Fölsuðu skilríki til að komast á böll

 

Sigurður Pálsson

Sigurður Pálsson

„Og þetta sumar varð ég tvítugur.

Nú var ég loksins orðinn jafn gamall sjálfum mér fyrir þremur árum þegar mér hafði tekist að breyta fæðingarárinu á mennaskólapassanum úr 48 í 45 með einum tipp-ex-dropa.

En nú var ég allt í einu orðinn tvítugur í alvörunni.

Enginn furða að dyraverðirnir hefðu orð á því að ég væri alltaf jafn gamall.

-Árin líða, Sigurður, þú ert alltaf jafn gamall! Og meira að segja með pappíra upp á það.

Við vorum sammála um að þetta væru mikil undur og stórmerki. Nú var hins vegar orðið of seint að refsa mér fyrir gamalt svindl, það tilheyrði fortíðinni,“ segir Sigurður Pálsson rithöfundur í Táningabók sinni sem kom út á síðasta ári. Í bókinni rifjar Sigurður meðal annars upp minningar sínar af því að falsa skilríki til að komast framhjá „skógarbjörnunum“ í dyrunum á Glaumbæ. Hann var vissulega ekki einn um slíkt, mjög margir sem komnir eru yfir fimmtugt eiga minningar um fölsuð nafnskírteini eða önnur skilríki í þeim tilgangi að komast inn á skemmtistaði eða til að fá afgreiðslu í ríkinu. Nú er liðin hálföld síðan útgáfa nafnskírteina hófst.

Reynt að koma í veg fyrir áfengissölu til unglinga

Gamalt nafnskírteini

Gamalt nafnskírteini

Frumvarp til laga um útgáfu nafnskírteina var lagt fram á vorþingi 1965 og samþykkt fyrir þinglok. Í athugasemdum með frumvarpinu segir að erfitt hafi reynst að framfylgja lögum sem banna áfengissölu til ungmenna. „Í lögreglusamþykktum sveitarfélaga eru ákvæði sem takmarka útivist barna og unglinga og komu þeirra og dvöl í vínveitingahúsum og á ýmsum öðrum tilteknum stöðum. Þessu ákvæði hefur ekki verið hægt að framfylgja eins og til er ætlast vegna þess að ekki hafa verið gefin út vegabréf eða nafnskírteini til unglinga,“ segir enn fremur í athugasemdunum. Hinn tilgangurinn með útgáfu skírteinanna var að menn gætu sannað hverjir þeir væru.

Stimpill frá yfirvöldum

Allir sem voru orðnir tólf ára og eldri fengu nafnskírteini vorið 1965. Nafnskírteinin voru einföld að gerð, í opnu plasthulstri og fólk sótti þau til sýslumanna, lögreglustjóra og hreppstjóra. Morgunblaðið sagði frá útgáfu nafnskírteinana í júní 1965 þar kemur fram að ekki er skylda að hafa mynd í skírteininu. Ungmennum er þó ráðlagt að láta setja mynd í skírteinið og fá stimpil frá lögreglustjórum eða sýslumönnum ætli þau að nota nafnskírteinið til að sanna aldur sinn í viðskiptum við löggæslumenn, dyraverði, og afgreiðslufólk. Ekki var skylda að bera nafnskírteinið á sér en fólki góðlátlega bent á að það gæti verið betra fyrir það ef eitthvað kæmi uppá.

Fæstir sem komnir eru til vits og ára eiga nafnskírteini í dag. Þau eru þó gefin út til þeirra sem orðnir eru fjórtán ára og eldri. Ef fólk á hvorki vegabréf eða ökuskírteini þarf það nafnskírteini til að geta átt í viðskiptum við banka, flestir eiga hins vegar annað hvort vegabréf eða ökuskírteini og þurfa því aldrei á nafnskírteini að halda.

Ritstjórn apríl 24, 2015 14:13