Valdi að duga en ekki drepast!

Ásta Björk Sveinsdóttir verður sextug á næsta afmælisdegi. Hún starfaði sem starfsmannastjóri hjá stórri verkfræðistofu í 31 ár og hafði oft þurft að segja starfsmönnum upp en lenti síðan í því sjálf að fá uppsagnarbréf á sitt borð. ,,Ég veit núna að klisjan um að einar dyr opnist þegar aðrar lokast á ekki við þegar fólk er í sjokki eftir uppsögn,“ segir Ásta. ,,Ég brást sjálf við þannig að við áfallið gat ég ekki tjáð mig og kom alls ekki auga á að þarna úti gætu staðið opnar einhverjar dyr fyrir mig.“ En annað kom á daginn.

Ásta lenti ekki bara í uppsögn það árið heldur líka í alvarlegu skíðaslysi þar sem annað hné hennar brotnaði illa. Í dag, þremur árum seinna, er hún orðin sinn eigin herra með blómlegan fyrirtækjarekstur svo það voru þarna sannarlega opnar dyr. Hún kom bara ekki auga á þær strax og leiðin að þeim var ekki greið. En Ásta er lánsöm að geta komið auga á ljósu punktana í tilverunni þrátt fyrir allt og þetta sama ár eignaðist hún sitt fyrsta barnabarn. ,,Það var sannarlega ljós í annars dimmu tímabili og nú á ég von á öðru barnabarni,“ segir hún og brosir. 

Fékk ekki einu sinni svar við starfsumsóknum 

Ásta Björk og Guðbjörg í ferð um Toskana í sumar.

Ásta lenti í sömu stöðu og margir, kannski sérstaklega konur á miðjum aldri, að hafa gefið alla sína krafta í starfið og þegar þarna var komið var liðið 31 ár. Hún segir uppsögnina hafa tekið fimm mínútur en auðvitað hafi allt aðrir yfirmenn verið í fyrirtækinu en réðu hana og höfðu trú á henni 30 árum áður. ,,Ég var ekki neinu standi til að gera neitt annað en að skrifa undir pappírana og þar með var þeim kafla í lífi mínu lokið,“ segir hún og er augljóslega sár.  

Þegar Ásta kom inn í fyrirtækið voru starfsmenn 18 og þegar hún hætti voru þeir 400. ,,Ég og fyrirtækið uxum og stækkuðum á einhvern hátt saman,“ segir Ásta. ,,Áfallið sem fylgdi uppsögninni var því gífurlegt. Það tók mig heilt ár að fá vinnu aftur eftir að hafa skilað inn um 60 umsóknum. Ég fékk svar við um 10% umsókna en öðrum var ekki einu sinni svarað. En svo kom að því að ég fékk vinnu en sú vinna hentaði mér ekki. Í sömu viku og ég sagði upp starfinu í þessu nýja starfi kom Fararsnið til mín og ég sá möguleikana sem í því fólust. Ég hitti þau frábæru hjón, Jón Karl og Ágústu, sem höfðu stofnað og rekið fyrirtækið með miklum sóma um árabil en vildu nú fara að hægja á.“

Sambýlismaðurinn taldi kjark í Ástu

Ásta segir að kjarkur sé eitt af nauðsynlegustu eiginleikum þeirra sem ráðast í að reka fyrirtæki. Til að

Valsvinkonur ferðast saman.

