Gerðu upp gamlan bústað og breyttu í sælureit

Í Grímsnesinu, við Vaðlalækjarveg lúrir sérstaklega fallegur og sjarmerandi sumarbústaður sem hjónin Orri Blöndal og Arnbjörg Högnadóttir keyptu og hafa gert upp og lagt mikla vinnu og natni í að gera að sannkölluðum griðastað. Bústaðurinn nýtur sín í fallegu umhverfi og ber vitni um útsjónarsemi hjónanna og listrænt auga.

Kostaði blóð, svita og næstum því tár

Aðspurð um hvað hafi orðið til þess að þau hjón fóru af stað og keyptu þennan bústað, segir Arnbjörg, eða Adda eins og hún er alltaf kölluð, að þau hafi rekist á auglýsingu fyrir fjórum árum þegar þau voru á Tenerife. „En það hafði alltaf truflað okkur eitthver hugsun um bústað. Við fórum svo tveimur kvöldum eftir að við komum heim að skoða bústaðinn en komum að lokuðu hliði við veginn þar sem bústaðurinn einn er, þannig að ég gekk síðasta spölinn. Ég féll strax fyrir staðsetningunni og umhverfinu. En Orri maðurinn minn sem er húsasmíðameistari sagði að ef bústaðurinn væri fúinn myndum það ekki borga sig að kaupa hann,“ segir Adda. „Þegar við skoðuðum bústaðinn sá ég strax möguleikana og eftir nánari úttekt reyndist einn gluggi vera fúinn. Við keyptum bústaðinn og sjáum ekki eftir því.“

Margt hefur gerst á þessum tíma og hafa hjónin verið óþreytandi við að bæta, breyta og gera bústaðinn að því sem hann er í dag. „Það var hvorki hiti né rafmagn og ég var svolítið nísk þegar kom að því að fella trén en auðvitað varð að gera það því það þurfti að grafa hér allt í sundur til að fá hita og leggja rafmagn. Það var langur tími þar sem við gátum ekkert gert og ískalt hér og þar til allt var komið. Og ég var óþolinmóð við að bíða,“ segir Adda og hlær létt. „Við helltum okkur svo í þetta, fórum eftir vinnu á kvöldin og allar helgar og unnum eins og brjálæðingar. Það þurfti að einangra bústaðinn og rífa úr honum t.d. eldhúsinnréttingu og fleira. Þetta kostaði blóð, svita og næstum því tár. En því meiri er ánægjan, uppskeran er mikið,“ segir Adda. Þetta var mikil vinna en ávinningurinn er sömuleiðis mikill. Það er svo mikil paradís að eiga svona griðastað.“

Hjónin einangruðu bústaðinn, rifu út t.d. eldhúsinnréttingu og allt inni á baði, bæsuðu allt gólfefni sem var málað í grænum lit. „Okkur grunaði að það væri fallegt gólfefni undir þesari grænu. Við fengum efni sem leysti upp málninguna og það var eitthvert eiturefni sem var svo sterkt að við þurftum að fara reglulega út til að anda að okkur fersku lofti og við hálfkúguðumst. En við skófum málninguna af og það reyndist vera rétt, það voru mjög falleg gólfborð undir. Við bæsuðum það síðan, ég vildi ekki slípa það alveg upp til að fá það slétt – ég vildi halda því svona, svolítið ójöfnu og í gamla stílnum.“

Staðsetning bústaðarins er afar falleg með fallegum trjám allt í kring en þó þannig að hann nýtur sín og og einnig falleg grasflötin, en þetta gefur líka tækifæri á að sjá betur yfir frá bústaðnum og einnig til hans frá fallegri heimreiðinni. Þegar komið er inn í bústaðinn eru tvö herbergi hvort á sína hönd. Gestaherbergi með kojum og svo annað sem sonur þeirra, Sveinbjörn hefur. Þar inn af er baðherbergið og inn af ganginum er síðan alrými, stofa og eldhús og úr stofunni er gengið út í garð.

