Þrír einstaklingar bjóða sig fram til formennsku í Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Við birtum á mánudag grein frá Borgþóri V. Kjærnested sem er einn þeirra og þótt aðalfundi félagsins sem átti að vera á morgun, hafi verið frestað, birtum við hér grein eftir annan frambjóðanda, Hauk Arnþórsson. Á föstudag verður svo grein eftir þriðja frambjóðandann Ingibjörgu H Sverrisdóttur.
Ég legg áherslu á félagsleg mál, réttindamál og hagsmunabaráttu. Ég hefði viljað (i) að hámarkslífeyrir hækki til jafns við lágmarkslaun samkvæmt lífskjarasamningum, (ii) að kerfi almannatrygginga verði endurreist og sé starfrækt til viðbótar við núverandi kerfi félagslegrar aðstoðar og (iii) að eldri borgarar njóti sambærilegra félagslegra réttinda og þeir sem eru á atvinnumarkaði og geti verið virkir í lífi og starfi úti í þjóðfélaginu með slíkum stuðningi.
Fátækt er ljótur blettur á samfélagi okkar og býr nokkur hluti eldri borgara við hana, enda lækka meðaltekjur um helming við starfslok. Oft hefur komið fram að sumir eldri borgarar geta jafnvel ekki notið grunnþjónustu svo sem fullrar heilbrigðisþjónustu af þessum sökum. Hækka þarf hámarkslífeyri til jafns við lágmarkslaun, annars standa lífskjarasamningarnir ekki undir nafni. Þetta er í mínum huga mikilvægasta málið. Fátækt á ekki að líða. Í gangi er á netinu undirskriftarsöfnun þar sem þessa er krafist. Þá þarf að auka framboð á félagslegu húsnæði en þeir sem eru á leigumarkaði standa verst.
Almannatryggingakerfið er ekki uppbyggt á réttan hátt. Það veitir aðeins félagslega aðstoð, sem vissulega er grundvallaratriði, en það er ekki almennt tryggingakerfi eins og var hér á landi fyrir tilkomu lífeyrissjóðanna. Núverandi kerfi er samt í lögum um almannatryggingar, en ekki í lögum um félagslega aðstoð þar sem það á að vera. Það felst í þessu nálgun þar sem öllu er snúið á hvolf. Það þarf í rauninni engar skerðingar og það þarf enga tvísköttun og bakreikninga og það þarf ekki yfir 80% jaðarskatta ef kerfið væri rétt uppbyggt eins og er í nágrannaríkjunum.
Ég tel mjög brýnt að komið verði á félagslegu stuðningskerfi fyrir eldri borgara eins og fyrir þá sem eru á atvinnumarkaði. Eldri borgarar eru mikið heilsuhraustari en áður og geta verið virkari í samfélaginu en var og þurfa aukinn stuðning til þess. Við starfslok getur fólk einangrast og þurft slíkan stuðning og er þá m.a. átt við þátttöku í námskeiðum, endurmenntun og fræðslu og í líkamsrækt, svo eitthvað sé nefnt. Inn í félagsmálapakka þeirra sem eru á vinnumarkaði eru aðgangur að orlofssjóði, sjúkrasjóði, tryggingum, endurhæfingarsjóði (námskeiðssjóði) og aðgangur að Virk. Allt er þetta mikilvægt og skal hér minnst á tryggingamálin sérstaklega, en á vinnumarkaði koma tryggingar m.a. í veg fyrir að útfararkostnaður setji fjölskyldur á hausinn og þær dekka mikið af þeim heilbrigðiskostnaði sem Sjúkratryggingar gera ekki (gleraugnakaup, sjónmælingar, röntgenmyndatökur, rannsóknir o.fl.). Þá er órætt um orlofssjóði og aðgang að orlofshúsum, en stéttarfélög á vinnumarkaði útvega ekki aðeins slík hús, heldur greiða líka allt að 55 þús. kr./ári fyrir leigu á bústöðum og fyrir ferðakostnað.
Ég styð öfluga félagsstarfsemi FEB og get hugsað mér að auka við hana, en þau félagslegu réttindi sem ég minntist á opna þó mikið fleiri möguleika á félagsstarfi og þá úti í þjóðfélaginu – félagsstarfi sem væri með fólki úr ólíkum áttum og á öllum aldri. Ekki er heppilegt að búa svo um hnútana að eldri borgarar hitti bara jafnaldra sína og séu lítt sýnilegir í félagslífi í þjóðfélaginu – þeir hafa miklu að miðla til næstu kynslóða.
Að lokum minni ég á orð sem ég viðhafði við annað tilefni: „Ég legg sérstaka áherslu á að eldri borgarar öðlist sterkari rödd í umræðunni en áður. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem hafa hæstar þjóðartekjur á mann og þeir eiga hiklaust að gera kröfu um að geta lifað lífinu sem fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Þeir þurfa að knýja fram breytingar í takt við breyttar aðstæður.“