Grillaður sumarsilungur

Varla er hægt að hugsa sér sumarlegri rétt en grillaðan silung. Silungurinn er hráefni sem er heilsusamlegt fyrir utan að vera ótrúlega bragðgott. Hér er uppskrift að þessu hnossgæti grilluðu. Uppskriftin er upphaflega frá Úlfari Finnbjörnssyni meistarakokki og það staðfestist hér með að silungurinn verður ekki betri ef fólk er á annað borð hrifið af grilluðum fiski. Opnið bleikjurnar á kviðnum og takið beingarðinn úr. Beinhreinsið eins og hægt er. Gott er að grilla fiskinn í þar til gerðri grillgrind sem er klemmd utan um fiskinn þegar búið er að fylla hann. Þar með er einfalt að snúa honum á grillinu. Ef slík grind er ekki við höndina má auðvitað grilla fiskinn sérstaklega og bera hann fram með fyllingunni sér. Uppskriftin er hugsuð fyrir fjóra.

4 silungar, 300-400 g hver

2 msk. olía

8 sólþurrkaðir tómatar, skornir í bita

12 steinlausar ólífur, skornar í sneiðar

12 kubbar af feta osti, skornir til helminga

1 laukur, fínt saxaður

salt og nýmalaður pipar

3 msk. ferskt kóríander eða basil

Kraumið laukinn í olíu þar til hann glansar. Bætið þá tómötum, ólífum og fetaosti á pönnuna og kraumið í 1 mín. til viðbótar. Takið þá allt af pönnunni og kryddið með pipar og kóríander og kælið. Setjið fyllinguna inn í bleikjurnar og komið þeim fyrir á olíusmurðri grind og grillið við mikinn hita í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Berið fram með grilluðum kartöflum og salati.

Ritstjórn júní 25, 2021 07:34