(Úr safni Lifðu núna)
Margrét Helga Jóhannsdóttir er í afar áhugaverðu viðtali í Fréttablaðinu í dag. Þar fer hún yfir leikferil sinn, sjá viðtalið í heild hér og í síðari hluta viðtalsins fjallar hún um stöðu eldra fólks í landinu og þá staðreynd að því er gert afar erfitt fyrir að vinna, kjósi það svo. En grípum niður í Fréttablaðið:
Eftir farsælan feril í leikhúsi og kvikmyndum er Margrét Helga enn með hugann við framtíðina og segir að hún hafi ekki verið farin að taka lífeyri fyrr en hún var orðin 72 ára en verið að vinna á fullu fram að því. „Eftir það hefur mér boðist vinna í leikhúsinu en bæði hefur það rekist á við annað og svo kemur líka fleira til. Þannig að ég ætla ekkert að gera neitt núna nema að mig langi virkilega til þess því ég er er orðin svo sjálfselsk. Enda verð ég að vera sjálfselsk, það er affærasælast,“ segir Margrét Helga og er óræð á svipinn.
En það sem Margrét Helga hefur verið hvað mest hugsi yfir síðustu misserin er sú staða sem lífeyrisþegar með fulla starfsgetu eru settir í á Íslandi. Hún bendir á að á síðasta ári hafi hún mátt vinna fyrir 109.000 krónum á mánuði eða samtals 1.300 þúsundum yfir árið. „Núna er búið að skerða þetta um heila milljón. Þannig að þú mátt ekki vinna nema fyrir 300.000 yfir árið eða 25.000 á mánuði, það er hálfur dagur ef þú ætlar að fá smið, en eftir það er farið að taka af þér krónu á móti krónu og þá ertu farinn að borga með þér í vinnuna. Það kostar að fara í vinnu, það kostar að halda sér í góðu formi til að geta unnið, og svo á maður að borga með sér fyrir að fá að vinna. Þetta er galið. Ég get ekki farið á fjóra fætur. Ég get það ekki því ég er það stéttvís að ég sætti mig ekki við þetta.“
Margrét Helga segist vera hugsi yfir þessari stöðu lífeyrisþega. „Það er enginn sem græðir. Allir tapa. Af hverju má maður ekki vinna og borga 40 prósent í tekjuskatt? Það er fullt af fólki sem vill halda sjálfsvirðingu en ekki láta segja sér að það sé orðið gamalt og ónýtt. Fullt af fólki sem hefur gaman af því að fara í vinnu á morgnana, sama hver vinnan er, og leggjast á koddann á kvöldin búið að skila sínu dagsverki. Ég er viss um að þetta mundi minnka lyfjanotkun og niðurbrot á fólki og það vantar alls staðar fólk. Mér finnst það sorglegt að fólk sem hefur skilað veglegu lífshlaupi sé að betla svarta vinnu á lágu kaupi af því að það langar til þess að fara á fætur á morgnana og fara til vinnu. Vera þarft.“
Lætur sig dreyma
Margréti Helgu er mikið niðri fyrir með þetta mál og hún bendir á að þetta sé í raun markvisst niðurbrot á fólki. „Það eru nýjar rannsóknir sem sýna að það er fátt jafn óhollt. Það er auðvitað óhollt að reykja og borða óhollan mat en óhollastur af öllu er einmanaleikinn. Eitt er að þurfa einveru og ég hef mína þörf eins og svo margir fyrir það að vera ein, en það er allt annar hlutur, þarna er verið að dæma fólk til einangrunar. Það er í raun verið að segja manni það opinberlega að maður sé einskis nýtur.Ég er ekkert að segja að allir eigi að vinna og sumir vilja það ekkert en það á vera val hvers og eins. Það er alltaf talað um peninga en aldrei um velferð eða mannúð. Þetta er afleit þróun og við erum að verða soldið rotin sem samfélag. Í gamla daga var gamalt fólk kallað vitringar og það var litið upp til þess. En hérna erum við eins og H&M þar sem það kemur ný tíska oft ári og þá er öllu öðru hent. Við erum einnota umbúða þjóðfélag.“
Margrét Helga segir að á síðasta ári hafi hún fengið að leika í Föngum og taka laun fyrir það. „Núna er verið að skrifa áframhald og ef til kemur verð ég ekkert í því að óbreyttu og mér finnst það leitt vegna þess að það er gaman að vinna með þessu yndislega fólki.
Af hverju má fólk ekki vinna og vera virkt í samfélaginu? Óttarr Proppé sagði að það þyrfti að vera með fyrirbyggjandi aðgerðir, til þess að fólk yfir áttrætt geti verið eitt heima hjá sér og ég hef velt því fyrir mér hvernig þetta er hugsað. Fyrirgefðu, en ég er úr sveit og mér finnst þetta bara vera eins og sena úr áramótaskaupi.“
Margrét Helga minnir á að það er gaman að láta sig dreyma og það breytist ekkert með aldrinum. „Kannski er þetta eitthvað sem rætist aldrei en það gerir ekkert til. En að taka burtu framtíðina frá fólki og segja því að það sé ónýtt er ekki rétt,“ segir hún og bætir við að það sé allt of margt í samfélagi dagsins í dag sem sé orðið eins og það var árið 2007. „Sjálf er ég alveg á sama stað og ég var þá. Árið 2007 keypti ég ekki neitt. Ég horfði bara á og það var eins og það væri að koma kjarnorkustyrjöld og fólk bara keypti og keypti eins og það væri að fara ofan í jörðina. Núna er þetta alveg eins.
Það er eitthvað mikið að í þessu þjóðfélagi. Við lærum aldrei af reynslunni. Það er helst að unga fólkið sé hugsandi og meðvitað um umhverfi sitt og samfélag. Ég bind vonir mínar og drauma við það og allt þetta frábæra listafólk sem við Íslendingar eigum. Gott og heilsteypt listafólk sem fyllir mig bjartsýni á framtíðina þrátt fyrir allt.“