Fór á sveitaböll og var bílfreyja hjá Norðurleið

„Hvað ég ætla að fara að gera? Bara lifa lífinu án nokkurra félagsstarfa. Það verður sérstök reynsla sem ég hef ekki upplifað frá því ég gekk í skátana á Akureyri níu ára gömul.  Þeir voru fyrsti félagsskapurinn sem ég gekk í og síðan hef ég ekki verið utan félaga fram á þennan dag. Það verður nýr kapítuli að vera utan alls“, segir Guðrún Árnadóttir lífeindafræðingur hlæjandi, en hún er að hætta í stjórn Félags eldri borgara eftir fjögur ár.

Fékk lægri laun en strákarnir

„Ég hef verið víða“ segir hún. „Kjarabaráttan hefur verið mér eðlislæg frá því ég uppgötvaði sem unglingur að ég fékk lægri laun en strákarnir. Það varð kveikjan að kjarabaráttu sem síðan breyttist í baráttu fyrir kvenréttindum, að halda uppi réttindum kvenna til jafns við karla“, segir hún. Eftir að hún haslaði sér völl á atvinnumarkaði, var hún fljótt komin í stéttabaráttuna og í stjórn Félags lífeindafræðinga. Eftir það tók við seta í stjórnum og ráðum af öllu tagi, svo sem í BSRB, Kvenréttindafélaginu, jafnréttisráði, stjórn Ríkisspítlanna og Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hún var einnig skrifstofustjóri hjá Verkamannabústöðum um tíma. Allt þetta starf skilaði henni ýmsu, en sérstaklega því hvað hún kynntist mörgu góðu og áhugaverðu fólki. Hún segir það einnig hafa verið gefandi að eiga þátt í að koma málum áleiðis í rétta átt.

Kvennaþing eftirminnilegt

Guðrún segir, að eitt það skemmtilegasta sem hún hafi fengist við, hafi verið að fara með 800 íslenskum konum á Nordisk Forum í Osló árið 1988. „Þetta var alveg sérstök upplifun, þessi fjöldi kvenna sem fór og samstaðan meðal þeirra. Þarna var fullt af konum sem voru að fara til útlanda í fyrsta sinn“. Hún segir líka að BSRB verkfallið árið 1984 sé minnisstætt, en þá var hún formaður verkfallsnefndar. „ Við fengum svo mörg erindi þarna inn, það voru rifrildi og uppákomur hvern einasta dag. Mikill hiti og átök“.

Skátagilið var veröld útaf fyrir sig

Guðrún var frá upphafi ákaflega félagslynd og var snemma komin í skátana. Hún ólst upp á Oddeyrargötu, sem er fyrir ofan svokallað Skátagil sem liggur upp frá göngugötunni á Akureyri. Foreldrar hennar voru Árni Ingimundarson söngstjóri og Auður Kristinsdóttir sem starfaði hjá endurskoðunardeild KEA.  Systkinin voru þrjú. Tvær systur eru á lífi, en bróðir þeirra lést ungur. „Skátagilið var veröld útaf fyrir sig, Disney-landið á Akureyri, það var ekkert annað, bæði á veturna og sumrin“ rifjar hún upp. Við héldum lengi hópinn hérna í Reykjavík leikfélagarnir frá þessum tíma. Það sem var sérstakt við þennan hóp, var að þetta voru margir árgangar. Yngri systkini fengu að vera með. Kristín systir mín er 6 árum yngri en ég og hún var með. Maður heldur sambandi við marga aldurshópa af þessum leikfélögum“. Hér til vinstri er mynd af þeim systrum.

Var í sjö ár í MA

Guðrún gekk að sjálfsögðu í Barnaskóla Íslands, en að honum loknum fór hún ekki í Gagnfræðaskólann heldur Menntaskólann á Akreyri sem var þá með sérstaka deild fyrir fyrsta og annan bekk og landspróf. „Ég var í sjö ár samfellt í MA. Þegar maður segir frá þessu, halda allir að maður sé svona tregur og hafi ekki komist milli bekkja í skólanum, en þetta fyrirkomulag var einungis í örfá ár“, segir hún og brosir breitt. Eftir námið í MA venti Guðrún sínu kvæði í kross og hélt til Bandaríkjanna til að læra arkitektúr, nánar tiltekið við Washington State University í bænum Spokane. Hún var eini Íslendingurinn, en í skólanum var mikið af Norðmönnum og Svíum. Hún fékk skólastyrk og var boðið að ganga í systraklúbb í skólanum, Kappa Alfa Þeta.

Skátastúlkur. Guðrún Kristinsdóttir til vinstri og Guðrún Árnadóttir til hægri

Ekki við hæfi að fara út með blökkumanni

Það voru mikil viðbrigði fyrir norðlenska blómarós að kynnast bandarískri menningu. „Þá fann maður hvað íslensk ungmenni eru sjálfstæð“ segir Guðrún sem var orðin býsna veraldarvön þegar þarna var komið sögu. Hafði stundað sveitaböll og verið bílfreyja hjá Norðurleið. Hún segir bílfreyjustarfið hafa verið ótrúlega skemmtilegt. „Við vorum að hjálpa krökkunum að komast i sveitina og svo var stöðugur straumur fólks á leiðinni í síldina og þurfti að fara út og skipta um rútu í Varmahlíð“, rifjar hún upp.  Á heimavistinni í háskólanum í Spokane þurfti hins vegar að koma heim klukkan 11 á kvöldin og ekki mátti fara á dansleiki nema í fylgd herra. Þegar ungur blökkumaður, foringi í flughernum bauð henni út, þótti það ekki við hæfi. „Og þetta var í norðurríkjunum árið 1965. Svona hafa tímarnir breyst“.

