Ýsan keppir við pizzuna

Það er oft höfuðverkur að finna mat sem er hollur og barnabörnunum finnst góður. Lítil fjögurra ára ömmustelpa var ekki í neinum vafa, þegar amma spurði hana hver væri uppáhaldsmaturinn hennar. „Píta og pizza“ svaraði  hún sposk, þó hún væri ekki vön að borða mikið af slíkum mat heima hjá sér og hafði til dæmis aldrei fengið pítu heima.

Eftir nokkra athugun komst amman að því að soðin ýsa og kartöflur með smjöri voru réttur sem barnabörn á öllum aldri borðuðu með bestu lyst og báðu jafnvel um meira. Henni virtist ýsan jafnvel í hörku samkeppni við pizzuna í þeim efnum.  Soðin ýsa með kartöflum og gulrótarsalati er sum sé matur sem barnabörnin hennar á aldrinum tveggja til ellefu ára eru mjög ánægð með og hérna kemur uppskriftin. Fyrir afa og ömmu og 3 barnabörn.

900 gr. roð og beinlaus ýsuflök.

500 gr. kartöflur.

Rifnar gulrætur, ca 1 stk. á mann, ef þær eru í meðallagi stórar.

½ sítróna.

Kartöflurnar eru soðnar í potti í um það bil 20 mínútur og ýsan er einnig soðin í potti í ca. 10 mínútur.

Gulræturnar eru rifnar á rifjárni og rúsínunum blandað út í.  Safinn er kreistur úr hálfri sítrónu og svolitlu vatni bætt út í sítrónusafann. Örlítill sykur er einnig látinn út í og hrært. Þessum legi er hellt yfir gulræturnar áður en rétturinn er borinn fram.

Þetta er afar einföld matargerð og flestum þykir þetta herramannsmatur. Þó þessi uppskrift sé bara fyrir fimm, tvo fullorðna og þrjú börn, má bæta við ef von er á allri stórfjölskyldunni í mat. Og útá réttinn er fínt að hafa bráðið smjör.

 

Ritstjórn apríl 6, 2018 09:40