Unaðsreitur við Þingvallavatn

Finnur og Anna með bókina sem kjúklingauppskriftin með úrbeinaða kjúklingnum fannst í. Klukkutíminn sem fór í útbeininuguna borgaði sig að sögn þessara flínku lífskúnstnera.

Finnur Björgvinsson og Anna Alfreðsdóttir eru nýhætt að vinna og eru nú að upplifa fyrsta sumarið eftir starfslok. Finnur er arkitekt og Anna starfaði við ferðamál alla tíð. Finnur er alinn upp við sumarbústaðalíf við Elliðavatn þar sem foreldrar hans áttu bústað en foreldrar Önnu keyptu bústað við Þingvallavatn eftir að hún flutti að heiman. Hún segist þess vegna ekki hafa verið eins ofboðsleg sumarbústaðamanneskja og Finnur sem myndi helst vilja flytja í sveitina ef hann fengi að ráða. “Ég vil fá að fara í bæinn af og til þótt mér finnist sumarbústaðalífið dásamlegt,” segir Anna. “Barnabörnin njóta þess að vera með okkur hér og nú eru aðstæðurnar þannig að við getum verið með heitan pott allt árið og létum útbúa grasflöt þar sem þau eru í fótbolta, á trampolíni og í alls konar leikjum. Hér eru engar hættur og mjög afslappað að vera með þau.”

Finnur dvaldi sumarlangt alla barnæskuna í sumarbústaðnum við Elliðavatn en hann er yngstur í systkinahópnum og var iðulega einn með móður sinni í bústaðnum frá vori til hausts. Faðir hans sótti vinnu í bæinn en kom til baka á kvöldin. “Þá þótti Elliðavatn vera langt frá borginni en  nú er ekki fjarri lagi að segja að Þingvallavatn sé í álíka fjarlægð frá borginni og manni fannst Elliðavatn vera í þá daga,” segir Finnur. “Sumrin í sumarbústaðnum með foreldrum mínum er ástæðan fyrir því að ég sæki svo mikið hingað,” segir Finnur sem nýtur sumarbústaðalífsins í ríkum mæli við smíðar og að rækta landið og nú með barnabörnin.

30 ára saga

Anna og Finnur hafa átt þennan sumarbústað við Þingvallavatn í 30 ár. Bústaður foreldra Önnu er ekki langt frá og þar var stórfjölskyldan gjarnan með foreldrum hennar. Þegar frá liðu stundir læddist að Önnu og Finni hugmyndin að finna land svo þau gætu búið sér til sína eigin paradís. Á þeim tíma var ekki hlaupið að því að fá land við Þingvallavatn frekar en nú. Þau voru því búin að leita fyrir sér víðar, eins og við Skorradalsvatn, en sökum áralangrar vináttu fjölskyldunnar við bóndann á bænum við Þingvallavatn endaði með því að Anna og Finnur fengu þessa lóð sem bústaðurinn stendur nú á og hafa útbúið þar unaðsreit sem gerir starfslokin mun skemmtilegri en annars. Finnur teiknaði bústaðinn sjálfur og hannaði hann þannig að plássið var vel nýtt. Það var svo ekki fyrr en fyrir nokkrum árum að þau byggðu við einingu með sér svefnherbergi fyrir þau og baðherbergi. Fram að því voru þrjú svefnherbergi og allir höfðu nóg pláss og oft voru miklar veislur haldnar.

Íslenski lággróðurinn ómetanlegur

Anna og Finnur segja að til að byrja með hafi landið verið þakið mjög hefðbundnum íslenskum lággróðri, fyrst og fremst víði sem hafi verið mjög lengi að koma til. “Svo var hér bara mosi og lyng sem er geysilega fallegt en fyrir bragðið vorum við alveg óvarin fyrir vindi og öðrum sumarbústöðum sem höfðu okkur í sjónlínu. Og þá var farið í gang með gróðurrækt.” Sonur þeirra er garðyrkjumaður og hann hjálpaði þeim við að velja trjátegundir sem  færu vel í landinu. Það tók þau 20 ár að koma gróðri vel til og nú eru þau í mjög góðu skjóli. Til að byrja með gróðursettu þau fljótsprottnar tegundir eins og aspir til að búa til skjól en nú eru þau farin að grisja því svo há tré skyggja á útsýnið sem er þvílíkt  listaverk hvert sem litið er við Þingvallavatn.

Matargerðin sameiginlegt áhugamál

Anna og Finnur segja ómetanlegt að hafa þetta sameiginlega áhugamál sem sumarbústaðurinn er því fyrir utan að rækta landið og dytta að bústaðnum sé matargerð eitt af því sem sé enn skemmtilegra að stunda í sumarbústað en heima í borginni. “Hér er mikið félagslíf í kringum matargerð því við eigum stóran vinahóp sem deilir því áhugamáli með okkur og nýtur þess að elda góðan mat og hittast reglulega,” segir Anna. Finnur bætir við að hann hafi úrbeinað kjúkling daginn áður og sýnir geysilega fallega mynd af girnilegum kjúklingi í matreiðslubók. “Ég var klukkutíma að úrbeina kjúklínginn og það var þess virði því úr varð rosalega góð máltíð.” Þau eru nú að gera tilraunir í matreiðslunni og þau sýna áhugasömum blaðamanni myndir af því sem þau ætla sér að prófa áður en boðið er til næstu veislu og væntanlegir gestir þeirra geta sannarlega látið sig hlakka til.

Börnin fá að ráða einni máltíð í hverri ferð

Anna og Finnur hafa fyrir sið að elda alltaf eina stóra máltíð sem krakkarnir fá að velja. Stundum er eldaður fiskur sem þau sækja í vatnið því þau  eru með bát en síðast óskuðu börnin sér nautakjöts með bernaise sósu og þá elduðu amma og afi það auðvitað fyrir þau. Rólegheitin í sveitinni eiga vel við ungviðið.

 

 

 

 

Ritstjórn júní 15, 2017 12:40