Greta Önundardóttir, fyrrverandi flugfreyja og kennari, og Páll Halldórsson, fyrrverandi yfirflugstjóri Landhelgisgæslunnar, eru nú að upplifa starfslok og tóku meðvitaða ákvörðun um að gera sitt til að vera virk eins lengi og heilsan leyfði. Páll hætti að vinna á þessu ári, 75 ára gamall, en Greta fyrir sex árum en hún verður sjötug á næsta ári. Eftir að Páll hætti að fljúga starfaði hann hjá Flugmálastjórn og síðan Samgöngusofu en Greta vildi hætta að vinna fyrr en hún þurfti til þess að eiga góð ár á meðan hún væri enn líkamlega hress.
Þau ákváðu t.d. að fá sér alls ekki “lazyboystóla” fyrr en þau neyðast til og eru sér mjög vel meðvituð um að sá tími gæti komið fyrr en varir. Ef þau þurfa að gera breytingar á húsnæði sínu miðast þær við að þær séu vel fallnar til að nýtast þeim þegar þau eldast enn frekar af því þarna ætla þau að vera áfram eins lengi og þau geta, bæði á Selfossi og á Brautarenda sem er nafnið á sumarbústað þeirra hjóna á Haukadalsmel.
Páll og Greta hafa verið heppin og verið heilsuhraust enda er það fosenda þess að geta upplifað þennan seinni hluta ævinar á jákvæðan hátt. Þau gera því það sem þau telja vera gott fyrir heilsuna, fengu sér til dæmis nýverið labradorhundinn Vin, gagngert til að þurfa að hreyfa sig enn meira því hundurinn þarf sína daglegu hreyfingu hvað sem tautar og raular.
Þau Páll og Greta tóku saman fyrir 20 árum og Greta segist hafa verið svo heppin að fá þrjú börn Páls með í pakkanum því hún eigi ekki börn sjálf. Nú eru því komin 6 barnabörn og tvö á leiðinni og hún njóti þeirra allra ríkulega, bæði heima og í sveitinni.
Voru í stóru raðhúsi á tveimur hæðum
Greta og Páll voru í stóru raðhúsi á tveimur hæðum í Kópavogi og voru búin að finna út að húsið var orðið of stórt og fannst auk þess orðið leiðinlegt að vera á tveimur hæðum. Til að losa skuldir hefðu þau getað selt húsið en þurft að kaupa íbúð á stöðum í borginni sem þau höfu ekki áhuga á að búa og sættu sig ekki við það. “Svo hryllti mér við hugmyndinni sem mér finnst allt of margir hafa eftir starfslok sem er að setjast fyrir framan sjónvarpið og bíða eftir einhverju,” segir Greta. “Palli átti hugmyndina að kíkja á húsnæði á Selfossi sem mér fannst mjög skrýtið til að byrja með því við þekktum engan í þessu bæjarfélagi. Hér þurftum við að komast inn í alveg nýtt samfélag en eftir að við fundum þetta fallega hús var valið auðvelt. Svo reynist hér vera sérlega gott samfélag og við njótum þess að vera hér.”
Páll og Greta ákváðu því að takast á við alveg nýtt líf og ekki var verra að frá Selfossi var helmingi styttra upp í sumarbústaðinn þeirra en úr bænum og þar dvelja þau löngun stundum. “Þar fyrir utan var húsnæðisverð á Selfossi mun lægra en í Reykjavík svo að við áttum nokkurn mismun sem kemur sér sannarlega vel,” segja þau alsæl með ákvörðun sína.
