Í Viðey vaxa kröftugar jurtir og sunnudaginn 10. júní kl. 13:15 gefst tækifæri til að kynnast lækningarmætti þeirra undir handleiðslu Önnu Rósu grasalæknis. Anna Rósa mun leiða göngu um Viðey, kynna algengar lækningajurtir sem vaxa á svæðinu og fræða þátttakendur um áhrifamátt þeirra, tínslu og þurrkun. Gestum er frjálst að tína jurtir í samráði við grasalækninn.
Anna Rósa er menntuð sem grasalæknir í Englandi og hefur starfað við ráðgjöf á eigin stofu í yfir 20 ár ásamt því að framleiða vinsælar vörur úr íslenskum jurtum sem hún tínir sjálf.
Gangan tekur um 1 ½ klukkustund og eru gestir sem vilja taka sýnishorn af jurtum hvattir til að taka með taupoka, skæri eða lítinn hníf.
Siglt er samkvæmt áætlun frá Skarfabakka kl. 13:15 en þeir sem vilja fá sér hádegisverð í Viðeyjarstofu fyrir gönguna geta siglt kl. 12:15. Þátttaka í göngunni er gestum að kostnaðarlausu en gestir greiða í ferjuna.
Gjald í ferjuna fram og til baka er 1.550 kr. fyrir fullorðna, 1.400 kr. fyrir eldri borgara og nemendur og 775 kr. fyrir börn 7 – 17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt.