Tengdar greinar

 Gísli Örn Lárusson athafnamaður

Gísli Örn Lárusson er einn af þeim sem breytti um lífsstíl eftir erfiða lífsreynslu. Sem ungur maður var hann  áberandi í íslensku athafnalífi en sneri sér seinna að fyrirtæki sem hann stofnaði, Omni Cure, og hefur aðsetur í London. Gísli hefur nú stundað yoga í þrjá áratugi en hann ákvað að leita inn á við eftir svörum þegar hann stóð frammi fyrir spurningum sem hann gat ekki svarað sjálfur, og fann þau þar.

Allra erfiðasta reynsla sem Gísli gekk í gegnum var þegar dóttir hans, tveggja ára, fékk mislinga og var ekki hugað líf í 19 daga. Sú saga endaði vel en seinna greindist Gísli með krabbamein en sagði því meini stríð á hendur með náttúrulyfinu Omni One sem hann þróaði úr ævafornum náttúruefnum með hjálp góðra manna og segist hafa læknað sjálfan sig af blöðruhálskrabbameini á undraverðum tíma.

Gísli Örn á rætur að rekja til Noregs en móðurafi hans var Othar Peter Jæger Ellingsen, norskur skipasmiður sem settist að á Íslandi og stofnaði fyrirtækið Ellingsen af miklum myndarskap og flestir Íslendingar þekkja.

Gísli hefur komið víða við í athafnalífinu en er þó þekktastur sem brautryðjandi í vátryggingarmálum á Íslandi. Upp úr tvítugu lærði hann á tryggingar og starfaði um tíma hjá Lloyd´s í London. Hann varð síðan deildarstjóri hjá Almennum tryggingum aðeins 23 ára gamall og stofnaði nokkru síðar Reykvískar tryggingar sjálfur sem varð til þess að verulega hrykkti í tryggingamarkaðnum á Íslandi.

Síðar kom fyrirtækið Skandia inn í Reykvískar tryggingar og að sögn Gísla var Skandia einn fyrsti erlendi fjárfestirinn sem lét til sín taka á Íslandi. Þá voru allir hluthafar Reykvískrar trygginga keyptir út nema hann. Gísli starfaði síðan fyrir Skandia á hinum Norðurlöndunum en hefur líka komið við flugrekstur og fiskeldi og starfað hjá alþjóðlegum fyrirtækjum í fjármálaráðgjöf.

Segja má að Gísli hafi flogið hátt þegar mest var en hann gegndi stjórnarformennsku í fjölmörgum fyrirtækjum á þeim tíma. Hann átti fína bíla og bjó í einu fallegasta húsi Reykjavíkur að Sóleyjargötu, þar sem nú er skrifstofa forseta Íslands.

“Ég fór í áfengismeðferð 1979, um sama leyti og dóttir mín veiktist, og breytti um lífsstíl,” segir Gísli en hann tók þátt í stofnun SÁÁ ásamt Björgólfi Guðmundssyni, Binna í Blómum og ávöxtum ásamt fleirum. Þeir stóðu síðan að því að byggja Vog um þetta leyti. Þarna hóf Gísli að stunda Yoga sem hann segir að sé dásamlegur lífssíll og að reynslan hafi kennt sér að öll burðumst við með bagga úr fortíðinni. “Öll fíkn er flóttaleið til þess að komast hjá því að takast á við fortíðina og gera hana upp,” segir hann ákveðinn.

Gísli er þekktur fyrir að ganga um í sterkum litum en það hefur ekki alltaf verið svo. “Þegar ég byrjaði að fara til Indlands var uppáhaldsliturinn minn blár en það átti eftir að breytast í appelsínugult og rautt. Ég hef alltaf verið hrifinn af sterkum litum og þessir tveir gefa mér orku.”

En það sem varð til þess að galopna augu Gísla og toga hann inn í nútíðina var þegar dóttir hans tveggja ára veiktist svo hastarlega af mislingum að engin lyf virkuðu. “Hún fékk lungnabólgu ofan í allt og að lokum þurfti að bíða eftir að hún kafnaði svo hægt væri að setja hana í öndunarvél.” Á undraverðan hátt bjargaðist barnið eftir nítján daga í dái og Gísli segir að svona reynsla breyti manni. Eftir þetta kraftaverk segist Gísli hafa farið að hugsa sinn gang. “Ég spurði sjálfan mig hvað ég væri að gera við líf mitt. Þarna hafði ég allt til alls en áttaði mig á að ég var ekki að lifa lífinu sem flaug fram hjá á ótrúlegum hraða svo ég ákvað að stokka líf mitt alveg upp.” Gísli segir að það hafi tekið hann tíma að brjóta upp mynstrin í lífinu en ákvað að taka einn dag í einu og lifa í honum. Hann fór að leita meira inn á við og um leið breyttist verðmætamat hans. Í dag lætur hann minningar úr fortíðinni eða framtíðardrauma ekki stjórna sér heldur segist hann reyna að vera heill í því sem hann tekur sér fyrir hendur og reynir að láta gott af sér leiða. Það gerir Gísli meðal annars með því að breiða út boðskapinn um OMNI Cure en fyrsta varan er OMNI ONE  þar sem Frankincense olían er uppistaðan. Gísli bendir á að það sé engin tilviljun að BBC News of the World hafi slegið fram þessari stóru spurning: Is Frankinsence the next cure for cancer?

Þegar Gísli hafði notað sjálfan sig sem tilraunadýr og fleiri höfðu prófað þetta náttúrulyf með góðum árangri, ákvað hann að hætta að auglýsa það eða markaðssetja á neinn hátt heldur fá til liðs sjálfstæða, óháða vísindamenn til að geta kynnt niðurstöður studdar vísindalegum rannsóknum.

Ritstjórn október 30, 2019 07:50