Tengdar greinar

Gagnleg og góð bók

Hafi einhvern tíma verið tímabært að skrifa bók um náttúruvá, almannavarnir og hvað almenningur getur gert til að auka viðbúnað sinn þá er það núna. Ari Trausti Guðmundsson skynjaði þörfina og bók hans Náttúrvá, ógnir, varnir og viðbrögð er upplýsandi, greinagóð og hjálpleg. Ari Trausti skrifar skýran og aðgengilegan texta og tekst einnig að gera efnið áhugavert.

Íslendingar hafa alla tíð verið meðvitaðir um ógnir náttúrunnar. Eldgos hafa valdið mannskaða, eytt byggðarlögum og borið skaðlegar lofttegundir yfir hafið til Evrópu. Framskrið úr fjöllum, jökulhlaup, snjóflóð og aurflóð lagt bæi í rúst og veðrið með sínum duttlungum og óútreiknanleika sökkt skipum og hrakið ferðalanga í dauðann. Þrátt fyrir aukna þekkingu og nákvæma tækni hefur enn ekki tekist að spá eða reikna út með fullri vissu hvar eða hvenær næsta vá skellur yfir.

Jarðeldarnir á Reykjanesskaga með tilheyrandi skjálftavirkni hafa skotið mörgum skelk í bringu, sömuleiðis aukin virkni í Bárðarbungu, Öskju og Mýrdalsjökli. Loftslagsbreytingar skapa aukna öfga í veðurfari um allan heim, metúrkoma eða algjörir þurrkar skapa hættur og neyð víða annars staðar, met eru slegin í vindhraða og skyndilega og óvænt skella hér á landi á vetrarveður seint að vori eða snemma hausts. Allt þetta kallar á að menn auki viðbúnað sinn og árvekni.

Bók Ara Trausta er gott framlag í átt að aukinni færni til að skilja og bregðast við umhverfi sínu. Hún er einnig full af fróðleik um eðli þeirra afla sem eru hvað sterkust og ógnvænlegust hér á landi og með þekkingu kemur aukið öryggi.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 14, 2024 07:00