Erna Indriðadóttir skrifar
Það var býsna stór ákvörðun hjá mér að kaupa heyrnartæki, en hafði að vísu staðið til lengi. Einhverra hluta vegna hafði ekki orðið af því að ég keypti mér það, þótt ég tapaði verulega heyrn fyrir 15 árum. Það var byrjað á því að mæla hjá mér heyrnina og ég fékk að heyra að þetta væri óvenjuleg heyrnarskerðing, því hæstu tónarnir færu yfirleitt fyrst hjá fólki, en hjá mér væri það öfugt. Ég hafði á sínum tíma farið til háls-nef og eyrnalæknis og fengið þann úrskurð að ég væri með það, sem samkvæmt íðorðabókinni héti snigilgluggahersli, sem stafaði af kölkun í eyranu. Mér hefur alltaf þótt það mikið sport að vera með snigilgluggahersli og sagði það hverjum sem heyra vildi.
Fyrir rúmu ári fór að renna upp fyrir mér það ljós að undan því yrði ekki vikist að fá sér heyrnartæki. Ég lagði leið mína í lítið fjölskyldufyrirtæki Heyrnartækni í Glæsibæ og fékk lánað heyrnartæki í eina viku. Þetta var fullkomnasta tækið sem til var hjá þeim og það virkaði sannarlega vel. Síðan byrjaði ég að safna fyrir tækinu og síðla vetrar átti ég orðið fyrir því, ekki því fullkomasta, en næsta tæki við, sem Björn Víðisson sagði mér að væri alveg nóg fyrir manneskju með heyrnarskerðingu eins og mína. Það var þó einn galli á gjöf Njarðar, Sjúkratryggingar Íslands sem veita styrki fyrir heyrnartækjum, 50 þúsund krónur á hvort eyra, tóku ekki þátt í mínum heyrnartækjakaupum. Það er vegna þess að ég heyri svo vel með hinu eyranu. Merkilegt. Ætli nokkrum dytti í hug að sá sem sæi bara hálfa sjón með öðru auga þyrfti ekki að nota gleraugu, vegna þess að hann sæi svo vel með hinu auganu.
En lífið með heyrnartækinu er harla gott. Ég finn töluverðan mun og heyri núna vel með báðum eyrum, sem ég gerði ekki áður. Þegar ég tek heyrnartækið úr eyranu á kvöldin, finn ég hvernig lokast fyrir ákveðin hljóð og að sama skapi bætast við hljóð um leið og ég set tækið í eyrað á morgnana. Það opnast fyrir mér nýr hljóðheimur. Þegar kveikt er á tækinu spilar það lítinn lagstúf. Til að byrja með hafði Björn tækið lágt stillt, en síðan hækkaði hann smám saman í því hljóðið uppí fullan styrk. Þetta er gert til að koma í veg fyrir að fólk sem hefur lengi heyrt illa, ærist ekki af hávaða við að fá heyrnartæki. Ég heyri ekkert brak og enga bresti í tækinu sem reynist mjög vel, bæði í fjölmenni og þegar ég sit á tveggja manna tali.
Eina vandamálið sem ég hef orðið vör við, ef vandamál skyldi kalla, er að ég gleymi að ég er með heyrnartæki. Aðrir verða ekkert varir við að ég sé með heyrnartæki og sjá það varla, þó ég sé að monta mig af því. Ég gleymi stundum að setja það í eyrað á morgnana og svo gleymi ég líka að ég er með það í eyranu. Fór til dæmis í sund og fékk næstum áfall þegar ég uppgötvaði að ég var með heyrnartækið í eyranu buslandi í lauginni og búin að fara í sturtu með það. Sem betur fer kom það ekki að sök, því tækið er vatnshelt. Það er verra þegar ég gleymi að setja það í eyrað að morgni, þá er ég komin út í bæ og uppgötva að ég heyri alls ekki nógu vel í fólkinu í kringum mig. En ég reyni að geyma tækið nálægt tannburstanum yfir nóttina, til að gleyma því ekki.
Það þarf líka að hugsa um tækið. Það þarf að skipta um batterí í því og hreinsa það. Tækið þarf einnig að sitja rétt í eyranu. Það þarf að slökkva á því á kvöldin, svo batteríið eyðist ekki yfir nóttina. Og auðvitað muna að setja það í eyrað á morgnana. Það er hægt að tengja tækið við síma, sem er auðvitað þægilegt, en í mínu tilviki var ég ekki með rétta tegund af síma. Ég þarf að hafa Iphone, en var nýbúin að ákveða að skipta yfir í Samsung, þannig að það bíður að ég fái símann í heyrnartækið. Það er líka hægt að tengja heyrnartækið við sjónvarp og fleiri tæki. Ég þarf tíma til að venjast þeirri hugsun. En það tekst örugglega ef ég hef áhuga á því.