hann störf sem aðstoðartannlæknir hjá Guðmundi Árnasyni mági sínum.  „Ég held að Guðmundur hafi kennt mér meira en ég lærði í skóla“, segir Börkur glettinn, þegar blaðamaður Lifðu núna hringdi í hann til að forvitnast um þessi merku tímamót. Hann er enn að vinna á tannlæknastofunni sinni, vinnur 5-6 klukkutíma á dag fjóra daga vikunnar.

Aðspurður hvort honum þyki gaman a draga tennur úr fólki, segir Börkur svo ekki vera. „Það er hundleiðinlegt“, segir hann. Það er uppgjöf að geta ekki bjargað tönnum og tanntaka er oft mikið álag á kvíðið fólk.

Að lækna og koma í veg fyrir tannskemmdir og tannholdssjúkdóma er mikilvægt. Að breyta illa skemmdum tönnum og blæðandi tannholdi í bjart bros,meðferð sem endist í mörg ár, er mest gefandi, en ekki að draga úr tennur þó maður neyðist til að gera það“, segir hann.

Miklar breytingar í tannlækningunum

Það hefur margt breyst í tannlækningunum á þeirri hálfu öld sem liðin er síðan Börkur byrjaði feril sinn sem tannlæknir.  „Þegar ég kom heim frá námi fyrir 50 árum þótti eðlilegt að fólk yfir fimmtugt væri komið með gervitennur. Núna þykir ekki sjálfsagt að fólk missi tennurnar þegar það eldist. Flestir fullorðnir eru nú með eigin tennur, að minnsta kosti nógu margar til að geta tuggið, talað og brosað. Það þykir eðillegt í dag“ segir hann. Næsta stórmál í tannlækningunum að mati Barkar, er tannheilsa eldra fólks sem er komið inná stofnanir. Það sé ef til vill orðið gleymið og ekki nógu handlagið lengur til að  stunda rétta munnhirðu. Fyrir 50 árum fór fólk inná stofnanir með sínar gervitennur og það var ekkert mál. En þegar eldra fólk kemur inná stofnun í dag  með eigin tennur og þeim er ekki haldið hreinum, fer allt á verri veg og afleiðingarnar eru tannskemmdir og tannholdssjúkdómar. Það eykur á vandann að margt eldra fólk tekur lyf sem gera tannhirðuna erfiðari. Það dregur úr  munnvatnsflæðinu og þá er meiri hætta á  tannskemmdum og tannholdssjúkdómum“.

Annað sem hefur breyst að sögn Barkar er að tannheilsa barna er betri en hún var. Hann segir að bæði séu foreldrar barna meðvitaðri um gildi góðrar umhirðu og passi betur uppá tennur barnanna, auk þess sem dregið hafi úr sykuráti. Þá hafi Sjúkratryggingar Íslands fyrir sex árum, farið að borga tannlækningar barna að 18 ára aldri að fullu. Áður hafi tannheilsa barna ráðist bæði af menntunarstigi foreldra og efnahag, en þá hafi börn efnaminni foreldra staðið verr að vígi.

Börkur sem er orðinn 77 ára, segir það ekki Íslandsmet að hafa unnið sem tannlæknir í hálfa öld. Það séu að minnst kosti tveir tannlæknar sem hafi unnið fram yfir áttrætt og einn tannlæknir Þórarinn Sigþórsson sé starfandi 81 árs.  Börkur segir kostinn við tannlæknastarfið þann, að maður ráði sér sjálfur og ekki segist hann hafa fundið fyrir því að honum sé að förlast í handlagni. Hann  þarf hins vegar að fara í öldrunarpróf einu sinni á ári til að halda læknaleyfinu. Það þurfa allir læknar og tannlæknar að gera eftir 75 ára aldur og leyfið er endurnýjað til eins árs í senn. „Ég er með pappír uppá það frá Landlæknisembættinu, að ég sé í góðu andlegu og líkamlegu formi og fær um að vinna þetta starf“, segir hann að lokum og er ekkert á þeim buxunum að hætta að vinna að svo komnu.

Ritstjórn júní 26, 2019 14:29