Það er engin lognmolla í Iðnó á mánudagskvöldum. Hópur velþekktra leikkvenna hefur tekið staðinn yfir. Í haust hafa verið settar upp fjölbreyttar sýningar, má þar nefna ljóðadagskrár, leiklestra og gjörninga svo eitthvað sé upptalið.
Setja saman upp sýningar
„Hún Margrét Rósa Einarsdóttir, staðarhaldari í Iðnó hóaði í okkur, nokkrar leikkonur, snemma í haust. Hún bauð okkur aðstöðu í húsinu og að við gætum sett upp sýningar á mánudagskvöldum. Við höfðum lengi verið að ræða að við yrðum að fara að gera eitthvað og allt í einu kom tækifærið ,“ segir Guðlaug María Bjarnadóttir, leikkona. Hún segir að hópurinn hittist á hverjum fimmtudegi á Kústinum á efstu hæðinni í Iðnó. „Þar flæða fram hugmyndir að allskonar sýningum. Ætli við séum ekki í kringum þrjátíu virkar allt í allt. Á Kústinum verða til litlir hópar sem ákveða að setja upp sýningu saman. Svo fer allt í gang og æfingar hefjast. Þegar sýningin er tilbúin fer hún á fjalirnar. Til dæmis var það þannig þegar við settum upp ljóðsýninguna, við vorum þrjár sem ákváðum að setja hana upp og flytja ljóðin okkar með leikrænum tilþrifum,“ segir Guðlaug María.
Dansverk á nýju ári
Og þær eru hvergi nærri hættar. Næsta mánudagskvöld, 8.desember á að lesa úr bókum íslenskra rithöfunda þar sem verk kvenna eru í aðalhlutverki og á nýju ári er í bígerð er að setja upp til dæmis dansverk sem Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrir. Guðlaug María hefur sinnt kennslu hin síðari ár. „Það er frábært að snúa til baka í leikhúsið á eigin forsendum. Mér finnst ég hafa fest mig fullmikið í kennslunni en nú sé ég fyrir mér að ég geti gert hvoru tveggja í framtíðinni að leika og kenna.“