Gengið um götur minninganna

Þegar taka höndum saman einn okkar allra bestu penna og einn færustu ljósmyndara er ekki von á öðru en að útkoman verði frábær og sú er raunin. Spegill þjóðar í samstarfi þeirra Gunnars V. Andréssonar og Sigmundar Ernis Rúnarssonar er einstök perla. Þarna er að finna stórkostlegar fréttaljósmyndir, sumar átakanlegar, aðrar gleðilegar, sumar varða stóratburði en aðrar endurspegla hversdagslíf liðinna daga. Texti Sigmundar er lipur og knappur en kemur vel til skila andanum í myndinni og skýra þann viðburð sem þær lýsa.

Fyrir okkur sem komin erum á virðulegan aldur er þetta eins og ganga eftir götum minninganna því svo ótal margt er manni enn í fersku minni og annað rifjar upp atburði úr eigin ævi. Bókin er líka einstaklega vel hönnuð og fallega úr garði gerð og tilvalið að leyfa henni að liggja á sófaborði fyrir gesti og gangandi að skoða. Þar með er komin uppspretta skemmtilegra umræðna og bók eins og þessi ætti heima í öllum góðum jólaboðum.

Eitt af því sem er athyglisvert er hvernig þarna sést vel hvernig viðhorf manna til fréttaljósmyndunar hafa breyst. Gunnar talar einnig um það við Sigmund Erni að áður fyrr hafi þótt sjálfsagt að blaðamenn og ljósmyndarar færu á vettvang stórslysa eða náttúruhamfara og ynnu sína vinnu. Það var viðurkenndur réttur almennings að fá af þessu fregnir en einnig talið nauðsynlegt að skrásetja og varðveita slíka atburði fyrir komandi kynslóðir og söguna. Nú er hneykslast á því ef birtar eru ljósmyndir af slysstað og blaðmönnum og ljósmyndurum meinaður aðgangur að stórviðburðum.

Margar mynda Gunnars þekkir maður aftur en þegar þær eru svona margar samankomnar áttar maður sig á hversu einstakt og yfirgripsmikið ævistarf hans er enda hefur hann verið að í hálfa öld. Það er sannarlega vel að verki staðið. Það er eiginlega ekki hægt að hrósa þessari bók nægilega svo áhugaverð, falleg, skemmtileg og athyglisverð er hún. Þeir félagar Gunnar og Sigmundur eiga þakkir skildar fyrir að safna þessu einstaka efni saman og koma því til lesanda.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.