Förum ekki í heimsóknir til fjölskyldunnar í bili

„Ég er sjálfs míns herra og get ráðið því hvenær ég  hætti að vinna. Ég get ekki hugsað mér að vakna og hafa engin verkefni. Það er bara hluti af því að vera til að hafa eitthvað að gera og ég er ekkert á leiðinni að hætta því“, segir Ólafur Örn Ingólfsson viðskipta- og hagfræðingur, en hann á fyrirtækið Vildarhús í samvinnu við Leif Stein Elísson. Fyrirtækið er að fara að byggja 52 leiguíbúðir fyrir Leigufélag aldraðra hses. „Þetta er mjög spennandi verkefni og kannski verða þau fleiri á þessu sviði“, segir Ólafur Örn sem er kvæntur Ingibjörgu Guðmundsdóttur . Þau eiga eina dóttur og einn afa-og ömmustrák, sem heitir Ólafur Aron og verður þriggja ára í júní.

Það er ekki amalegt að búa í Úlfarsárdalnum

Afa- og ömmustrákurinn í næsta húsi

Dóttir þeirra býr í næsta húsi við foreldra sína upp í Úlfarsárdal og afastrákurinn er hjá þeim á daginn, þessar vikurnar. „Mamma hans er að vinna heima og það er ekki nokkur leið fyrir hana að gera það með hann ofan í sér“, segir Ólafur aðspurður hvort það sé óhætt að þau passi drenginn á daginn. „Við erum ágætlega á okkur komin heilsufarslega, þannig að við teljum það ekki mikla áhættu, en við miðum við það að hafa ekki samskipti við aðra þar fyrir utan“.  Ólafur vinnur sjálfur heima þessa dagana, en að öðru jöfnu eru eigendur Vildarhúsa tveir á sínum vinnustað. „Við reynum að sleppa því að hitta fólk, höldum frekar fjarfundi – sem stundum takast ekki!. Þetta eru skrítnir tímar“ segir hann. Ingibjörg eiginkona Ólafs var stuðningsfulltrúi í grunnskóla, en hætti ári áður en hún komst á eftirlaunaaldur, þegar ömmustrákurinn fékk ekki pláss á leikskóla.

Fara í langar gönguferðir

„Við erum ekki að fara í heimsóknir til fjölskyldunnar í bili. Margir eru á sama aldri og við. Maður hittir bara sem fæsta og afgreiðir hlutina í gegnum símann í bili. Við sleppum hins vegar ekki hreyfingunni og förum alltaf í langar gönguferðir þegar veður leyfir. „Við erum í náttúruparadís hér í Úlfarsárdalnum. Á þessum árstíma göngum við ekki á Úlfarsfellið þar sem klaki er á fjallinu, en við göngum hérna inní dalinn og upp í Grafarholt. Það fer drjúgur tími í það“, segir Ólafur um það sem þau hafa helst fyrir stafni þessa dagana. Hann segir að þau gefi sér líka tíma í að elda góðan mat.

Ólafur Örn spilar fyrir afastrákinn Ólaf Aron

Ólafur Örn spilar fyrir nafna sinn Ólaf Aron

Spila fyrir mig og afastrákinn

Tónlistin skipar stóran sess í lífi Ólafs, enda spilaði hann í nokkrum hljómsveitum í Menntaskólanum á Laugarvatni þegar hann var við nám þar. „Ég er alltaf í tónlistinni, spila fyrir sjálfan mig og okkur, mig og afastrákinn. Ég spila á gítar og var öll menntaskólaárin í hljómsveitum sem skiptu reglulega um nöfn, eftir því sem menn fóru og nýir komu í þeirra stað. Þetta voru nöfn eins og Vinir og vandamenn, Frostaveturinn mikli 1918, Bóbó Péturs og fjölskylda og Jóga. Við strákarnir, ég og nafni minn, vorum að spila í morgun. Við tökum ýmis lög til dæmis Það er enginn eins og þú. Hann er með heilmikla tónlist í sér, það er gaman að fylgjast með því. Auðvitað reynir maður að hafa áhrif á það, halda því við. Hann er kannski full ungur til að fara að læra, en það kemur að því fyrr en seinna“, segir afinn vongóður.

Fara sjaldnar í búðina en áður

Búðarferðir eru að sjálfsögðu hluti af lífi  Ólafs og Ingibjargar. „Við fylgjum fyrirmælum Víðis í því. Það fer bara annað okkar inní búðina, maður heldur tveggja metra fjarlægð frá öðrum og er eins snöggur og maður getur“, segir hann og bætir við að fólk gleymi sér svolítið í þessu varðandi tvo metrana. „Maður þarf að passa það sjálfur á kössunum til dæmis. Það eru samt æ fleiri í kringum mann að átta sig á þessu, en einstaka menn taka ekki leiðbeiningum,  hafa aldrei gert og munu aldrei gera. Svo förum við sjaldnar í búðina en áður, reynum að kaupa meira í einu og saxa á það sem er í frystikistunni. Það gengur hægt. Við finnum kræsingar í frystikistunni sem ekki var vitað um, en sumt liggur jafnvel undir skemmdum. En heilmikið pláss í kistunni fer í ber, krækiber og bláber sem við tínum og eigum í búst. Við eigum töluverðar birgðir frá í fyrra og neðst í kistunni eru rosalega flott bláber sem þarf að fara að skoða. Þau eru í góðu lagi“, segir hann. Þau reyna líka að fara að versla á tímum þegar fáir eru í búðunum.  „Við förum snemma á morgnana, til dæmis á laugardagsmorgni um leið og opnar. Þá eru örfáir í búðinni“.

