Fyrirframgreiddur arfur

 

Ásdís J. Rafnar

Ásdís J. Rafnar skrifar

Sem betur fer eru margir ágætlega staddir fjárhagslega þótt sligandi skuldir og úrræði af þeim sökum hafi aðallega mótað umræðuna um fjármál heimilanna undanfarin ár. Þegar börnin eru að baksa við að koma sér upp húsnæði, eða af öðru tilefni, vilja foreldrar sem eru aflögufærir gjarnan koma til aðstoðar. Þá er til ráða að lána fé, gefa eða greiða fyrirfram greiddan arf. Gjöf er skattskyld hjá þeim sem hana fær ef hún er umfram skilgreiningu á tækifærisgjöf.   Við veitingu láns þarf að taka afstöðu til þess hvort það skuli vera verðtryggt, bera vexti, umsýslu þess í skattframtölum og ráðgjöf sérfræðinga getur verið nauðsynleg. Fyrirframgreiddur arfur til lögerfingja er valkostur, ekki síst þegar greiðandi vill leggja áherslu á að leggja jafnt af mörkum til afkomendanna. Fyrirframgreiddur arfur getur líka verið úrræði til að dreifa eignum innan fjölskyldu til þess að létta á sköttum. Greiðslan getur verið peningar, fasteign, hlutabréf, eftirgjöf skuldar eða önnur verðmæti.

Jöfnuður í stuðningi við erfingja sína er mikilvægur og þá þannig að öllum sé greitt það sama á stuttu tímabili. Í fyrsta lagi vakna alltof oft deilur með skyldum við skipti dánarbúa vegna þess að einhverjum þykir annar hafa notið meiri fjárhagslegs ávinnings frá þeim sem er fallinn frá, jafnvel á löngu árabili. Í öðru lagi búum við við gjaldmiðil sem er vandreiknaður í verðmæti milli ára og áratuga þannig að erfitt getur verið að meta fjárstuðning í krónum við einn umfram annan á löngu árabili af fullri sanngirni.

Um fyrirframgreiddan arf gildir það sama vegna gjaldmiðilsins; það getur verið mjög flókið að reikna verðmæti fyrirframgreidds arfs til einhvers eins af fleirum, einhverjum árum áður en dánarbúi er endanlega skipt.

Lögerfingjar eru börn þess sem fellur frá og niðjar þeirra og aðrir þeir sem standa til arfs eftir hann skv. erfðalögum. Maka er heimilt að greiða stjúpbarni sínu eða niðjum þess fyrirframgreiddan arf úr hjúskapareign sinni, með þeim hætti að semja um að verðmætin séu fyrirfram greiddur arfur eftir hinn makann og komi þá til frádráttar við arfskipti eftir hann.

Engin takmörk eru á því hve mikið megi greiða í fyrirframgreiddan arf. Við greiðslu á fyrirframgreiddum arfi þarf þegar upp er staðið að gæta sín á þeirri reglu erfðalaganna að erfingi sem fær fyrirfram meiri verðmæti greidd frá foreldri en sem nemur erfðahluta hans þegar dánarbúið er gert upp verður ekki skyldaður til að standa búinu skil á mismuninum, nema hann hafi sérstaklega skuldbundið sig til þess.

Á vefnum www.syslumenn.is er að finna upplýsingar um fyrirframgreiddan arf og þar má nálgast eyðublöð erfðafjárskýrslu og fleira um þessa ráðstöfun. Erfðafjárskattur af fyrirframgreiddum arfi er 10 %. Tekjuskattur af gjöf umfram venjulega tækifærisgjöf er þrepaskiptur eins og af launatekjum. Þrepin eru þrjú. Fer skatthlutfallið stighækkandi eftir fjárhæðum og er til muna hærra en erfðafjárskatturinn.

Grein úr safni Lifðu núna

Ritstjórn janúar 18, 2023 07:05