Tómas R. Einarsson er þekktur fyrir ýmislegt en skilgreiningin ,,listamaður“ nær líklega yfir það allt. Hann segist reyndar sjálfur ekki vera rithöfundur en hefur nú samt skrifað bók sem kom út nýverið og ber heitið ,,Gangandi bassi“. Tómas hefur þýtt níu bækur úr spænsku og eina úr ensku og sagði eitt sinn við sjálfan sig að þegar hann væri orðinn hundgamall skyldi hann sjálfur fá að velja orðin í eina bók. Deila má um skilgreininguna ,,hundgamall“ en Tómas er orðinn sjötugur og nú er sú bók komin út. Gangandi bassi er sjálfsævisaga þar sem Tómas fer yfir merkilegan feril sinn fram til þessa. Hann er Dalamaður og þar með sagnamaður sem nýtist honum í skemmtilegum frásögnum af samferðafólki og í þeim hópi eru margir merkilegir einstaklingar. Úr verða sögur sem einkennast af galsa sem beinist ekki síst að honum sjálfum en líka þeim sem sagt er frá.
Óreiðan í djassinum
Fyrir marga er djasstónlist svolítið óreiðukennt tónlistarform. Spuni eða ,,djamm“ einkennir þessa tónlistarstefnu, þar sem ekki er farið nákvæmlega eftir nótum heldur tilfinning og innsæi látið ráða för. Galdurinn, sem verður til þegar hljóðfæraleikarar finna saman seiðandi taktinn og spinna laglínuna saman, þykir mörgum á góðum degi vera betra en allt. Um það eru ekki allir sammála en það á við um Tómas sem heillaðist snemma af óreiðunni sem af þess konar spilamennsku hlýst.
Tónlistin tók yfir og harmonikkan réði för
Gangandi bassi hefst á æskustöðvum Tómasar að Laugum í Dölum og endar þar líka. Hann fæddist á þessum mikla sögustað þar sem Guðrún Ósvífursdóttir fæddist sömuleiðis en Tómast fór 13 ára gamall í gagnfræðaskóla í Stykkishólmi þar sem hann var á heimavist í þrjá vetur en fór heim á sumrum. Síðan fór hann til Reykjavíkur í Menntaskólann við Hamrahlíð en þaðan lá leiðin í sagnfræði og latínu í Háskóla Íslands í einn vetur. Þá hafði tónlistarbakterían, sem maður losnar víst ekki svo auðveldlega við, tekið sér bólfestu í honum. Tómas hafði kynnst harmonikkunni heima í Dölunum en nikkan var það hljóðfæri sem hann heyrði fyrst í. ,,Um tvítugt fór ég að hlusta á argentínska tangóa sem mér þóttu óheyrilega flottir,“ segir Tómas og tangóáhuginn átti síðar eftir að draga hann á framandi slóðir. ,,Harmonikkan gaf mér þá hugmynd að það hlyti að vera óstjórnlega gaman að fara til Suður-Ameríku og hlusta á heimamenn í Buenos Aires spila á tangóharmonikkuna bandoneon.“
Maður fer ekki mállaus til Suður-Ameríku
Tómas gerði sér grein fyrir því að betra væri að tala spænsku ef Suður Ameríkuför ætti að gagnast honum almennilega. Hann fór þess vegna til Barcelona 1975 til vetrardvalar. Þaðan kom hann heim og fór á vertíð og í símavinnu til að safna farareyri, allt til að komast til Buenos Aires. Þangað fór hann um haustið með vini sínum Vali Helgasyni og þeir tveir voru svo á flakki í fjóra mánuði og hlustuðu meðal annars á tangó í Buenos Aires eins og til hafði staðið.
Upphaflega hugmyndin og útþráin leiddi Tómas út í flakkið og spænskunámið sem átti eftir að gagnast honum vel um ævina, meðal annars við þýðingu bóka úr spænsku og svo hefur hann tekið upp nokkrar plötur á Kúbu.
Endar fyrir furðulega tilviljun á kontrabassa
Tómas hafði séð Friðrik Theodórsson spila á kontrabassa á samkomum Jazzvakningar á þessum tíma og heillaðist. Hann sá Niels-Henning Örsted Pedersen líka spila hér með tríói sínu og sá að það var hægt að gera ýmislegt skemmtilegt með þetta fallega hljóðfæri. ,,Ég var með fjölmörg áhugamál á þessum tíma en datt í hug að skrá mig í tónlistarskóla. Þar var ég látinn strjúka þjóðlög með boga á bassann en það var ekki það sem mig langaði að gera. Mig langaði að geta spilað blúsgang eins og Friðrik Theodórsson og eftir fullkomlega misheppnað kontrabassanám í það sinnið ákvað ég að hætta þessu alfarið og ætlaði aldrei að koma við þetta hljóðfæri framar. En svo fór
ég til Noregs þar sem ég fékk vinnu við að byggja olíuborpall í Stavanger og eignaðist pening. Síðsumars 1979 var ég á rölti í miðbæ Oslóar og sá þá þennan gífurlega fallega kontrabassa í búðarglugga og fór inn og keypti hann. Í framhaldinu las ég spænskar bókmenntir í Osló og var einnig að skrifa ritgerð um fyrsta blómaskeiðið í íslensku djasslífi,“ segir Tómas.
