Sjá ekki eftir neinu meira en hafa borgað í lífeyrissjóð

„Okkur í fjölskyldunni finnst erfitt að horfa uppá hvernig komið er fram við eldra fólkið í landinu og erum staðráðin í að leggja fram fé í Málsóknarsjóðinn“, segir Gunnar Ásgeir Gunnarsson verkstjóri hjá Steypustöðinni í Borgarnesi,  um söfnun Gráa hersins fyrir málaferlunum á hendur ríkinu vegna skerðinganna í almannatryggingakerfinu. „Við verðum að hjálpast að í þessu, ég vona bara að dómsmálið vinnist og þetta klárist áður en ég fer á eftirlaun sem er náttúrulega ákveðin eigingirni hjá mér“, segir hann og bætir við að honum finnist að kerfið geti ekki átt að vera þannig, að menn á eftirlaunum, geti ekkert unnið eða gert, þá sé allt tekið af þeim.

Gunnar Ásgeir Gunnarsson

Á ekki aukatekið orð yfir framkomu ríkisins

Gunnar segir að það styttist í að hann fari á eftirlaun. „Maður er að sjá fólk í kringum sig fara á eftirlaun og á ekki aukatekið orð yfir framkomu ríkisins“. Hann segir að það hafi komið fram í fréttum að afkoma lífeyrissjóðanna sé góð. „Það er gaman, en bara verst að ríkið hirðir það allt. Ef lífeyrissjóðurinn hækkar, minnka eftirlaun fólks frá ríkinu. Það er margt óréttlátt, en það er eiginlega ekkert sem særir réttlætiskennd mína jafnmikið og það hvernig komið er fram við eftirlaunafólkið í landinu. Ég tala nú ekki um þegar það fer inná hjúkrunarheimili. Þá eru allar tekjur teknar af fólki, nema rétt rúmar  90.000 krónur á mánuði. Af því fé, þarf fólk að borga meðal annars fasteignagjöld og hússjóð af íbúðunum sínum. Það verður ekkert eftir, menn eiga ekki einu sinni fyrir jólagjöfum handa barnabörnunum. Stjórnvöld þurfa að átta sig á að þetta gengur ekki“.

Trúi ekki öðru en þetta verði leiðrétt

Gunnar segir að sér finnist  slæmt að það þurfi að standa í  málaferlum. „Þetta er neyðarrúrræði að mínu mati og þeir sem standa að þessu eiga heiður skilið. Ég vona að þetta gangi vel og trúi ekki öðru en þetta verði leiðrétt.  Þá gagnast það þeim sem á eftir koma. Þetta er einfaldlega rangt. Svona gerir maður ekki  sagði Davíð Oddsson hér um árið. Hvernig sem málaferlin fara, er ekki í boði að koma svona fram við eldra fólkið í landinu. Það hefur komið okkur yngri kynslóðinni á það ról sem við erum á núna. Íslendingar hafa það gott og hafa efni á að hugsa vel um eldri kynslóðina“.

Lánin hafa hækkað, hækkað og hækkað

Gunnar segir að það sé búið að gera sína kynslóð hálf eignalausa, en það hafi gerst með verðtryggingunni. „Mín kynslóð hefur stritað við að borga af lánum alla tíð, lánin hafa bara hækkað, hækkað og hækkað. Ég þekki fólk sem lenti tvisvar í hruni. Fyrst í Sigtúnshópnum og síðan í bankahruninu. Svo er verið að reyna ná sér á strik aftur. Mann langar kannski um sjötugt að geta leyft sér að fara til Spánar og slaka á. Fólk sættir sig ekki við að vera bundið á klafa hérna og geta ekki leyft sér nokkurn skapaðan hlut.  Ég á vinnufélaga sem eru farnir að skoða stöðu sína þegar þeir fara á eftirlaun. Kerfið er svo afspyrnuvitlaust að þeir sjá ekki eftir neinu meira en að hafa borgað í lífeyrissjóð“.

„Það er leiðinlegt að standa í málaferlum, en það er þrautarlending“, segir Gunnar.  „Það verður að höfða til heilbrigðrar skynsemi og sanngirni hjá þeim sem stjórna þessu landi. Það er ekki hægt að bjóða uppá þetta“, segir hann að lokum.

Þessi grein birtist áður hér á vefsíðunni í janúar 2020 og hefur verið uppfærð

Ritstjórn október 19, 2022 07:00