Góður tími til að njóta

Sumarið er tími nýrra uppgötvana, þá er gaman að leita uppi nýja staði, hlusta á nýstárlega tónlist og lesa þær bækur sem hafa farið framhjá manni yfir veturinn. Að undanförnu hafa rekið á fjörur okkar spennandi hluti, sumt gamalt en nýtt fyrir okkur en annað ferskt eins nýslegnir túskildingar.

Rödd úr fortíðinni

Bobbie Gentry var fyrsta kántrísöngkona Bandaríkjanna til að slá í gegn með eigið efni. Hún samdi sjálf lög og texta og stjórnaði upptökum á plötum sínum. Hún var fædd og uppalin í Mississippi og sótti sér innblástur í lífið í Suðurríkjunum. Stærsti og fyrsti smellur hennar Ode to Billy Joe var spilaður látlaust á öllum útvarpsstöðvum sumarið 1967. Síðar átti hún eftir að syngja inn á dúetta með Glen Campell og líklega kannast allir við lagið Little Green Apples af plötu þeirra. En Bobbie er rödd úr fortíðinni sem vert er að hlusta eftir.

Hrein og falleg húð

Íslenskar húðsnyrtivörur eru í mikilli sókn og vert að skoða þau merki þegar fólk vantar nýtt krem í baðskápin. Bioeffect er einna elst og það fyrirtæki hefur slegið í gegn um allan heim. En auk þeirra má nefna Taramar, Sóley Organics, Dr. Bragi, LovaIceland, ChitoCare, Purity Herbs, Urtasmiðjuna, Angan Skincare og Bláa lónið. Hver einn framleiðandi byggir á sérstökum íslenskum innihaldsefnum m.a. jurtum, sjávarafurðum og hreinu íslensku vatni.

Elliðaárstöð

Í gömlu rafstöðinni í Elliðaárdal er nú komið kaffihús. Vinir sem hafa heimsótt það eiga ekki orð yfir hversu gómsætar veitingaranar eru og andrúmsloftið notalegt. Þar verður opnað aftur núna 17. maí og mikið líf og fjör framundan í sumar því fyrirhugaðir eru margvíslegir skemmtilegir viðburðir. Ég hef því hugsað mér að nota fyrsta tækifæri til að heimsækja stöðina og taka barnabörnin með mér.

Vert að horfa á

Á RÚV er nú verið að sýna þættina Bates gegn póstþjónustunni. Þetta eru áhrifamiklir þættir um baráttu venjulegs manns við kerfið. Þeir eru byggðir á sönnum atburðum og snúast um það er breska póstþjónustan tók upp nýtt bókhaldskerfi sem reyndist gallað. Fremur en að viðurkenna að kerfið væri ekki í lagi kusu stjórnendur póstsins að lögsækja fólk er rak pósthús í litlum þorpum úti á landi og saka það um þjófnað þegar bókhaldið stemmdi ekki. Einn maður Alan Bates ákvað að sætta sig ekki við að vera þjófkenndur að ósekju og stofnaði samtök þeirra sem höfðu orðið fyrir þessu. Paula Vennells var yfirmaður bresku póstþjónustunnar á þessum tíma. Hún baðst loks afsökunar tíu árum síðar en viðurkenndi aldrei að hafa leynt sönnunargögnum eða vitað að af villunni í hugbúnaðnum.

Ilmur af sumri

Sumarið er dásamlegur tími til að njóta skilningarvitanna. Eftir góðan rigningaskúr liggur í loftinu gróðurangan og hægt er anda að sér ferskum ilmi. Sumir segja að sól og sandur eigi sína lykt líka, sömuleiðis vatnið og skógurinn. Allt fær einhvern veginn annan blæ. Á gönguferðum í sumar ættu menn þess vegna að gefa sér góðan tíma til að anda að sér og finna lykt af nýslegnum grasi, blómum, trjám og grillinu í garði nágrannans, hlusta eftir niði í lækjum og ám, snerta laufin og horfa á litadýrð blómanna.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 16, 2025 07:00