Jakob Jónsson vissi lítið um viskí þegar hann sá auglýst eftir starfsmanni í Royal Mile Whiskies á Bloomsbury Street í London. En hann var samt ráðinn og hóf að safna að sér fróðleik um efnið. Þó hann búi í London hefur hann undanfarin ár kennt á vískí námskeiðum Endurmenntunar Háskóla Íslands og fjallar þar um þetta lífsins vatn frá öllum hliðum. Núna eftir helgina hefst þriðja námskeiðið hans hjá Endurmenntun.
,,Ég er búinn að búa hér í meira en áratug og hef unnið við það að selja viskí og fræða fólk um þennan góða drykk allan þann tíma. Þegar ég var nýfluttur til London þá fór ég á British museum og labbaði fram hjá versluninni Royal Mile Whiskies á Bloomsbury Street. Það sá ég auglýsingu í glugganum um það væri verið að leita eftir starfsmanni og ég fór inn ekki með mikla þekkingu á viskíi en áhugsamur og fróðleiksfús. Ég hafði verið áhugamaður um viskí lengi en var enginn sérfræðingur þá og mig langaði að læra meira og að vinna við að selja og fræða fólk um viskí. Ég var ráðinn og allt frá árinu 2012 hef ég verið verslunarstjóri í versluninni.“
Hverjir drekka viskí?
,,Segja má að viskí hafi löngum þótt vera eldri- eða heldrimannadrykkur en tímarnir hafa breyst og drykkjusiðir með, svo nú er viskí farið að höfða í auknum mæli til fleiri en áður.
Enn er það þó svo að um 80% þeirra sem koma á námskeiðin mín eru karlar en ég sé að þetta er að breytast í betri átt og sífellt fleiri konur hafa orðið áhuga á þessum gullna lífsins drykk. Annars eru vinsældir viskís að aukast mjög mikið um allan heim svo segja má að Skotar brosi hringinn þessi misserin. Viskí er að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga núna eftir nokkur mögur ár og er nú farið að höfða til breiðari hóps af báðum kynjum og á öllum löglegum aldri.“
Hverju eiga gestir þínir von á á námskeiðinu?
,,Ég ætla að fræða fólk um allt sem við kemur viskí. Ég mun fjalla um sögu drykkjarins, hvernig hann varð til, mismun eftir tegundum og svæðum sem og muninn á blönduðu viskí og einmöltungum. Ég fjalla um viskítunnurnar og hvaða hlutverki þær gegna. Eins fjalla ég um hvernig viskíið breytist við þroskun og síðast en ekki síst verður dreypt á þessum lífsins drykk.
Þetta námskeið hentar öllum sem hafa áhuga á viskí hvort heldur það eru byrjendur eða þeir sem vita mikið. Gestir verða þó að vera orðnir 20 ára.“
Þetta er þriðja námskeiðið sem Jakob heldur hér á landi en hann heldur viskí námskeið einu sinni í mánuði í London.
Hvernig stóð á því að þú fluttir til London á sínum tíma?
,,Okkur hjónum langaði í smá ævintýri í líf okkar svo við seldum allt sem við áttum árið 2007 og fluttum til Ítalíu. Þar bjuggum við í eitt ár en konan mín, Eva Vestman, komst inn í virtan háskóla í grafískri hönnun hér í London og við fluttum hingað þess vegna. Við erum búin að vera hér síðan 2008 og líkar mjög vel. Ég vinn við áhugamálið mitt að selja og kynna viskí fyrir fólki svo ég get ekki verið á betri stað í lífinu. Það er ekki verra að fá tækifæri til að koma til Íslands og kenna Íslendingum það sem ég kann um viskí.“
Hefur smekkur þinn á viskí breyst með tímanum?
,,Já það má segja það. Í byrjun féll ég fyrir reyktu viskíi eins og fólki frá Norðurlöndum er tamt. Það er eitthvað við reykinn sem kitlar bragðlaukana og kannski minnir á kuldann, hretið, torfbæina og allt það. Kannski það að alast upp við reyktan mat, hangikjöt og slíkt, en með árunum hef ég verið að færa mig í mildari, ávaxtakenndari viskí. Flestir utan Norðurlandanna byrja á hinum endanum og byrja á því að drekka léttari og mildari tegundirnar fyrst og feta sig svo í átt að þessum þyngri, reyktari.“
Hvert er þitt uppáhalds viskí núna?
,,Það er ómögulegt að velja eitt því það fer eftir lundarfari, degi, árstíð og öllu saman. Viskí er nefnilega svo margslunginn drykkur að það er aldrei eitt rétt viskí. Smekkurinn breytist dag frá degi.“