byrja með voru með henni tvær konur sem bökkuðu út þegar komið var að því að skrifa undir. ,,Þá leit út fyrir að þessi frábæra hugmynd rynni út í sandinn en þegar það blasti við reis sambýlismaðurinn minn, Jón Júlíus Elíasson, upp og sagðist myndi styðja mig í að kaupa fyrirtækið og það varð úr. Eftir miklar pælingar sá ég að betra væri að hafa manneskju með mér í vinnunni við fyrirtækið og best væri að hún væri menntuð í þessum fræðum. Þá varð úr að Guðbjörg Magnúsdóttir stökk til þegar ég bauð henni að koma með mér í þetta ævintýri en við erum báðar heillaðar af svokallaðri ,,Slow travel“ ferðamennsku. Guðbjörg er menntaður ferðamálafræðingur og hefur unnið við ferðamál í fjölda ára. Og af því að sælkeraferðirnar sem Fararsnið hafði boðið upp á voru margar á Ítalíu var ómetanlegt fyrir mig að fá hana til liðs þar sem hún er ítölskumælandi eftir að hafa búið þar í landi að hluta. Við erum mjög heppnar að hafa hvor aðra í þessu ævintýri,“ segir Ásta. 

Reynsla og þekking kom saman

Með æskuvinkonu sinni Lovísu Steinþórsdóttir í hjólaferð í fyrrasumar.

Ásta hafði séð um allar ferðir fyrirtækisins sem hún starfaði svo lengi  hjá, m.a. séð um árshátíðaferðir þar sem ferðuðust saman allt að 670 manns, starfsmenn og makar. Þannig að þegar kom að því að taka við litlu ferðaþjónustufyrirtæki var Ásta ekki óvön. 

Á yngri árum stundaði Ásta bæði handbolta og fótbolta og var iðulega liðsstjóri hjá HSÍ með unglingalandsliðinu og hefur verið í kvennanefnd landsliðsins. Hún hefur því öðlast mikla reynslu í ferðaskipulagningu sem kemur sér vel núna. ,,Í gegnum tíðina hef ég alltaf tekið að mér ferðaskipulagningu vinahópa minna og hefur þótt það mjög skemmtilegt,“ segir Ásta og allt er þetta að hjálpa henni núna.  

Ný hreyfiferð fyrir allan aldur 

Ásta segir að hún og Guðbjörg hafi velt upp nýjum hugmyndum að ferðum sem þær gætu boðið upp á og nú sé sú nýjasta komin á skrá  en það er hreyfiferð á Ítalíu. Þetta er hjóla- og gönguferð þar sem gengið er í Appennino fjallgarðinum og hjólað í Cinque Terre í framhaldi. Svo er boðið upp á kajaksiglingar svo þetta er ein allsherjar gleðiferð,“ segir Ásta og brosir.

Hjól og sigling 

Nú hafa þær Ásta og Guðbjörg bætt við hjóla- og siglingaferð í Króatíu en í sumar verða farnar fjórar slíkar ferðir þar sem siglt er um í

Allir skemmtu sér vel í hjólaferðinni.

lúxussnekkju á milli eyja og hjólað á eyjunum á rafmagnshjóli svo ferðin er á allra færi. Ásta segir að í þessar ferðir sæki mikið af fólki á miðjum aldri og upp úr því nú sé fólk orðið svo miklu hressara líkamlega langt fram eftir aldri. ,,Hver káeta er með sér herbergi og sturtu og gott pláss. Lagt er af stað á hverjum morgni í hjólaferð sem stendur yfir í 2-4 tíma og gjarnan er stoppað á ströndinni og synt í sjónum. Við erum líka búnar að setja upp ferð til Grikklands þar sem við munum bjóða upp á sælkeraferð í sveitum Nafplio og svo Aþenu og að lokum heimsækja eyjuna Hydra sem er sérstök fyrir það að þar eru engir bílar leyfðir. Í Grikklandsferðinni eru vínbændur og ólífuolíubændur heimsóttir og matarmenningu Grikkja gerð góð skil. 

Myndin sem varð óvænt innblástur fyrir Ástu. Myndin  er eftir Soffíu Sæmundsdóttur og ber nafnið Opnast leið. Hún reyndist verða upphafið að batanum. 

Síðan ætlum við að bjóða upp á aðventuferðir um næstu jól,“ segir Ásta og hlakkar til spennandi tíma framundan. Þegar allt kom til alls stóðu dyrnar galopnar fyrir Ástu, hún þurfti bara að koma auga á þær. 

 Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 16, 2024 07:00