Samfélag flugmanna á Haukadalsmel
Gréta og Páll eiga sumarbústað þar sem er samfélag flugmanna enda er flug áhugamál þeirra beggja. Þau keyptu landið 2007 en byggðu á Haukadalsmel 2013 en þar hefur fjöldi flugmanna komið sér fyrir og þar er flugvöllur, flugskýli og félagsheimili þar sem fólk hittist, frekar en að bústaðirnir séu notaðir í veisluhöld. Þarna eru Hekluskógar en landið undir bústöðunum var bert og gróðursnautt til að byrja með. En áhugamál allra, fyrir utan flug, er að góðursetja tré í örfoka landið og Greta og Páll hafa sett niður u.þ.b. þrettán þúsund plöntur enda orðið gróðursælt í kringum bústaðinn og flugvöllinn í kringum bústaðinnGreiður u.þ.b. þrett. Þau segja að sérlega gaman sé að fyggjast með breytingunni sem hefur orðið um allt land, sem er afrakstur vinnu Landgræðslunar og ekki síður sumarbústaðaeigenda alls staðar sem hver og einn leggur sitt til. Páli finnst svo gaman að sjá breytinguna á landinu okkar því hann hefur teki þátt í því að rækta það upp í 60 ár, en hann vann lengi á flugvélum Landgræðslunnar og er enn að.
Forgangsröðunin mikilvæg
Greta og Páll eru að hefja lokakaflann í lífinu og loka augunum ekki fyrir því. “Við ætlum ekki að missa af þessum kafla sem getur verið svo skemmtilegur. Við getum auðvitað ekki gert allt sem hugurinn stendur til og veljum frekar að smíða og mála en fara í leikhús eða bíó. Það kemur svo bara seinna,” segja þau. “Ég ætlaði aldrei að eignast sumarbústað. Ég þekkti svo marga sem upplifðu sumarbústaðalífið sem kvöð því það var bara vinna sem þeir höfðu ekki gaman af. En þegar þetta land kom til og félagsskapurinn svona skemmtilegur fannst mér hugmyndin tilvalin.
Byrjuðu að byggja sumarbústaðinn 2012
Þau Greta og Páll segjast hafa sloppið fyrir horn því 2007 áttu þau flugvél sem Páll hafði smíðað sjálfur og létu teikna sumarbústaðinn, þannig að húsið átti að vera á tveimur hæðum og flugskýli ofan á. Húsið átti að vera grafið niður því þannig fengju þau skjól fyrir norðanáttinni og ekki væri hætta á að flugvélin fyki en hún var mjög létt. “Hugmyndin var mjög góð en Byggingafulltrúi virðist hafa staðið í þeirri meiningu að við ætluðum að hafa 747 þotu þarna inni og veitti okkur aldrei leyfið. Þeir drógu okkur svo lengi á þessu að þegar Geir sagði “Guð blessi Ísland” vorum við sem betur fer ekki byrjuð og gátum skipulagt bústaðinn öðruvísi og úr varð mun hagkvæmara hús. Nú höfum við aðgang að sameiginlegu flugskýli hópsins og erum búin að selja flugvélina en kaupa hlut í annarri.
Hanna og smíða allt sjálf
Nú hafa þau tíma til að gera það sem þau langar og eitt af því er að smíða útihúsgögnin í bústaðnum. “Við hefðum ekki getað keypt húsgögn úr Rúmfatalagernum því veðrið þarna er þannig að við þyrftum alltaf að taka þau inn og bera út í hvert sinn. Við nenntum því ekki heldur ákváðum að smíða þessi níðþungu húsgögn sem mega standa úti allt árið og hreyfast ekki.”
Páll og Greta ákváðu að byggja bústaðinn eins ódýrt og þau gátu að innan til að geta haft klæðninguna að utan betri en eftir að hafa skoðað valkosti ákváðu þau að nota greni og lituðu það í sítrusviðarlit en sítrusviðurinn kostar hvítuna úr augunum og þau eru hæstánægð með útkomuna. Þau handsmíðuðu húsgögnin og það verður að segjast að þau eru mjög vel heppnuð. Páll segir að Greta sé hönnuðurinn en hann smiðurinn og þau eru alveg sammála um að þau vilji alls ekki að hægt sé að rekja hönnun í bústaðnum til annnarra en þeirra sjálfra. Enda vilja þau verja tíma sínum í að búa hlutina til sjálf í stað þess að þeytast á milli verslana til að finna hönnun eftir einhverja aðra. Þau smíða líka hluti í húsið heima á Selfossi eins og blómakerin sem sjá má á veröndinni hjá þeim. Þau eru smíðuð úr sama efni og útihúsgögnin í bústaðnum.