Hvaðan kom forrétturinn?  

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ungur herramaður kom í kvöldmat til okkar eitt kvöldið í vikunni. Á matseðilunum voru heimagerðar kjötbollur, kartöflumús og sulta, eða sami matur og hann hefði helst kosið sem jólamat. Þegar við settumst að borðum spurði sá stutti hvort það yrði enginn forréttur. Forréttur! Jú, hann væri vanur að fá forrétt hjá ömmu sinni.

Eftir að hann var farinn, saddur og ánægður en þó án forréttar, fór ég að hugsa um þessa fyrirspurn og allar þær breytingar sem hafa orðið á matarvenjum heimilanna á nokkrum áratugum. Þegar ég var stelpa komu oft gestir óvænt í hádegis- eða kvöldmat og fengu soðna ýsu, kartöflur og smjör eða eitthvað annað í þeim dúr. Þeir borðuðu bara það sama og heimilisfólkið. Kannski var það vellingur með slátri, eða eggjakaka úr afgöngum. Ég held að mamma hafi varla vitað hvað forréttur var, hvað þá að henni hefði dottið í hug að bera eitthvað slíkt á borð fyrir gestina. Ef ég man rétt voru gestirnir ánægðir með það sem þeim var boðið upp á og aldrei var mamma að afsaka matinn. Þessar gestakomur voru krydd í tilveruna og ég á margar skemmtilegar minningar frá þeim.

Nú er öldin önnur. Það er liðin tíð að nokkur maður líti við og borði með okkur hádegis- eða kvöldmat án þess að hafa verið boðinn fyrirfram. Það gerist varla að nokkur banki upp á án þess að gera boð á undan sér. Ég veit ekki af hverju þetta hefur þróast svona. Þetta þýðir þó alls ekki að við séum ekki með matargesti. En þeir eru boðnir fyrirfram, gjarnan um helgi. Þá er yfirleitt þríréttað og mataruppskriftir valdar að gaumgæfni, vínið sömuleiðis, borðið dúkað og kertaljós. Ég fyllist kvíða og fæ áhyggjuköst yfir því að maturinn standist ekki væntingar gestanna. Þegar ég lít í eigin barm verð ég að játa að smám saman líður lengra á milli matarboðanna vegna þessa. Æ, við bjóðum þeim bara í mat um næstu helgi!

Spurningin er því sú hvort við séum komin út í einhverjar ógöngur með þennan góða sið að fá fólk í mat. Í tímum atvinnuleysis og covid verður þetta enn flóknara og útgjöldin skipta máli. Ég man eftir ungri vinkonu minni frá 2009, stuttu eftir hrunið. Þá sagðist hún loks geta skammlaust boðið vinkonum sínum heim í pastarétt, þar sem þær væru allt í einu allar orðnar jafn peningalausar. Við þurfum kannski að vinda aðeins ofan af eigin kröfum og væntingum gesta, bjóða upp á minna og oftar og njóta einfaldleikans og auðvitað að virða sóttvarnarreglur þríeykisins.

 

 

Sigrún Stefánsdóttir janúar 11, 2021 09:59