Handþvotturinn var aðalvörnin

Þegar Guðrún kom heim eftir vistina í Bandaríkjunum beið hennar ungur maður,Ólafur Huxley Ólafsson, og Guðrún lagði arkitektúrnámið á hilluna „Þetta var svona á þessum tíma. Hann var fastur hér“, segir hún. Ólafur er úr Keflavík en þau Guðrún höfðu kynnst í MA. „Svo bara lágu leiðir saman 4-5 árum seinna og þá varð ekki aftur snúið. Við giftum okkur í Reykholti, mitt á milli Akureyrar og Reykjavík og hófum búskap hér í borginni. Þá fór ég í lífeindafræðina“, segir hún. Guðrún vann árum saman á sýkladeildinni á Landsspítalanum þannig að veirur og bakteríur eru ekkert nýtt fyrir henni, núna á tímum COVID.  Hún segir að á sýkladeildinni hafi ekki verið notað spritt. „Við þvoðum okkur og þvoðum, klipptum neglurnar og vorum ekki með skartgripi. Handþvotturinn er aðalvörnin og að þvo sér rétt“, segir lífeindafræðingurinn.

Ólafur og Guðrún

Kom upp ótti vegna HIV

„Ég hef haldið áfram að þvo mér og klippa neglurnar.  Ég er ekki smeyk við kórónuveiruna. Ég er ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma. En það er ástæða til að vera hræddur fyrir þá sem eru veikir fyrir.  Maður heyrir af ungu fólki, sem fór illa út úr þessu. Þessi veira er mjög smitandi. Ég var að vinna þegar fyrstu HIV smitin komu til Íslands, þá var uppi mikill ótti hjá okkur, við vissum ekkert hvað var að gerast. Við vorum sendar uppá deildir til að taka bóðsýni. Þá voru þessar hugmyndir að vera í hálfgerðum geimfarabúningum til að byrja með, en svo fór það fljótt af. Maður óttast meira það sem maður þekkir ekki“, segir Guðrún.

Erfitt að þoka málum áfram

Guðrún hefur kynnst kjörum eldra fólks í landinu í stjórn Félags eldri borgara. Henni finnst það standa eftir, eftir fjögurra ára setu í stjórninni, hvað það gerist lítið á málefnum eldri borgara og hversu erfitt er að þoka málum áfram. „Ég var í heilt ár í starfshópi um kjör þeirra verst settu, á vegum félags- og barnamálaráðherra. Við lukum störfum fyrir áramótin 2018.  Það kom í ljós að þörfin var brýn og ástandið mjög slæmt hjá stórum hópi. Ég hef ekki orðið vör við að neitt hafi gerst í þeim málum. Auðvitað eru alltaf einhver mál að koma uppá í þinginu, ég veit það, en þessum málum er gjarnan slegið á frest.

Guðrún ásamt félögum í FEB

Eru hreint ekki á síðasta snúningi

Annað sem hún nefnir er hversu fjölbeytt félagsstarf félagsins er. „Það er með ólíkindum hversu duglegt fólk er að sækja félagsstarfið. Það er greinilegt að Íslendingasögurnar trekkja vel. Það er líka uppselt í nánast allar ferðir hér innanlands, á söguslóðir og allar fallegar slóðir. Svo að það skuli koma yfir 100 konur til að dansa Zumba. Það er sama hvað maður nefnir það er allt svo vel sótt“, segir hún og það sýni, að það séu ákaflega margir sem komnir eru í eldri borgara hópinn sem séu vel á sig komnir, vilji gjarnan halda sér við, hreyfa sig, auka þekkingu sína og ferðast. „Það er oft dregin upp sú mynd að allir þeir sem eldri eru, séu komnir að fótum fram, en þarna er risastór hópur af aktífu fólki sem er hreint ekkert á síðasta snúningi, því fer víðsfjarri“, segir hún.

Er að reyna að henda úr geymslum

Guðrún og Ólafur eiga tvö börn og fimm barnabörn. Annað barnanna býr á Akureyri en hitt í Noregi. Barnabörnin eru því langt í burtu. „Það er allt í lagi ef maður hefur ekki vanist öðru“, segir hún. „Það eru líka alltaf gestir hjá mér, allt mitt fólk er annars staðar, þess vegna búum við svona stórt. Við töldum okkur þurfa að hafa pláss til að taka á móti fimm manna fjölskyldu frá Noregi“.  Guðrún kvíðir ekki framtíðinni. „Ég held að lífið verði ljómandi gott. Við erum mjög dugleg að ferðast og leigjum gjarnan sumarbústaði á vegum Verkalýðshreyfingarinnar. Í augnablikinu er ég svo að reyna að henda úr geymslum, er að reyna að létta á heimilinu. Mér finnst ágætt að hafa til þess góðan tíma og vanda mig svolítið við það“, segir hún.

Guðrún kvíðir ekki efri árunum

Erfitt að horfa á eftir gömlum vinum

Þau eru líka dugleg að umgangast vini. „Við höfum ekki börnin nærri okkur og  höfum því meiri tíma til að rækta vinskap við gamla vinnufélaga, skólafélaga og æskuvini og svo allt fólkið sem maður hefur kynnst í gegnum félagsmálin“ segir Guðrún sem nú er 75 ára.  Hún  segir að í sínum hópi lifi fólk lífinu lifandi, þeir sem séu svo heppnir að búa við góða heilsu. „En við erum búin að horfa á eftir ákaflega mörgum. Hópurinn úr skátunum er að týna tölunni til dæmis“ segir hún og bætir við það sé erfitt að horfa á eftir gömlum vinum og ættingjum yfir móðuna miklu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn maí 1, 2020 08:08