Forsetafrúin sem sagði frá einkamálum sínum

Betty og Gerald Ford

Hún stoppaði aðeins tvö ár í Hvíta húsinu en hafði varanleg áhrif á bandarískt samfélag vegna veikleika sinna og þeirrar staðreyndar að hún tókst á við þá af hugrekki, hreinskiptni og fágun. Betty Ford verður ávallt minnst fyrir það að hún ruddi brautina hvað varðaði meðvitund um brjóstakrabbamein og fíkn. Hún þekkti hvoru tveggja af eigin raun og neitaði að þegja og fela glímu sína við þessa sjúkdóma.

Ætlaði að verða dansari

Betty fór í dansskóla átta ára gömul, þráði að verða dansari. Hún náði verulegum árangri, flutti til New York og dansaði með danshópi Mörthu Graham, og kom m.a. fram í Carnegie Hall. Hún leigði í Greenwich Village og vann fyrir sér sem fyrirsæta. Hún sneri aftur heim til Grand Rapids í Michigan til að geðjast móður sinni. Betty fékk vinnu í stórversluninni Herpolscheimer‘s og giftist William C. Warren. Þau flökkuðu mikið milli staða vegna vinnu hans og Betty vann ævinlega úti sem módel, sölukona, stílisti og tískuráðgjafi. Fljótlega gerði hún sér grein fyrir að þessi lífsstíll væri ekki eitthvað sem hún vildi en William veiktist af sykursýki og henni fannst hún ekki geta yfirgefið hann fyrr en hann hafði náð sér. Auk þess var maðurinn stjórnsamur og ofbeldisfullur á köflum.

Betty Ford var glæsileg kona og þótti fáguð í framkomu. Hún hafði milda og þýða rödd og hækkaði sjaldan róminn.

Hún hitti Gerald Ford árið 1947 og þau voru byrjuð að hittast áður en skilnaður hennar gekk í gegn. Hann var á þeim tíma eftirsóttasti piparsveinn Grand Rapids, lögfræðingur og fyrrum stjarna úr háskólafótboltanum sem gengt hafði herþjónustu í Víetnam í bandaríska flotanum. Þegar hann bað hennar vissi hún ekki að hann hygði á starfsferil í stjórnmálum og það kom henni á óvart dag nokkurn þegar hún gekk inn á skrifstofuna hans að þar var á fullu undirbúningur fyrir kosningabaráttu til sætis í neðri deild Bandaríkjaþings. Ráðgjafar hans höfðu ráðlagt honum að segja henni ekki frá og upplýsa ekki almenning um samband þeirra vegna þess að hún var fráskilin.

Hún taldi þá enga hættu á að hann næði kjöri en hann komst inn og gengdi þingmennsku í tuttugu og fimm ár. Þar með var Betty, nauðug viljug, komin í þá stöðu að vera eiginkona stjórnmálamanns í Bandaríkjunum með öllu sem því fylgir. Þau eignuðust einnig fjögur börn, Michael, Jack, Steven og Susan og uppeldið var að mestu leyti á hennar herðum því stjórnmálamaðurinn þurfti að ferðast mikið og vann oft langan vinnudag.

Stöðugir verkir

Árið 1964 fór hún að þjást af verkjum vegna klemmdrar taugar í hálsi og upp frá því fór hún að finna fyrir slitgigt. Verkirnir voru stöðugir og vondir og hún tók mikið af verkjalyfjum sem þó dugðu aldrei alveg til að eyða þeim. Allt varð þetta of mikið og hún endaði í kulnunarástandi. Til að vinna sig frá því gekk hún til sálfræðings. Sá tók aldrei á fíknivandanum en vann í að byggja upp sjálfstraust hennar og sýna henni fram á að hún ætti rétt á að rækta sjálfa sig utan hlutverka sinna sem húsmóðir og móðir.

Meðan á öllu þessu stóð vann maður hennar sig upp metorðastigann og varð sífellt valdameiri og vinsælli innan repúblikanaflokksins þar til að því kom að hann var valinn varaforseti Richards Nixon þegar Spiro Agnew neyddist til að segja af sér eftir að hafa verið sakaður um mútuþægni. Þá hafði Gerald, eða Jerry eins og hann var ævinlega kallaður, talað um að draga sig í hlé og hætta öllu stjórnmálavafstri. Betty var farin að búa sig undir það og hlakkaði mikið til. Innan við ári síðar þurfti Nixon sjálfur að segja af sér vegna Watergate-hneykslisins og skyndilega voru herra og frú Ford orðin forseti og forsetafrú.

Árangur af starfi sálfræðingsins kom þá strax í ljós því Betty neitaði að ritskoða sjálfa sig og líf sitt frá byrjun. Þegar orðrómur um að Jerry hefði leitað til sálfræðings varð hávær í Washington lýsti hún því opinberlega í ræðu að þeir fundir hefðu verið vegna hennar og þeirrar meðferðar sem hún naut á þeim tíma. Hún sagði líka í viðtali að hún væri viss um að börnin hennar, þá uppkomin, hefðu áreiðanlega prófað að reykja gras og að hún væri nokkuð viss um að átján ára dóttir hennar væri farin að stunda kynlíf. Hún hélt frjálslegri veislur en fyrri forsetafrúr, dansaði ævinlega sjálf manna mest og barðist fyrir að ERA-viðaukinn (Equal Rights Amendment) við stjórnarskránna, um algjört jafnrétti kynjanna yrði samþykktur.

