Tengdar greinar

Mannþekking katta

Dag nokkurn þegar Lulu Lewis, fyrrum lögregluforingi í Lundúnalögreglunni, er að hella sér upp á myntute um borð í húsbátnum sínum stekkur þrílitur köttur um borð. Hann gerir sig heimakominn og talar mannmál og fyrr en varir er hann orðinn heimilisfastur hjá Lulu og að auki hennar besti vinur og samstarfsmaður. Þetta er byrjunin á bókinni The Cat Who Caught a Killer eftir L T Shearer.

Þegar við kynnumst Lulu er hún nýlega orðin ekkja. Keyrt hafði verið á Simon, eiginmann hennar, og ökumaðurinn stungið af. Sorgin gerði það að verkum að Lulu gat ekki hugsað sér að búa áfram í húsinu þeirra og flutti þess vegna í húsbát en tengdamóðir hennar, Emily, sem bjó í sama húsi fékk vist á hjúkrunarheimili. Lulu og Simon höfðu áður hugsað um hana en alzheimer-sjúkdómur gömlu konunnar fór versnandi og þetta því eina ráðið. Daginn eftir að Conrad kemur inn í líf Luluar deyr gamla konan og lögregluforinginn fyrrverandi fær strax á tilfinninguna að ekki sé allt með felldu í kringum andlát Emily og þau Conrad taka að rannsaka málið.

Bækurnar um Conrad, köttinn sem er stórkostlegur mannþekkjari hafa slegið í gegn, enda frumlegar og flokkast undir það sem kallað hefur verið kósí krimmar. Þegar hafa komið út fjórar bækur en erfiðlega gekk að finna upplýsingar um höfundinn, L T Shearer á netinu, umfram það að alla ævi hefur hann verið aðdáandi þrílitra katta eða calico eins og það litaafbrigði í skepnum kallast á ensku og húsbáta á skurðum. Bækurnar eru stórskemmtilegar og þótt Conrad láti vera að tala við nokkurn annan en Lulu, segi bara mjá þegar einhver annar ávarpar hann eða þau eru úti meðal almennings er hann engu að síður trúverðug persóna í heimi þeirra. Það skín einnig í gegn hversu mikill aðdáandi katta almennt höfundurinn er því hann lýsir atferli þeirra og viðbrögðum á mjög lifandi og skemmtilegan hátt. Það er því vel þess virði að kíkja eftir bókum um Conrad, köttinn sem veiðir morðingja í bókabúðum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 7, 2024 07:00