Ævisögur geta veitt innblástur og mikilvæga innsýn í tímabil í sögunni en líka skilning á lífshlaupi og reynslu annarra manneskja. Að þessu leyti eru ævisögur bæði menntandi og til þess fallnar að auka samkennd og skilning. Sumar geta hreinlega breytt viðhorfum lesenda til tiltekinna málefna og opnað augu þeirra fyrir margbreytilegum hliðum mannlífsins. Sólgeislar og skuggabrekkur eftir Svölu Arnardóttur um ævi Margrétar Ákadóttur leikkonu er í þeim flokka.
Margrét er í hópi virtustu leikkvenna sinnar kynslóðar en ekki margir vita að hún hefur einnig lært lístmeðferð og unnið við hana. Áki, sonur Margrétar, er fyrirburi og hefur þurft að glíma við margar áskoranir vegna þess. Hann varð til að þess að vekja áhuga móður sinnar á því að nota list og sköpun til að þjálfa einstaklinga með hamlanir.
En það er ekki bara þessi hluti ævi hennar sem er athyglisverður. Margrét var dóttir stjórnmálamanns, sósíalista sem hvarf frá harðlínukommúnisma vegna þess að hann trúði á mannúðlegri leiðir til að bæta heiminn. Margrét lýsir því einstaklega vel hvernig það var fyrir níu ára barn að mæta hatrinu og óvægninni sem mætti fjölskyldunni eftir að pabbi hennar og mamma yfirgáfu Sósíalistaflokkinn. Áki var svikarinn. Þetta leiðir óneitanlega hugann að því hvernig rætt er um stjórnmálamenn sem á samfélagsmiðlum og víða í þjóðfélaginu í dag. Hvernig skyldi börnum þeirra líða?
Líklega geta allir sömuleiðis samsamað sig leit ungrar manneskju að sjálfri sér. Leiðin er misjafnlega grýtt og sennilega eru allir að auka við sjálfsþekkingu sína alla ævi. Margir finna ungir starfið sem þeir vilja gegna en Margrét var þrítug þegar hún áttaði sig á því að sviðið var hennar vettvangur. Flestir byrja fyrr í þeim bransa og hafa kynnt sig hér heima í gegnum nám. Margrét lærði í Bretlandi en hún á engu að síður að baki fjölbreyttan og áhguverðan feril.
Sumir kaflar lífs hennar eru ævintýri líkastir. Ekki hvað síst hennar fyrsta hjónaband með auðugum Breta. Með honum hefði líf hennar geta orðið áhyggjulítið hvað varðar efnahag en Margrét kaus að fylgja hjartanu og finna sína leið í lífinu. Flesta langar að setja á einhvern hátt mark sitt á þann heim sem við búum í, skilja eitthvað eftir sig. Það er óhætt að fullyrða að Margrét Ákadóttir hefur þegar gert það og með því að segja sögu sína hefur hún enn víðtækari áhrif. Svala Arnardóttir skrifar söguna á lifandi og skemmtilegan hátt og hún rennur vel áfram. Það er óhætt að mæla með þessari ævisögu.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.