Foreldarnir skiptu um lás

Barnauppeldi hefur breyst mikið síðan á áttunda áratug síðustu aldar. Leikkonan og rithöfundurinn Annie Korzen fjallar á léttu nótunum um ýmislegt sem hefur breyst varðandi barnauppeldi í pistli á aarp.org. Lifðu núna ákvað að endursegja og stytta því það er nefnilega ýmislegt til í því sem Annie segir. Sjálf varð hún amma á þessu ári þegar sonur hennar og tengdadóttir eignuðust dreng.

Sótthreinsaðir hanskar

Annie segir að nú fari börn í ungbarnasund sex mánaða og farið sé að þjálfa andlega getu þeirra um eins árs aldurinn. Á áttunda áratugnum þegar hún var að ala son sinn upp,  hafi þótt nóg að börn fengju að drekka, borða og það væri séð til þess að þau ropuðu. Barnamaturinn hefur líka breyst mikið. Nú vilji foreldrar að börnin nærist á fitusnauðum, kolvetnaskertum og glútenlausum mat. Helst eigi þau að borða lífræna fæðu, ræktaða í nágrenni við heimilið.  Í gamla daga hafi foreldrar gefið börnunum allt sem hægt var að mauka, þar á meðal spaghetti frá deginum áður með krydduðum kjötbollum. Í dag hafi foreldrar miklar áhyggjur af allskonar sýkingum. „Viltu halda á barninu? Já. Þér eru réttir sótthreinsaðir læknahanskar. Svo máttu halda á barninu. Á áttunda áratugnum hafi foreldrar beðið um að barnið styngi engu upp í sig sem hefði legið lengur á gólfinu en í þrjá klukkutíma.

Í rándýrum merkjafötum

Barnafatnaður hafi líka breyst mikið.  Nú ganga börn í rándýrum merkjafötum í stað þess að ganga í handprjónuðum fötum frá vinum og fjölskyldu.  Foreldrar vilji að barnapíur hafi farið á námskeið en hér áður fyrr hafi unglingurinn í næsta húsi þótt nógu góð barnapía. Börn hafi ferðast ein. Um leið og þau þóttu nægjanlega gömul var keypt handa þeim strætókort og þeim sagt að bjarga sér. Nú séu foreldrarnir endalaust að keyra þau eða sjá til þess að þau séu alltaf í fylgd með fullorðnum. Í dag sé ekki talið æskilegt að börn horfi á sjónarp fyrir tveggja ára aldurinn. Það hafi slæm áhrif á heilann. Í gamla daga hafi sjónvarpið verið notað sem barnapía.

Höfðu tíma fyrir skapandi iðju

Öll börn eru, í dag, í íþróttum, tónlistarnámi og á allskonar námskeiðum. Á áttunda áratugnum hafi þótt nóg að senda þau í píanótíma. Börnin hafi haft nægan tíma fyrir allskonar skapandi iðju og að leika sér.  Nú ræði foreldrar endalaust við börnin, segi þeim að þau hafi orðið fyrir vonbrigðum með þau ef þau geri ekki það sem til er ætlast. Áður hafi börnin einfaldlega verið flengd. Á áttunda áratugnum hafi fólk farið í viku heimsókn til ættingja í fríum, nú sé farið með börnin í tjaldvagnaútilegur, í menningarreisur og svo framvegis. Og eitt í viðbót sem Annie segir að hafi breyst nú flytji börnin ekki að heiman að loknu námi. Þau búi hjá foreldrum sínum á meðan þau séu að leita sér að vinnu. Áður hafi foreldrarnir hent þeim út og skipt um lás á útidyrahurðinni.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn mars 30, 2016 14:44