„Baðherbergið, var með klósetti og handlaug og geymslu inn af. Við rifum geymsluna og settum sturtuklefa og mig langaði til að setja þessar grófu frekar litlu flísar, sem er reyndar ekki mælt með í timburhús því það er allt á hreyfingu. Það hefur ekkert gerst enn, þær hafa alveg haldist. Ég hafði mikið fyrir að finna flísarnar, leitaði lengi en fann svo þessar í Álfaborg, en mér fannst ég alltaf vera að skoða sömu flísarnar í búðunum. Ég lagði líka upp úr því að hafa þetta öðruvísi en heima. Við pöntuðum kranann og Orri smíðaði borðið undir vaskinn,“ segir Adda. Úr alrýminu er stigi upp á svefnloft þar sem hjónasvítan er og falleg hurð með frönskum gluggum í alrýminu þar sem gengið er út í garð en dyrnar gefa bústaðnum fallegan svip þegar komið er að honum. „Við söguðum út fyrir þessari hurð en þetta var nokkuð sem ég sá strax að ég myndi vilja gera, en þarna var mjór gluggi fyrir. Við bættum svo við glugga á hægri hlið alrýmisins, en mér finnst svo næs að geta horft út í gróðurinn,“ segir Adda um leið og hún dregur frá gardínuna til að sýna blaðamanni hvað hún á við. „Þetta er líka svo hlýlegt á veturna. Ég tími ekki að setja gardínur fyrir þennarn glugga því þarna sé ég út á pallinn og yfir landið, t.d. á Ingólfsfjall. Það er svo breytilegt það sem ég sé eftir árstíðum og veðri og ég tími ekki að byrgja það með gardínum þó að mér finnist fallegt að hafa þær annars staðar.“

Leyfi er til að stækka bústaðinn í gestaherberginu, en Adda segist ekki vilja hafa bústaðinn mikið stærri. „Ég læt húsið hér ráða för um stílinn og vil hafa allt öðruvísi en heima. Ekki að reyna að gera þetta nútímalegt, heldur leyfa húsinu að ráða. Við erum þó með gestahús sem er að verða tilbúið. Pallurinn er allan hringinn í kringum húsið og er opinn, ekkert grindverk enda vil ég geta horft yfir og í kringum mig þegar ég er t.d. í pottinum. Það er dásamlegt að sitja í pottinum og horfa yfir,“ segir Adda.

Endurnýta og kaupa gamalt í bústaðinn

Í bústaðnum eru gömul falleg húsgögn sem þau hafi átt, hafa fengið frá foreldrum eða keypt á nýtjamörkuðum eins og Góða hirðinum. Amerísk stór kommóða er frá móður Öddu er í borðstofurýminu og matborðið sem er stækkanlegt, kemur frá afa Orra. „Við pússuðum það og bæsuðum.“ Kamínan í alrýminu er ótengd en Adda segir að þau hafi hætt við að tengja hana einn daginn þegar þau voru á leið í bústaðinn þegar þau heyrðu í fréttum að kviknað hefði í bústað á Þingvöllum út frá kamínu. „En ég set fullt af kertum í hana og þau gefa hita og svo er það líka mjög fallegt. Við Sveinbjörn búum líka til kerti og setjum í hana. Við erum með lítinn rafmagnsofn sem gefur góðan hita á veturna. En við einangruðum húsið þegar við keyptum það.“

Aðspurð segir hún að það hafi svolítið verið stefnan að nýta gamalt. „Margt áttum við sjálf eins og kommóðuna og sófann en Orri smíðaði sjónvarpsskenkinn úr vörubrettum, hann er opinn og bæsaður, mig langaði að hafa opinn skenk þar sem ég gæti sett smáhluti.“

Í eldhúsinu eru ný tæki, eldavél og hilla, fallegir efri skápar undir glervarning og svo alls konar smáhlutir, gömul falleg vigt, bretti undir osta og ávexti og fleira sem nýtur sín.

„Ég er mikið fyrir gamalt dót og forðast trend. Ég er með silfurhnífapör úr Góða hirðinum, öll úr sitthvorri áttinni, lampafót o.fl. þaðan og svo er ég mjög hrifin af Söstrene Grene, þar eru hlutirnir á góðu verði en ég hef mjög gaman af því að skipta hlutum út. Ég elska þá búð og hef fundið svo margt fallegt þar,“ segir Adda sem hefur augljóslega mjög næmt auga enda kemur í ljós að hún málar mikið myndir í bústaðnum. „Það voru líka alls konar flottir hlutir í bústaðnum þegar við keyptum hann, en upphaflega voru það systkini sem áttu hann, það voru húsreglur í honum frá þeim tíma og náttúrlega olíulampar enda ekkert rafmagn í bústaðnum. Svo var hann í eigu hjóna frá 2006 sem við svo keyptum hann af seinna.“

Heitur pottur og matborð eru á suðurpalli við bústaðinn en borðið og stólarnir eru frá vinafólki sem ætluðu að henda þeim en Adda og Orri máluðu borðið og stólana. Þarna er líka potturinn sem er mikið notaður. Pallasvæðið og allt umhverfið er mjög fallegt. „Ég á mér draum um að gera tröppur niður í laut hér fyrir utan, jafnvel úr vörubrettum, og hafa þar stað fyrir morgunkaffið,“ segir Adda og brosir.

„Maður vill láta sér líða vel en ekki hafa lúxusinn sem er heima. Ég vil til dæmis hafa pott hér en ekki heima, því þá hlakka ég til að fara í pottinn hér.“

Ragnheiður Linnet blaðamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn júní 21, 2024 07:00