Þórólfur smitsjúkdómalæknir spilaði á bassann

Það er helgi framundan og Ólafur segir það auðvitað takmarkað sem fólk geti gert sér til tilbreytingar „Maður fer ekki í heimsóknir ,leikhús, bíó eða nokkurn skapaðan hlut. Þetta verður mjög einfalt það þarf að finna sér eitthvað til dundurs, lesa, horfa á sjónvarp og tala kannski meira saman en venjulega.  Við horfum ekkert sérstaklega mikið á sjónvarp, en helst á RÚV, Símann eða Stöð tvö. Við horfum frekar á fréttir og slíkt en kvikmyndir. Svo horfum við alltaf á blaðamannafundinn klukkan 14. Þetta eru flottir fundir og þau standa sig vel í þessu. Þórólfur sóttvarnarlæknir var með mér í einni hljómsveitinni í ML. Ég man ekki nákvæmlega hvaða hljómsveit það var, en held að það hafi verið Bóbó Péturs og fjölskylda. Hann spilar á bassa og er góður í því“. Ólafur segist líka vera með nokkrar bækur á náttborðinu sem gangi hægt að komast í gegnum. Ég er búin að gera nokkrar tilraunir með Tilfinningabyltinguna eftir Auði Jóns. Svo er ég með bunka af fræðibókum og tímaritsgreinar til að grípa í. Fræðibækur eru verulega svæfandi, maður sofnar á nokkrum mínútum.  Ég var mikill áhugamaður um hrunið og allt sem því fylgdi og hef lesið töluvert um það“.

Í gönguferð í Úlfarsárdalnum

Hrunið og staðan nú gerólík

Ólafur segir hrunið hafa verið gerólíkt ástandinu núna. „ Við vitum að þetta tekur enda innan einhverra mánaða.  Í fyrsta lagi eru allir í sama báti og í öðru lagi, ef menn fylgja ekki fyrirmælum geta þeir átt á hættu að týna lífinu. Peningar eru bara peningar og fólk lifir það af að missa þá.  Það er erfitt núna þegar menn eru að missa bæði vinnu og jafnvel húsnæði, en ekki jafn erfitt og það var í hruninu. Það eru engar smá aðgerðir sem verið er að grípa til og það er hægt núna þegar þjóðarbúið stendur vel. Við vorum á vonarvöl í hruninu og þurftum að fara á fjórum fótum út í heim til að leita aðstoðar. Þetta er mjög ólíkt“, segir hann.

Allt í biðstöðu

Ólafur Örn er í stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og einnig í stjórn Landssambands eldri borgara. „Allt félagslíf hjá Félagi eldri borgara var blásið af eftir að kórónuveiran kom til Íslands. Það er allt á „hold“ hjá félaginu, aðalfundi þess var frestað vegna samkomubannsins og nýr formaður hefur því ekki verið kjörinn eins og til stóð“, segir Ólafur en FEB hefur ekki ennþá farið fjarfundaleiðina í sínu starfi. Landssambandið hefur hins vegar verið að prófa sig áfram með hana og fjarfundir hafa einnig verið haldnir í stjórn Hlíðabæjar og Múlabæjar, þar sem Ólafur situr fyrir hönd Félags eldri borgara.

Fjarfundir munu spara fé í framtíðinni

„Fjarfundirnir eru ekki nákvæmlega eins og fundir þar sem menn hittast í eigin persónu, en það sem  mun sitja eftir er, að það verður hægt að nota þessa tækni í meira mæli í framtíðinni. Það þarf að æfa sig í fjarfundatækninni eins og öðru. Það er hægt að bregða upp skjölum og kynningum sem allir á fjarfundinum sjá samtímis. Ef þetta er vel æft er hægt að nota þessa leið, ásamt öðrum, til að funda. Það er hægt að spara ferðir, í allri þessari umræðu um umhverfismálin. Allar þessar ferðir til útlanda sem fólk telur sig þurfa að fara í.  Það mætti taka stóran hluta af þessum fundum sem fjarfundi. Þannig er unnt að ná árangri á styttri tíma, með minni tilkostnaði. Á þessu sviði er hægt að spara verulega. Auðvitað kemur ekkert í staðinn fyrir að hitta fólk augliti til auglitis. En það er alveg hægt að komast hjá því að flandrast yfir hálfan hnöttinn til að sækja reglulega fundi með sama fólkinu í verkefnum sem hafa staðið árum saman. En það er matsatriði hvar mörkin í þessu liggja“, segir Ólafur.

Þeir nafnar huga að umhverfismálunum

Eldra fólk í áhættu hér en munaðarlaus börn í Afríku

Ólafur segir að menn hafi áhyggur af eldra fólkinu á tímum kórónuveirunnar. „Þetta er áhættuhópur. Þeir sem eru við góða heilsu þurfa að vísu minna að kvíða, en allir þurfa að passa sig. Það er krefjandi fyrir eldra fólk og getur valdið einmanaleika að fá fólkið sitt ekki í heimsókn“. Ólafur hefur einnig áhyggjur af öðrum hópi, en hann er í stjórn SOS barnaþorpanna.  „Þar er annað sjónarhorn sem tengist faraldrinum. Við höfum áhyggjur af því að í Afríku er stór hópur munaðarlausra barna og mjög stór hluti hans er í fóstri hjá afa og ömmu. Það er hópur sem er útsettur í faraldrinum, því eru miklar líkur á að stór hluti þessara barna verði endanlega munaðarlaus, ef afar og ömmur falla frá. Þá eru þau bara komin á götuna“, segir Ólafur Örn að lokum.

Ritstjórn apríl 3, 2020 10:57