Tilviljanir eða örlög
Þegar þarna var komið sögu var Tómas kominn með hugmynd um að færa sig yfir til Kaupmannahafnar. Hann skrifaði vini sínum Halldóri Guðmundssyni og bað hann um að aðstoða sig við að komast í nám í portúgölsku þar. ,,Ég hafði hlustað mikið á brasilísku bossanova tónlistina sem er blanda af sömbu og djassi og þar er sungið á portúgölsku. Halldór sagðist geta gert það en bætti við að hann væri eiginlega búinn að ráða mig í hljómsveit í Höfn. Hún hét Diabolus in musica en þá krakka vantaði bassaleikara því þeirra bassaleikari, Jón Sigurpálsson, var kominn í myndlistarnám til Amsterdam. Mér fannst þetta stórkostlegt tækifæri og hellti mér út í spilamennskuna. Krakkarnir í Diabolus kunnu heilmikið og ég sá að ef ég ætlaði ekki að verða mér til skammar yrði ég að halda vel á spöðunum, vann fyrir mér með skúringum á morgnana og æfði mig á daginn, marga klukkutíma á dag.“
Allt kom heim og saman
Allt í einu small allt saman eftir að Tómas hafði elt drauma sína vítt og breitt, kúrsinn var orðinn klár. Og einmitt þá var verið að stofna
Tónlistarskóla FÍH og þangað leitaði Tómas. ,,Þá var ég orðinn 27 ára gamall og portúgalskan datt upp fyrir,“ segir hann og brosir.
Tómas segist ekki hafa hvatt eigin börn eða annarra til að leggja fyrir sig tónlist sem ævistarf. ,,Það verður að koma algerlega innan úr manni, þetta getur verið mikið hark og tekið á. Það verður að vera til staðar sterk innri sannfæring,“ segir Tómas. Hann segist reyndar ekki hafa vitað hvað hann ætlaði að gera þegar hann settist í sagnfræði sem aðalfag og spænsku sem aukafag. ,,Það var svo ekki fyrr en ég var búinn að flakka vítt og breitt og prófa ýmislegt að mér varð ljóst hvað ég vildi leggja fyrir mig,“ segir hann.
Ýmsar hremmingar á leiðinni
Í febrúar 1981 var Tómas kominn í hljómsveit ungra djassáhugamanna sem hét Nýja kompaníið. ,,Við spiluðum og æfðum gríðarlega mikið en einn daginn var falast eftir mér í afleysingar eitt kvöld í hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar. Mér þótti þetta mikið tækifæri því ég bar mikla virðingu fyrir þessum merkilegu djössurum en í hljómsveitinni voru þetta kvöld auk Guðmundar, nafni hans Guðmundur Steingríms trommari og gítaristinn Björn Thoroddsen. Ég hoppaði inn í bandið þetta kvöld fyrir Gunnar Hrafnsson sem þá spilaði á bassa með Guðmundi. Þessi hljómsveit æfði aldrei, heldur mættu þeir bara og spiluðu. Eftir að ég hafði tekið þessu boði glaðbeittur fór ég að hugsa sem svo að ég myndi líklega ekki kunna lögin sem þeir spiluðu. Í stað þess að þetta yrði mér til framdráttar gæti þetta orðið átakanleg niðurlæging. Ég hripaði niður á blað þau tíu lög sem ég kunni utanbókar og afhenti Guðmundi Ingólfs miðann í barnslegri bjartsýni. Hann horfði á mig spyrjandi, dálítið hissa en sagði ekki neitt. Í fyrstu þremur lögunum sem voru spiluð vissi ég ekkert hvað var að gerast. Guðmundur tilkynnti tóntegundina en ég þekkti ekki lögin og reyndi í örvæntingu að prjóna eitthvað í kringum þá tóntegund. Það er til mynd sem tekin var þetta kvöld og ég er gríðarlega alvarlegur á þeirri mynd. Í pásunni flúði ég út og talaði ekki við neinn, mér leið svo illa og ég var búinn að margselja bassann í huganum. Svo pakkaði ég saman eftir tónleikana og þegar ég leit upp voru allir meira og minna skælbrosandi og ég skildi ekkert í þessu. Ég vonaði bara að enginn blaðamaður hefði verið í salnum, ég sá fyrir mér fyrirsögnina ,,Óhæfur bassaleikari klúðrar konsert“. Þá kemur Guðmundur Ingólfs til mín og segir: ,,Takk fyrir djammið Tommi minn,“ frekar hlýlega og þá hugsaði ég með mér að kannski hefði þetta ekki verið eins mikið klúður og ég hélt. Og þegar upp var staðið virtust ekki aðrir en ég hafa tekið eftir þessu fullkomna klúðri og ég hætti við að selja bassann,“ segir Tómas og brosir.
Að læra af mistökum
Þetta varð til þess að Tómas ákvað að læra utan að eins marga djass standarda og hann gat og um síðir gat hann spilað hljómana í 200 djasslögum án þess að líta á blað. ,,Ég ætlaði ekki að fá svona skell aftur og það varð metnaður minn að geta bjargað mér sem víðast. Því það bjó líka innra með mér einhver tegund af fullkomnunaráráttu, því að vilja gera hlutina vel. Það gat rústað fyrir mér upplifuninni ef ég hafði slegið tvær feilnótur á tónleikum. En sem betur fer vandi ég mig á að vera með upptökutæki og hlustaði á þegar ég kom heim. Ég fann yfirleitt út að þetta hafði ekki verið eins afleitt og mér hafði fundist á sviðinu og af því dró ég mína lexíu. Sjálfsgagnrýnin er holl en maður má ekki láta hana stífla þetta sameiginlega flæði sem djassmúsík er og sem getur á góðum degi skapað nýjan og óvæntan hljóm.“
Svo að þegar upp er staðið er það ,,óreiðan“ sem heillar þennan tónlistarmann sem hefur oft ætlað að selja bassann sinn.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.