Einn af 82 skilaði umsögn

Umsagnarfrestur um frumvarp ellefu stjórnarandstöðuþingmanna um breytingar á lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra er runnin út. Velferðarnefnd Alþingis hefur frumvarpið nú til umfjöllunar. Nefndin sendi út 82 umsagnarbeiðnir um frumvarpið, ein umsögn barst frá Landssambandi eldri borgara.  Í henni segir:  Tilgangur Framkvæmdasjóðs aldraðra er að stuðla að uppbyggingu hjúkrunarheimila í landinu. Tekjur sjóðsins myndast við álagningu nefskatts á alla Íslendinga 16 til 70 ára. LEB hefur margoft bent á að það gengur ekki að ríkisvaldið noti hluta af tekjum sjóðsins í rekstrarkostnað. Þörfin fyrir uppbyggingu hjúkrunarheimila og aukningu dagdvalarrýma er mikil og því getur það ekki gengið ár eftir ár að tekjur Framkvæmdasjóðs aldraðra séu skertar og notaðar í annað heldur en tilgangur Framkvæmdasjóðs aldraðra er.

Frumvarpið, verði það að lögum felur í sér breytingar á lögum um málefni aldraðra og á að tryggja að fé Framkvæmdasjóðs aldraðra sé varið til byggingar þjónustumiðstöðva og dagdvalar og byggingar stofnana fyrir aldraða og til að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða eins og kveðið er á um í lögunum. Þá fellur niður bráðabirgðaákvæði við lögin sem er heimild til þess að „verja fé úr sjóðnum til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða“, eins og þar segir.

Ritstjórn febrúar 28, 2019 10:00