Skiptir aldurinn virkilega máli?

„Þú hefur fallið fyrir 20 árum yngri konu og hún fyrir þér“, segir í grein á systurvef Lifðu núna aarp.org, sem kemur hér í lauslegri þýðingu.

Vinir þínir segja að þú sért uppi í skýjunum – geta þeir ekki séð að þú ert ástfanginn? Þeir efast um ásetning ungu konunnar, telja jafnvel að hún sé eingöngu á höttunum eftir peningunum þínum, eða að þetta snúist eingöngu um kynlíf. Þeir vara þig við því, að sé þetta ekki stundarhrifning, þá eigir þú eftir að enda einmana og fátækur, nema hvorutveggja sé.

Sýnir þetta ekki bara hversu mikinn stuðning þú færð? En svo allrar sanngirni sé gætt, þá gætu vinir þínir haft sitthvað til síns máls. Það er örvandi að vera með einhverjum sem er öðruvísi og það fylgir því ákveðið stolt að yngri kona skuli laðast að þér. En eins og þú veist, snýst nýja sambandið ekki eingöngu um það. Þannig að þú getur leitt þessar athugasemdir hjá þér.

Mörg pör hafa yfirstigið þessar aldurshindranir og eru hamingjusamlega gift, eða hafa verið í góðu sambandi áratugum saman. Eitt þekktasta dæmið er Michael Douglas sem er 68 ára og Catherine Zeta-Jones 43 ára, sem hafa lengi staðið saman og stutt hvort annað í alvarlegum veikindum. Annað dæmi er gítarleikarinn úr Rolling Stones, Ronnie Wood, sem er 65 ára. Hann kvæntist leikhúsframleiðandanum Sally Humphreys sem var 34 ára, fyrir tæpum þremur árum.

Menn ræða ekki jafn mikið um það þegar konan er miklu eldri en karlinn. Getur verið að karlar hafi meiri áhuga á ungum og fallegum maka, en konur? Kannski er það tilfellið, en ég held að þar séu aðrir kraftar að verki. Konur langar ekki að finna móðurtilfinningu gagnvart ungum elskhuga og þær vilja heldur ekki að hann líti á þær sem mæður sínar. Þessi staðreynd hefur hugsanlega stoppað konur af, í því að leita félagsskapar miklu yngri karla.

En allt vekur þetta upp þá stóru spurningu, hvort það sé gáfulegt eða kannski bara heimskulegt, að taka upp samband við 20 árum yngri maka, þegar menn eru orðnir 50, 60 eða 70 ára?

Svarið við þeirri spurningu gæti legið í svarinu við eftirfarandi spurningum.

  • Er eitthvað meira á milli ykkar en líkamlegt aðdráttarafl?
  • Finnst þér gaman að vera með vinum kærastans/kærustunnar? Finnst honum/henni gaman að gera með þínum vinum? Ef svo er ekki getið þið gefið hvort öðru það sjálfstæði sem er nauðsynlegt til að viðhalda vinskap, sem þið deilið ekki?
  • Ert þú tilbúin/n til að skilja að þið eruð á sitt hvorum staðnum í lífinu. Annað kannski komið á eftirlaun, en hitt enn að vinna? Þetta getur valdið því að þið eruð með mismunandi plön í gangi. Vikuleg rútína er ekki sú sama og frítíminn ef til vill ekki heldur.
  • Hefurðu nógu sterk bein til að takast á við það að líklega mun sá sem er eldri í sambandinu verða fyrri til að veikjast alvarlega, en sá sem er yngri?
  • Geturðu gert málamiðlanir? Heilsufarsvandamál geta haft áhrif á félagslíf fólks og ferðaplön geta raskast vegna þeirra.

Á sama hátt og ýmislegt er gefandi við aldurinn, er líka margt gefandi við aldursmuninn. Yngri aðilinn nýtur þess að sá eldri er reyndari og hefur oft komið sér betur fyrir. Sá eldri, hefur hugsanlega meiri auraráð og lifir jafnvel áhugaverðara lífi. Yngri maki hefur líka ýmsa kosti fyrir þann eldri. Hann er kraftmeiri og það getur hjálpað parinu að halda sér í formi og líklega einnig virkara í kynlífinu.

En mun sá yngri ekki þurfa að gjalda fyrir sambandið á endanum? Ef menn eru fimmtugir og makinn sjötugur, þá er mjög líklegt að þeir þurfi að fara að sjá um hann löngu áður en það kæmi að slíku í sambandi við jafnaldra. En við elskum þá sem við elskum. Þar að auki eru flestir sáttari við að takast á við erfiða tíma, ef þeir hafa notið lífsins áður í langan tíma.

Börnin þín verða kannski ekki jafn upprifin og þú, yfir unga makanum. Ef þau eru fullorðin getur þeim fundist algerlega óviðeigandi að mamma eða pabbi séu að hitta einhvern sem er á sama aldri og þau. Þau geta haft áhyggjur af arfinum og eiga kannski líka í erfiðleikum með að líta á fertugu stjúpuna nýju, sem móður.

Ef ástin er sönn, er hægt að leysa þessi vandamál og jafnvel fleiri. Þá getur þú og makinn ungi, hrósað happi yfir að hafa haft hugrekki til að stíga út fyrir rammann og láta hugmyndina um aldur lönd og leið.

 

Ritstjórn september 28, 2015 15:01