Framboð til formanns – Borgþór Kjærnested

Borgþór V Kjærnested er einn þriggja frambjóðenda til formanns í Félagi eldri borgara í Reykjavík, en nýr formaður verður kjörinn á næsta aðalfundi félagsins. Hér á eftir er stutt grein eftir hann.

Eftir að hafa fylgst með þróun kjara okkar sem tökum lífeyrir, frá því að ég hætti störfum sem framkvæmdastjóri Landsambands eldri borgara árið 2009 og flutti til Finnlands, hefur margt þróast á verri veg. Ég hef hins vegar notið tekna úr þeim lífeyrissjóðum sem mér var skylt að greiða til á 7. 8. og 9. áratugunum. Hefði ég haldið áfram að búa með Finnum eða Svíum, þá gæti ég haldið áfram að afla mér atvinnutekna og einungis greitt af aukatekjunum skatt. Skatturinn fer stighækkandi í samræmi við tekjurnar.

Ég kaus hins vegar að flytja heim til Íslands og barnabarna um síðast liðin áramót. Þá fer að harðna á dalnum. Skattlögð eftirlaun erlendis geta komið til skerðingar á lífeyri frá TR og aukatekjur líka. Það er vegna þess að ég fæ nokkra upphæð frá TR.

Ég er þess vegna háður því kerfi sem ég vil láta breyta. Við erum all stór hópur fólks sem erum í höndunum á TR og ofurseld duttlungum og ákvörðunum misvitra stjórnmálamanna. FEB er sá vettvangur sem við verðum að beita markvisst í þeirri baráttu og ég er tilbúinn að leggja þeirri baráttu það lið sem ég get.

Borgþór V. Kjærnested

 

Ritstjórn mars 9, 2020 08:34