Eldri borgarar kenna útlendigum

Elderlearn“ kallast sjálfboðaliðasamtök eldra fólks í Danmörku og hafa verið starfrækt frá árinu 2017.  Samtökin para saman eldri borgara og innflytjendur sem vilja læra dönsku. Tilgangurinn er að efla tengsl innflytjenda við land og þjóð og auka gleði og hamingju hinna eldri. Það er enginn þvingaður til að taka þátt, báðir hóparnir gera það að eigin ósk. Samtökin eru starfandi í sjö sveitarfélögum um alla Danmörku. Sagt er frá samtökunum á vef danska ríkisútvarpsins.

Mahmoud Nawaf Nayef er 22 ára. Ruth Raymond er ný orðin áttræð.  Hann er múslimi, fæddur í Damskus í Sýrlandi en flúði til Danmerkur fyrir fjórum árum. Hún er gyðingur, fædd og uppalin í Kaupmannahöfn en flúði undan nasistum frá Danmörku til Svíþjóðar í síðari heimsstyrjöldinni. Í febrúar hittust þau í fyrsta skipti í kaffi heima hjá Ruth í Kaupmannahöfn. Nú hittast þau vikulega í um það bil klukkustund í hvert skipti og segjast njóta hverrar mínútu saman. Þau kynntust í gegnum „Elderlearn“ .  Fyrir þau tvö snýst þetta ekki bara um að Mahmoud læri dönsku, fyrir Ruth snýst þetta um að kenna honum um danskt samfélag og danska menningu. Því þrátt fyrir að þau virðist við fyrstu sýn eiga fátt sameiginlegt, þá er ýmislegt sem sameinar þau.  „Fólk er ekki jafn ólíkt innbyrðis og flestir vilja halda. Við einblínum á það sem við eigum sameiginlegt,“ segir Ruth og Mahmoud bætir við „við erum öll bara mannsekjur, sama hvaðan við komum.“

Ruth segist vilja hjálpa Mahmoud að aðlagast dönsku samfélagi og kenna honum hvað lýðræði inniberi. „Í miðausturlöndum er fólk vant því að það sé einræðisherra sem ákveði allt,“ segir hún. „Nú bý ég hér og mig langar að læra allt um Danmörku og danskt lýðræði,“ segir hann.  Mahmoud segist skilja að jafnaði um 80 prósent af því sem sagt er við hann en þegar hann tali við Ruth skilji hann næstum allt því hún tali hægt og skýrt. Ruth segist ekki í nokkrum vandræðum með að tala við Mahmoud og hjálpa honum þegar hann skorti orð yfir það sem hann ætlar að segja. „Við ræðum um hversdagslega hluti, alvarlega hluti um fjölskyldur okkar um menntun Mahmoud og framtíðarplön hans. „Danmörk er gott land og Danir prýðilegt fólk Mig langar að verða hjúkrunarfræðingur og ílendast hér. Mig langar að skapa mér framtíð,“ segir Mahmoud en bætir við að hann sé hræddur um að verða sendur úr landi. Hann segist óttast um öryggi sitt þurfi hann að fara aftur til Sýrlands. Eftir ár þarf hann að endurnýja dvalarleyfið. Ruth segir að það séu margir sem fái að vera um kyrrt í Danmörku og segist viss um að hann verði einn af þeim.

Þau eru sammála um að það séu fordómar í garð múslima í Danmörku. Fjölmiðlar og pólitíkusar bera  ábyrgð á því hvernig mynd þeir draga upp af þeim, segir Ruth.  „Láttu það ekki á þig fá hvað sagt er við þig út á götu. Fæstir Danir þekkja nokkurn múslima svo ekki taka illmæli þeirra persónulega. Fólk hefur alltaf haft fordóma gagnvart því sem það þekkir ekki. Ef það eru ekki múslimar, þá eru það gyðingar, Jótar eða rauðhærðir,“ segir hún við vin sinn.

Í stofunni heima hjá Ruth

Ritstjórn maí 3, 2019 06:55