Danir kunna manna best að njóta barnabarnanna

Danskir afar og ömmur umgangast barnabörnin þegar þau langar til, en ekki af skyldurækni. Eldri borgarar í Danmörku eru ánægðari en eldra fólk í öðrum Evrópulöndum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Stofnuninni um hamingjurannsóknir og er byggt á nokkrum evrópskum rannsóknum. En hver skyldi ástæðan fyrir því vera?  Eftir því sem fram kemur í skýrslunni stafar þetta af því að eldra fólk í Dankörku hefur óvenjugott samband við barnabörnin sín. Frá þessu er greint á vef Danmarks Radio, Lev nu.

Sambandið milli kynslóðanna einkennist af áhuga, en ekki skyldurækni“, segir Meik Wiking forstöðumaður stofnunarinnar í samtali við morgunútvarp rásar eitt hjá Danska ríkisúrvarpinu.„Þó við hittumst ekki jafn oft og til dæmis Ítalir og Grikkir, þá er það þannig að við erum saman þegar okkur langar til þess, við veljum hvort við erum með fjölskyldunni eða ekki. Þess vegna erum við ánægðari með sambandið við hana í Danmörku, en í Suður-Evrópu“.

Samverustundir eru aðalmálið

Það sem skilur eldri borgara í Danmörku frá jafnöldrum sínum í öðrum Evrópulöndum, er að þeir skipta sér ekki af uppeldi barnabarnanna, heldur leggja áherslu á að vera bara með þeim, að því er fram kemur í skýrslunni. Þar er jafnframt bent á að hjá dönskum eldri borgurum, séu það gæði samverunnar sem skipti mestu máli, en ekki magnið.

„Eldra fólk sem á barnabörn, er einfaldlega ánægðara með lífið en eldra fólk sem ekki á barnabörn“, segir Meik.  Að eiga samskipti við barnabörnin hafi mikið gildi fyrir líf fólks þegar aldurinn færist yfir og bæði skapi og viðhaldi ánægju með lífið. Samkvæmt skýrslunni er gildi samskiptanna gagnkvæmt. Samvera kynslóðanna opnar nefnilega fyrir barnabörnunum nýja heima og ólík sjónarmið. Þau líta einnig á það sem nokkurs konar „frí“ að fá að vera hjá afa og ömmu og njóta stundanna með þeim í ró og næði.

Skiptir líka máli að búa í velferðarríki

Til viðbótar góðu sambandi við barnabörnin, bendir Meik Wiking á, að eldra fólk í Danmörku njóti efnahagslegs frelsis og öryggis. Eining að það búi við mikið öryggi í heilbrigðismálum ef það veikist.  „Það sem er athyglisvert er að í Danmörku búa eldri borgarar við betri aðstæður en fólk í landinu gerir að meðaltali. Þegar litið er til mælinga í öðrum Evrópulöndum búi þeir sem eldri eru hins vegar við lakari aðstæður en meðalmaðurinn í sömu löndum gerir“, segir hann og gefur eldra fólki sem vill lifa góðu lífi og njóta lífsins, eftirfarandi ráð.  Að halda sér virkum, bæði félagslega og líkamlega. „Það er þess vegna sem við reynum að vekja athygli á átaki sem heitir „Virkar kynslóðir“, þar sem lagt er uppúr samveru tveggja kynslóða, –  afa og ömmu og barnabarnanna. Það er til dæmis hægt að vera með afa og ömmudag á dagvistarstofnunum, þar sem afi kemur í heimsókn og segir frá því hvernig börnin léku sér þegar hann var lítill“.

Barnabörnin gefa orku

Á vefnum er einnig rætt við dönsku ömmuna Noru Lund frá Silkeborg og barnabörnin skipta hana miklu máli. „Þegar ég kem í heimsókn þá hlaupa þau uppí fangið á mér og það er alveg frábært“, segir hún.  „Ég verð glaðari þegar ég er með þeim og þau gefa mér mikla orku. Það gerir að verkum að dagarnir verða léttari“.

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 15, 2016 11:16