Betty Ford var ekki alltaf sammála manninum sínum

Hringt í nafni jafnréttis

Á þessum tíma var ERA-viðaukinn mjög umdeildur, einkum meðal repúblikana og hópur kvenna úr þeim flokki undir forystu Phyllis Schlaffy barðist beinlínis gegn honum. Gloria Steinem, Betty Friedan, Audre Lord, Angela Davis og fleiri lögðu allt sitt í að fá hann samþykktan. Og það gerði Betty Ford líka. Í trássi við alla helstu ráðgjafa manns síns og millistjórnendur í Hvíta húsinu, skipulagði hún aðgerðarhóp kvenna sem sátu á skrifstofu hennar og hringdu í alla þingmenn repúblikana og leituðust við að sannfæra þá um að greiða atkvæði með viðaukanum. Betty var alla tíð sannfærð um nauðsyn þess að jafna fyllilega stöðu karla og kvenna. Enginn vafi er á að hún náði miklum árangri. Hún var líka fyllilega hreinskilin með að hún væri fylgjandi þungunarrofi. Sagði: „Að eiga börn er engin skylda.“ Þetta gekk þvert á skoðanir manns hennar og stefnu stjórnar hans.

Fékk brjóstakrabbamein

Hún veiktist af brjóstakrabbameini skömmu eftir að maður hennar tók við embætti. Hún fylgdi vinkonu sinni í brjóstamyndatöku og sú sannfærði hana um að láta mynda sig líka. Þá kom í ljós æxli sem reyndist illkynja og Betty undirgekkst brjóstnám. Þótt ekki séu nema fjörutíu og átta ár síðan þá var brjóstakrabbamein hálfgert feimnismál og starfsmenn Hvíta hússins bjuggust við að forsetafrúin myndi finna upp á einhverjum afsökunum til að skýra hvarf sitt af opinberum vettvangi meðan hún næði sér bak við luktar dyr. Betty var hins vegar ekki á því. Hún sagði frá upphafi frá að hún væri veik og í hverju þau veikindi væru fólgin. Jafnframt hvatti hún allar bandarískar konur til að fara í brjóstamyndatöku og þreifa sjálfar brjóst sín. Í dag er almennt viðurkennt að enginn hafi gert meira til að opna umræðuna um brjóstakrabbamein og þoka áfram framþróun í lækningu við því og snemmgreiningu kvenna og Betty Ford.

Baráttan við fíknina

Michelle Pfeiffer í hlutverki Betty Ford í Netflix-þáttunum First Lady

Skömmu eftir að Jerry tapaði kosningunum drógu þau hjónin sig í hlé og settust að í Palm Springs í Flórída. Jerry hélt þó uppteknum hætti að ferðast mikið og vinna að ýmsum verkefnum tengdum stjórnmálunum. Hún var því áfram mikið ein og drykkjan jókst mikið. Hún tók einnig inn óhemjumagn af verkjatöflum. Fjölskyldan fór að hafa áhyggjur af henni og það fór svo að þau skipulögðu inngrip (intervention). Í framhaldinu fór Betty í meðferð í Long Beach Naval Hospital, innan um óbreytta hermenn og foringja í sjóhernum. Og hennar meðfædda hreinskiptni og bannaði henni að þegja um hvað væri að.

Betty stofnsetti síðan eigin meðferðarstöð, Betty Ford Center í Kaliforníu árið 1982 og þangað hafa margir frægir einstaklingar leitað þegar komið er í óefni, meðal annarra Elizabeth Taylor, Johnny Cash og Lindsay Lohan. Betty Ford lést 8. júlí árið 2011 níutíu og þriggja ára. Hún Jerry voru gift í fimmtíu og átta ár en hann lést árið 2006. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru um líf hennar en hún var listunnandi og beitti sér fyrir auknum framlögum og vegsemd menningar- og listalífs Bandaríkjanna. Hún var einnig fordómalaus og tók af heilum hug þátt í baráttunni gegn AIDS og auknum réttindum samkynhneigðra. Aldrei vildi hún þó láta þakka sér fyrir neitt af því sem hún gerði og eitt sinn sagði hún. „Fólk sem nær bata segir oft: „Þú bjargaðir lífi mínu“ og „Þú snerir lífi mínu til betri vegar.“ Það gerir sér ekki grein fyrir að ég veitti þeim bara aðgang að möguleikanum að gera það sjálft, það er allt og sumt.“ Þessi orð lýsa vel magnaðri konu sem kom ótrúlega miklu til leiðar með því að afhjúpa eigin veikleika og sýna þannig styrk sinn.

Ritstjórn ágúst 2, 2023 07:00