Tengdar greinar

Getur höfnun orðið til blessunar?

Að vera hafnað á árunum eftir miðjan aldur er ömurlegt. Það verður að viðurkenna það. Um leið og við reynum að halda lífinu áfram eftir skilnað, geta meira að segja öflugustu konurnar á meðal okkar, ekki varist þeirri hugsun að þær hafi gert eitthvað rangt. Það er tilfinnigin sem hellist yfir okkur þegar maðurinn sem við elskuðum og áttum að maka, vill allt í einu ekki vera með okkur lengur. Það vakna spurningar eins og Hvers vegna elskar hann mig ekki lengur? Hvað gerði ég rangt? Hvað er athugavert við mig? Hvað hefði ég átt að gera öðruvísi?

Mér finnst sorglegt þegar svona margar sterkar, fallegar og ótrúlegar konur á sextugsaldri, berjast við að ná sér eftir höfnun.

Þessar „hvað ef, hefði átt, myndi hafa, gæti hafa“ hugsanir sem taka hugsanir okka í gíslingu, læðast aftan að okkur þegar við erum að reyna að endurheimta sjálfstraustið og sjálfsvirðinguna.

Oft finnst okkur að það sé okkur að kenna að áratuga sambandi lauk með skilnaði. Þessi sjálfsásökun veldur því að við upplifum höfnun og að okkur finnst við ekki eiga skilið ást og virðingu, þegar við hefjum einar þennan nýja kafla í lífinu.

Það er kominn tími til að líta höfnun öðrum augum. Það mun efla okkur. Við þurfum að hætta að líta á höfnun sem leiðinda tilfinningu sem heldur okkur niðri, fær okkur til að efast um okkur sjálfar og rænir okkur sjálfsvirðingunni.

Næst, þegar þú kemst í uppnám vegna höfnunar sem þú varðst nýlega fyrir, hvort sem það er skilnaður eftir langt hjónaband, eða vegna þess að karlmaður sem þú varst hrifin af hættir að svara símtölum frá þér, eða  að þú fékkst ekki starfið sem þú sóttir um, mundu þá eftirfarandi.  Höfnun á sextugsaldri getur verið blessun í dulargervi.

Höfnun er eins og spéspegill

Höfnun endurspeglar ekki sjálfa þig, eða sjálfsvirðingu þína. Hún er bjöguð mynd, eins og þú sérð ef þú lítur í spéspegil, en slíka spegla má finna til að mynda í tívolí. Hvað sérðu í þannig spegli? Brosandi mynd af sjálfri þér? Mynd sem sýnir hvað þú ert skynsöm og sterk?

Nei, þú sérð bjagaða mynd af þér, með furðulega ílangt höfuð og stutta fætur og ef þú lítur í annan sérðu stutta og digra manneskju. kkÞú lítur út fyrir að vera skrítin. Þetta ert ekki þú og er ekki spegilmynd þín. Þú veist það, þannig að þú hlærð bara og heldur áfram að skemmta þér.

Höfnun er svipuð. Sú staðreynd að sá sem þú varst með vill ekki vera með þér lengur, hefur ekkert með þig að gera. Hún snýst algerlega um það uppnám sem sá sem hafnaði þér hefur valdið.

Höfnunin er eins og þessi fáránlegi spéspegill. Viðbrögð þín við höfnuninni, þessi sem snúast um hvað þú gerðir rangt, eða hvers vegna hann elskar þig ekki lengur, eru ekkert öðruvísi en skrítna höfuðið og stuttu fótleggirnir sem þú sást í spéspeglinum. Þetta ert ekki þú og þetta er ekki spegilmynd af þér. Í stað þess að standa fyrir framan spegilinn og hafa áhyggjur af því hvernig hann sýnir þig, færðu þig frá honum því myndin hefur ekkert með þig að gera.

Í stað þess að dvelja í fangelsi höfunarinnar, með þá hugmynd í kollinum að hún skilgreini hver þú ert, færir þú þig frá ástandinu og hugar að því hvað það er sem lætur þér líða vel, því sem þú  ánægð með í lífinu og öllu sem þú hefur áorkað.

Um leið og þú gerir þetta þarftu að skilja nokkuð sem er mjög mikilvægt. Það er leyndarmál um höfnun sem margir þekkja ekki og fáir hafa gert sér almennilega grein fyrir.

Höfnun er gjöf því þú getur sloppið

Þegar ég hugsa um þau tilvik þegar mér var hafnað, man ég að þegar það gerðist fannst mér það vera heimsendir. Núna hef ég hins vegar áttað mig á því að þetta var blessun í dulargervi.

Fyrir nokkrum mánuðum var mér sagt upp starfi vegna þess að stjórnendur í fyrirtækinu sögðu að það væri ekki lengur þörf fyrir mig. Þegar ég lít tilbaka, sé ég að þessi höfnun kom sér vel fyrir mig. Hún varð til þess að ég hætti hjá fyrirtæki sem kunni ekki að meta mig.

Þetta var mitt tækifæri til að leita að starfi sem gerði meira fyrir mig bæði faglega og andlega.  Ef mér hefði ekki verið hafnað, hvað ætli hefði gerst? Ætli ég væri ekki þarna ennþá hálf vansæl vegna þess að ég nyti ekki hæfileika minna.

Fyrir mörgum árum sagði kærastinn mér upp og ég man að mér leið eins og lífið væri búið. En höfnunin reyndist blessun í dulargervi, vegna þess að þegar ég losnaði úr þessu sambandi sá ég hversu óheilbrigt það hafði verið. Það var alls ekki í mína þágu að verja tímanum með strák sem verðskuldaði ekki ást mína.

Sú höfnun sem þú þarft að glíma við í lífinu, er í grunninn sú sama, þó ástæður hennar kunni að vera af ýmsum toga. Höfnun maka sem langar ekki að vera í sambandi við þig lengur. Höfnun þess sem svarar ekki símtölum frá þér. Og svo er það höfnun yfirmannsins sem kann ekki að meta þig og rekur þig úr starfi.

Öll þessi tilvik höfnunar bera að sama brunni og segja okkur það sama. Halló, þú átt betra skilið. Líttu á þetta sem tækifæri og verkefni sem þarf að vinna í. Leggðu vinnu í sjálfa þig, finndu út hvað lætur þér líða vel og byggðu upp eigið sjálfstæði. Á meðan þú endurheimtir líf þitt og leggur áherslu á að byggja þig upp. Hvað gæti verið betra á þessum aldri?

Þessi grein er af vefnum Sixtyandme.com og birtist hér í lauslegri þýðingu Lifðu núna.

 

Ritstjórn október 6, 2020 08:47