Bætum þjónustu við eldra fólk

Ásthildur Sturludóttir

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri skrifar

Í lok síðasta árs samþykkti þáverandi bæjarstjórn Akureyrar ítarlega aðgerðaráætlun sem miðar að því að bæta þjónustu við eldra fólk á Akureyri og af málefnasamningi þeirra flokka sem nú mynda meirihluta í bæjarstjórn má ljóst vera að áfram verður unnið ötullega að því að ljúka með sóma þeim 12 verkefnum sem aðgerðaráætlunin nær yfir.

Að svo ítarleg og stefnumarkandi áætlun skyldi samþykkt var mikið ánægjuefni því auðvitað ber okkur sem samfélagi og kraftmiklu sveitarfélagi að tryggja eldra fólki sem bestan aðbúnað. Hjarta þess starfs sem sveitarfélagið hefur með höndum á þessu sviði má e.t.v. segja að séu félagsmiðstöðvarnar tvær, Birta og Salka. Þar er boðið er upp á metnaðarfulla dagskrá til að styrkja bæði sál og líkama. Félagsmiðstöðvarnar eru vel sóttar og stundum er þar þröng á þingi. Til að bæta úr því er verið að skoða hvort hægt sé að koma þessu starfi í rúmbetra húsnæði áður en langt um líður. Gestir félagsmiðstöðvanna Sölku og Birtu koma þangað m.a. til þess að taka þátt í skipulögðum viðburðum, njóta samveru og fá næringarríkan hádegisverð. Um síðustu áramót lækkaði verð hverrar máltíðar um 100 krónur sem verður að teljast umtalsverð kjarabót í ljósi þess að bæði hráefnisverð og launakostnaður hafa hækkað umtalsvert síðustu misserin og mánuðina.

Það er einnig hlutverk sveitarfélagsins að búa svo um hnútana að nægt framboð sé af lausum lóðum þar sem framtakssamir einstaklingar, félög og fyrirtæki, geta byggt heimili fyrir unga sem aldna. Akureyrarbær hefur unnið markvisst að uppbyggingu nýrra hverfa og í 2. áfanga Móahverfis er gert ráð fyrir íbúðum fyrir eldri borgara sem enn á eftir að útfæra. Í nýju Holtahverfi er í undirbúningi bygging um 60 íbúða í samstarfi Búfestis og EBAK (Félags eldri borgara á Akureyri) en í því tilviki úthlutaði Akureyarbær lóðinni til þess verkefnis án auglýsingar enda vilji til þess að aðstoða óhagnaðardrifin félög til þess að byggja líkt og gert er í þessu tilviki. Það þarf því ekki að velkjast í vafa um vilja bæjaryfirvalda til að bjóða eldri borgurum fjölbreyttari kosti í húsnæðismálum.

Starfsfólk Akureyrarbæjar og bæjarfulltrúar leggja metnað sinn í að bæta eftir fremsta megni þjónustuna við það fólk sem lagði grunninn að samfélaginu okkar og þeirri velferð sem við njótum. Sjálf hef ég í starfi bæjarstjóra lagt mig sérstaklega eftir að hlusta á raddir eldra fólks, hef átt góða fundi með öldungaráði bæjarins og vil fyrir alla muni hlusta á þær ábendingar sem þaðan koma um það sem betur má fara. Það er einlæg ósk mín, trú og von, að það samstarf verði hér eftir sem hingað til uppbyggilegt og leiði til bættrar þjónustu við þessa góðu bæjarbúa.

 

Formaður félags eldri borgara á Akureyri hefur einnig sent Lifðu núna greinar um stöðu eldri borgara í bænum. Sjá meðal annars hér.

 

 

Ritstjórn júlí 14, 2022 07:00