Ganga 10 kílómetra á golfvellinum

Kylfingar flykkjast nú á golfvellina, en innan Golfsambands Íslands eru 65 golfvellir hringinn í kringum landið. Það eru um 16.500 manns í golfklúbbum hér á landi, en kannanir sýna að golfiðkun er mun meiri. Í könnun Capacent sem var gerð á síðasta ári kom fram að yfir 30 þúsund manns spila golf fimm sinnum á ári eða oftar. Hörður Þorsteinsson framkvæmdastjóri Golfsambandsins segir að mikil sprenging hafi orðið í golfiðkun á árunum 2000 til 2005, en síðan hafi heldur dregið úr. Engu að síður er golfiðkun mikil og þar eiga Íslendingar eins og svo oft áður heimsmet í fjölda golfiðkenda, miðað við höfðatölu. Ætla má að um 10% þjóðarinnar stundi golf í misjafnlega miklum mæli.

Skemmtilegur leikur

Sigurveig Jónsdóttir blaðamaður hefur stundað golf í um áratug. Hún segir golfið ákaflega skemmtilegt og forgjafakerfið geri að verkum að í raun geti allir keppt við alla. „Kerfið verður til þess að þeir sem á annað borð eru með virka forgjöf standa jafnfætis. Sá sem er með hæstu forgjöfina í hollinu getur þannig unnið þann sem er með þá lægstu. Það fer bara eftir því hvernig gengur hverju sinni.“ Hún segir að þáttaka í mótum sé góð og menn séu stöðugt að keppa við sjálfa sig og vilji bæta sig og lækka forgjöfina sína. „Aðalatriðið finnst mér samt vera að þetta er skemmtilegur leikur sem skapar hreyfingu og dregur mann út í alls konar veðri“

Golfferðir lengja golftímabilið

Golfvellirnir 65 sem eru innan Golfsambandsins eru ýmist 18 holu vellir eða 9 holu. Það tekur um fjórar klukkustundir að spila 18 holur og menn geta gengið allt uppí 10 kílómetra á meðan. Golfið snýst því líka um hreyfingu og útiveru, auk félagsskaparins. Golftímabilið hér á landi er 3-4 mánuðir á ári, en ferðaskrifstofurnar bjóða golfferðir á vorin og haustin og þannig getur fólk lengt golftímabilið. Algengt er að í golfferðunum geri fólk nánast ekkert annað en að spila golf. Skoðunar- eða verlsunarferðir eru ekki látnar taka mikinn tíma frá íþróttinni.

Golfið ekki dýrara en mörg önnur áhugamál

Mörgum þykir golfið dýrt og það kann að vera ástæðan fyrir því að einungis um helmingur þeirra sem talið er að spili golf, er í golfklúbbum.   Venjulegt félagsgjald í Golfklúbbi Reykjavíkur er rúmar 99 þúsund krónur á mann.   En 70 ára og eldri greiða lægra gjald og einnig unglingar. Þá eru einhverjir klúbbar með sérstakan hjónaafslátt. Hörður er ekki sammála því að það sé dýrt að stunda golf og bendir á að árgjaldið í golfklúbbunum sé mismunandi og sums staðar svipað og árskort í líkamsrækt. Þá sé kostnaður við golfið mun lægri hér en í ýmsum nágrannalöndum.

 

 

Ritstjórn júní 24, 2014 16:39